Skilmálar Fríðu

Skilmálar Fríðu 

1. Almennt

Fríða er fríðindakerfi fyrir korthafa Íslandsbanka hf. (útgefandi). Útgefandi gefur út debet- og kreditkort sem tengjast fríðindakerfi þar sem félagar fá endurgreiðslu vegna afsláttar samkvæmt tilboðum sem félögum standa til boða við notkun á kortunum hjá tilteknum samstarfsaðilum innanlands. Endurgreiðsla er lögð inn á reikning sem félagi  tilgreinir sérstaklega. 

2. Aðild

Einstaklingar, sem eru með tilgreind debet- og/eða kreditkort hjá útgefanda, verða sjálfkrafa aðilar að Fríðu. Aðild er ekki í boði fyrir lögaðila eða einstaklinga með fyrirtækjakort.

Félagi Fríðu samþykkir bæði að hann skilji og samþykki þessa skilmála og réttarsamband sitt við Fríðu. Jafnframt veitir félagi útgefanda fulla heimild til að fá þær upplýsingar og gögn sem þörf er á úr kerfi útgefanda til þess að unnt sé að ljúka vinnslu við tilboðin, þó ávallt innan þeirra marka sem almennir skilmálar og öryggis- og persónuverndarstefna útgefanda setja hverju sinni. 
Útgefanda er þó heimilt að taka saman tölfræðilegar samantektir og aðrar afleiddar ópersónugreinanlegar samantektir án samþykkis félaga og nota í viðskiptalegum tilgangi eða miðla til þriðja aðila enda séu þær aldrei á persónugreinanlegu formi.

Útgefandi áskilur sér rétt til uppsagnar félaga úr Fríðu ef útgefandi getur sýnt fram á brot á reglum þjónustunnar, skilmálum greiðslukorta eða öðrum reglum sem tengjast starfsemi fríðindakerfisins og samstarfsaðilum hans.

3. Endurgreiðslur vegna afsláttar

Fríða mun af og til bjóða félögum upp á tilboð þar sem tiltekin fyrirtæki  og söluaðilar bjóða félögum afslátt  ef verslað er á tilteknu tímabili, að því gefnu að félagi greiði með greiðslukorti sem tengt er við kerfi útgefanda. Tilboð og þar með afslátt þarf að virkja sérstaklega í gegnum app eða tölvupóst. Tilboðin og þar með afslátturinn virkjast ekki ef félagi greiðir með öðrum hætti, t.d. í reiðufé. Tilboðin munu birtast í smáforriti sem útgefandi lætur félaga í té (Kort frá Íslandsbanka). 

4. Tilboð til ákveðinna hópa

Félagi gerir sér grein fyrir því að tilboðum kann eingöngu að vera beint til tiltekinna hópa af félögum, sem valdir eru á ópersónugreinanlegan hátt eftir tilteknum breytum, t.a.m. lýðfræðilegum, búsetu, neysluhegðun, kyni eða öðrum flokkum. Slík tilboð taka þá eingöngu til viðkomandi hópa en ekki annarra.

Félagar Fríðu geta hvenær sem er óskað eftir að skrá sig úr sérsniðnum tilboðum og munu þá í kjölfarið ekki verða send slík tilboð. Viðeigandi korthöfum mun eftir sem áður berast almenn tilboð sem send eru á alla viðeigandi korthafa. 

Félagi veitir útgefanda heimild til þess að senda SMS, MMS, tölvupóst eða önnur rafræn skilaboð um tilboð, afslætti eða sérkjör frá samstarfsaðilum. Félagi veitir útgefanda heimild til að senda félaga skilaboð er verða notkun appsins eða tilkynningar um breytingar á skilmálum appsins. 

5. Fyrirkomulag

Félagi greiðir fullt verð fyrir vöru og/eða þjónustu til viðkomandi fyrirtækis samkvæmt hverju tilboði. Sá afsláttur sem fyrirtækið veitir verður greiddur til útgefanda sem tekur við greiðslunni fyrir hönd félaga og greiðir svo til félaga í samræmi við ákvæði skilmála þessara.

Útgefandi tilkynnir viðkomandi félaga þegar útgefanda hefur borist tilkynning um færslu félaga hjá fyrirtæki á tímabili þegar tilboð var í gangi. Slík tilkynning jafngildir þó ekki að endurgreiðsla hafi borist. Útgefandi sendir viðkomandi fyrirtæki greiðslutilmæli vegna endurgreiðslu 1. hvers mánaðar eftir að tilboð var til staðar. Félagi getur ávallt séð heildarstöðu sína hverju sinni inni á kortaappi Íslandsbanka. Um útgreiðslu fjár vísast til 8. gr. skilmála þessara. Félagi gerir sér grein fyrir því að endurgreiðsla til hans berst ekki fyrr en útgefandi hefur sent út greiðslutilmæli 1. hvers mánaðar eftir að gildistími hvers tilboðs klárast og ennfremur að greiðsla til félaga berst ekki fyrr en söluaðili hefur greitt til útgefanda, sbr. 8. gr. skilmálanna.

6. Varðveisla fjár

Þær greiðslur sem útgefandi tekur við fyrir hönd félaga verða varðveittar aðgreint frá öðrum fjármunum útgefanda á sérstökum reikningi, sem getur verið fjárvörslureikningur, sérstakur bankareikningur eða annars konar sambærilegur reikningur á vegum útgefanda. Útgefandi áskilur sér allan rétt til þess að breyta um reikning eða reikningsform vegna varðveislu fjárins svo framarlega að það skerði ekki rétt félaga. Þá hefur útgefandi heimild til þess að fela fjármálafyrirtæki eða aðila sem hefur leyfi til greiðsluþjónustu samkvæmt lögum nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu, alla umsýslu viðkomandi bankareikningsins og sjá um endurgreiðslu til félaga.

7. Afmörkun afsláttar

Félögum verður kynnt með hverju og einu tilboði með hvaða hætti afslátturinn sem kemur til endurgreiðslu ákvarðast. Sem dæmi getur afslátturinn verið ákveðið hlutfall af kaupverði, eða föst upphæð. Ef félaga stendur til boða fleiri en eitt tilboð í fríðindakerfi frá sama söluaðila á sama tíma þá gildir sá afsláttur sem er hagstæðastur fyrir félaga hverju sinni en safnast ekki upp á milli tilboða hjá sama söluaðila.

8. Greiðslur til félaga

Með vísan til 5. gr. skilmála þessara þá sendir útgefandi greiðslutilmæli 1. hvers mánaðar til þeirra fyrirtækja, sem hafa tekið þátt í tilboði, eftir að því lýkur. Það fé, sem útgefandi hefur móttekið fyrir hönd félaga sinna, verður greitt til hvers félaga með þeim hætti sem auglýstur er á vefsíðu útgefanda. Beri auglýst dagsetning upp á helgi verður greitt út fyrsta virka dag þar á eftir. Greiðslan berst inn á þann reikning sem félagi tilgreinir í kortaappi Íslandsbankai eða netbanka. Félagi ber ábyrgð á því að tilgreina réttan reikning og gerir sér grein fyrir því að útgefandi getur ekki staðreynt hvort reikningur sé sannarlega í eigu hvers og eins félaga. Ennfremur getur útgefandi ekki afturkallað greiðslu sem greidd hefur verið inn á reikning sem tilgreindur hefur verið af félaga. Greiðsla fer fram sjálfkrafa og ekki þarf sérstaka beiðni félaga til þess. Félagar geta ekki fengið féð greitt út á öðrum tíma eða á annan hátt. Útgefanda er ekki heimilt að verja áunnum fjármunum félaga samkvæmt framangreindu upp í vanskil við útgefanda.

Takist endurgreiðsla ekki á tilsettum tíma, s.s. vegna þess að bankareikningur er ekki lengur til staðar, mun útgefandi leita leiða til þess að hafa uppi á félaga með öðrum hætti og greiða féð til viðkomandi. Gangi það ekki eftir mun útgefandi varðveita féð eins lengi og almennar reglur um fyrningu segja til um.

9. Vanskil söluaðila

Félagi gerir sér fulla grein fyrir því að endurgreiðslur til sín eru háðar því að útgefandi fái greitt frá viðkomandi söluaðila. Útgefandi tekur ekki ábyrgð á því að greiðslur frá söluaðila berist og á félagi ekki neina kröfu á útgefanda í slíkum tilfellum. Útgefandi mun hins vegar leitast við að innheimta féð frá viðkomandi söluaðila komi til vanskila og upplýsa viðkomandi félaga um framgang mála í slíkum tilfellum, eins og unnt er.

Kjósi  útgefandi, umfram skyldu, að greiða til félaga kröfu vegna endurgreiðslu sem er í vanskilum hjá fyrirtæki, þá telst félagi við móttöku fjárins (innborgun á reikning hans) hafa staðfest að útgefandi telst þar með réttmætur eigandi kröfunnar á hendur viðkomandi söluaðila.

10. Umboð

Með því að staðfesta skilmála þessa veitir félagi útgefanda fullt og ótakmarkað umboð til þess að móttaka og varðveita fyrir sína hönd endurgreiðslur frá fyrirtækjum vegna tilboða og felst að öðru leyti á skilmála þessa. Ennfremur að útgefandi hafi heimild til þess að koma fram fyrir hönd félaga gagnvart fyrirtækjum sem taka þátt í tilboðum á vegum útgefanda og innheimta það fé sem notandi á inni hjá fyrirtækinu komi til vanskila, sbr. 9. gr. skilmála þessara.

Félagi gerir sér grein fyrir því að útgefandi varðveitir það fé sem fæst endurgreitt fyrir hans hönd þar til það er greitt út til félaga í samræmi við ákvæði þessara skilmála. Félagi gerir sér grein fyrir og samþykkir að ekki leggjast ofan á þá fjárhæð sem hann fær greidda út frá útgefanda vextir eða verðbætur og á félagi ekki kröfu á hendur útgefanda af þeim sökum.

11. Breytingar á skilmálum og fleira

Útgefandi áskilur sér rétt til þess að breyta fyrirkomulagi og skilyrðum Fríðu hvenær sem er. Breytingar á fyrirkomulagi og skilyrðum eru birtar á vef útgefanda, www.islandsbanki.is eða með skilaboðum í netbanka/mínum síðum. Allar breytingar á reglum þessum eru bindandi fyrir félaga klúbbsins 30 dögum eftir að þeim hafa verið kynntar breytingarnar. 

Útgefanda er ekki á neinn hátt ábyrgur fyrir vörum samstarfsaðila Fríðu. Ef upp koma deilumál varðandi eiginleika keyptrar vöru skulu félagar eiga það beint við söluaðila vörunnar án milligöngu útgefanda.

Útgefandi áskilur sér rétt til að hætta viðskiptum við samstarfsaðila Fríðu að undangenginni tilkynningu til félaga, svo sem ef sala á viðkomandi vöru eða þjónustu stríðir gegn lögum eða felur í sér misnotkun á fríðindum.

Fríða er í eigu útgefanda og áskilur útgefandi sér rétt til að hætta rekstri kerfisins hvenær sem er. Útgefandi mun tilkynna félögum um slíka ákvörðun með a.m.k. 2 mánaða fyrirvara á vef útgefanda. Þegar rekstri klúbbsins er hætt falla allar skuldbindingar útgefanda vegna Fríðu niður að þeim réttindum undanskildum sem félagi hefur þá áunnið sér.

Ábendingar eða kröfur, ef einhverjar, skulu sendar skriflega á netfangið islandsbanki@islandsbanki.is innan mánaðar eftir að upp kemur deilumál. Útgefandi tekur afstöðu til allra ábendinga eða krafna innan 14 daga eftir að þær berast og skal afstaða útgefanda vera endanleg og óáfrýjanleg.
Netspjall