Skilmálar Debetkort

Efnisyfirlit

 1. ALMENNT UM DEBETKORT
 2. UMSÓKN OG ÚTGÁFA DEBETKORTS
 3. NOTKUN KORTS
 4. VARÐVEISLA, MEÐFERÐ OG ÁBYRGÐ KORTHAFA
 5. ÚTTEKTIR
 6. NOTKUN ERLENDIS
 7. GLÖTUÐ KORT, LOKUN OG AFTURKÖLLUN
 8. GJALDTAKA
 9. VILLUR OG ÁBYRGÐ
 10. MEÐFERÐ Á PERSÓNUUPPLÝSINGUM
 11. FRÍÐINDAKERFI ÍSLANDSBANKA
 12. BREYTING Á SKILMÁLUM OG AÐRAR TILKYNNINGAR
 13. GILDISTÍMI

1. ALMENNT UM DEBETKORT

 1. Skilmálar þessir taka til korthafa, viðkomandi færsluhirða sem annast kortavinnslu og færslumiðlun og Íslandsbanki hf., (hér eftir ÍSB, bankinn eða útgefandi) sem hefur gefið kortið út til korthafa. Færslur með debetkorti eru skráðar á veltureikning (reikning) sem korthafi skal stofna eða hafa við bankann. Færsluhirðir er aðili sem tekur við kortafærslum og greiðir þær til þjónustuaðila. Færsluhirðir innheimtir síðan kortafærslurnar hjá útgefanda sem innheimtir þær hjá korthafa. Þegar korthafi og reikningshafi eru ekki sami aðili gilda reglur þessar og skilmálar einnig fyrir reikningshafa.
 2. Skilmálar í umsókn um bankareikning ásamt umsókn um yfirdráttarheimild á innlánsreikningi og almennir viðskiptaskilmálar ÍSB eru hluti af skilmálum þessum eins og við getur átt. Ef ósamræmi er milli skilmálanna, ganga ákvæði þessara skilmála framar almennum skilmálum innlánsreikninga og almennum viðskiptaskilmálum.
 3. Borgun hf. auk Reiknistofu bankanna (RB), annast ýmsa þætti debetkortaþjónustu fyrir ÍSB samkvæmt samningum þeirra á milli.
 4. Korthafar geta ávallt nálgast skilmála þessa, verðskrá bankans og vaxtatöflu á vefsíðu Íslandsbanka, www.islandsbanki.is, sem og í útibúum bankans, auk þess sem upplýsingar um framangreint má nálgast með því að hafa samband við þjónustuver bankans.
 5. Íslandsbanki er fjármálafyrirtæki sem veitir viðskiptavinum sínum alhliða fjármálaþjónustu á sviði sparnaðar, lánveitinga, eignastýringar, fyrirtækjaráðgjafar og markaðsviðskipta. Íslandsbanki rekur útibú viðsvegar um landið.
 6. Helstu upplýsingar um Íslandsbanka hf.:
  • Íslandsbanki hf., kennitala. 491008-0160, Hagasmára 3, 201 Kópavogi, Íslandi, sími 440 4000, netfang: islandsbanki@islandsbanki.is,
  • Íslandsbanki er fjármálafyrirtæki samkvæmt 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki og hefur starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu og lýtur jafnframt eftirliti þess. Afgreiðslan og þjónustuverið eru opin virka daga á auglýstum opnunartíma, swift: GLITISRE.

2. UMSÓKN OG ÚTGÁFA DEBETKORTS

 1. Umsækjandi debetkorts skal fylla út umsókn hjá ÍSB eða senda til bankans með rafrænum hætti í gegnum heimasíðu bankans. Bankinn áskilur sér allan rétt til að hafna umsókn um debetkort án þess að tilgreina ástæðu. Umsókn um kortið, ásamt mynd og rithandarsýnishorni væntanlegs korthafa, skal afhenda bankanum,
 2. Korthafi/reikningshafi getur sótt um aukakort á nafni annars aðila, en ber þá korthafi/reikningshafi fulla ábyrgð á notkun þess sem sínu eigin.
 3. ÍSB ákveður gildistíma debetkortsins og er hann skráður á kortið hverju sinni. Kortin eru til notkunar þar sem merki MasterCard er uppi, innan- og utanlands. Um notkunina gildaákvæði skilmála þessara og ákvæði almennra skilmála innlánsreikninga ÍSB um yfirdráttarheimildir, eins og þeir eru á hverjum tíma.
 4. Kortin eru auðkennd með nafni ÍSB sem gefur þau út. Þau eru af tegundinni Debet MasterCard og eru eign ÍSB.
 5. Korthafi skal rita nafn sitt aftan á kortið.
 6. Korthafi heimilar bankanum að endurnýja kortið 6 vikum áður en gildistíminn rennur út og halda áfram að endurnýja kortið með sama hætti á meðan ekki berast skrifleg fyrirmæli um annað frá korthafa.
 7. Óski korthafi eftir að fá kort eða leyninúmer (hér eftir nefnt „PIN númer“) korts heimsent ber hann alfarið ábyrgð á þeirri sendingu og greiðir fyrir samkvæmt verðskrá ÍSB. Hafi korthafa ekki borist kortið eða PIN númerið innan eðlilegs tíma, ber honum að tilkynna það til bankans. Korthafar geta einnig sótt PIN númer í Netbanka sínum í Íslandsbanka.
 8. Með fyrstu notkun debetkortsins telst korthafi hafa samþykkt að hlíta gildandi debetkortaskilmálum Íslandsbanka og bókunaraðferðum bankans. Áður en umsækjandi samþykkir skilmálana ber honum að kynna sér þá vandlega. Debetkortaskilmála Íslandsbanka, eins og þeir eru á hverjum tíma, má finna á heimasíðu ÍSB: www.islandsbanki.is.
 9. Með undirritum umsóknar heimilar korthafi ÍSB vinnslu upplýsinga sem nauðsynlegar eru til reksturs greiðslumiðlunarkerfisins að baki debetkortinu, svo sem að auðkenna greiðslur frá korthafa og tryggja rekjanleika þeirra.

3. NOTKUN KORTS

A. Almennt

 1. Korthafi hefur einn heimild til að nota kort sitt.
 2. Debetkort má nota á eftirfarandi hátt:
  • sem alþjóðlegt greiðslukort til kaupa á vöru eða þjónustu,
  • sem hraðbankakort til úttektar á reiðufé í hraðbönkum,
  • til auðkenningar í hraðbönkum ÍSB,
  • sem bankakort til úttektar eða greiðslu á banka/sparisjóði,
 3. Kortið er einungis hægt að nota með lestri upplýsinga af segulrönd/örgjörva þess á rafrænan hátt, þ.m.t. með snertilausum hætti. Korthafa er því óheimilt að gefa upp númer kortsins eða PIN númer þess til greiðslu án rafrænnar notkunar þess, nema útgefandi hafi samþykkt slíka notkun. Kortið gildir ekki til greiðslu símleiðis eða bréflega.
 4. Framvísun korthafa á debetkorti á sölustað felur í sér samþykki fyrir greiðslu og greiðslufyrirmæli verða ekki afturkölluð þegar segulrönd kortsins/örgjörvi hefur verið lesin/n.

B. Debetkort sem greiðslukort

 1. Þegar korthafi greiðir fyrir vöru eða þjónustu með debetkorti sínu og undirritar kaupnótu eða notar PIN númer eða snertilausa staðfestingu vegna þeirra viðskipta, þá staðfestir hann að næg ráðstöfunarfjárhæð sé á reikningi sínum og samþykkir þar með, að sú upphæð sé tekin út af honum samkvæmt færslu- og bókunaraðferðum ÍSB.
 2. Korthafi á rétt á eintaki af sölunótu við notkun kortsins, en annað eintak er varðveitt hjá seljanda. Færsluboð eru send frá seljanda rafrænt til uppgjörs hjá banka/sparisjóði seljanda og korthafa. Upplýsingar um viðskipti geymast í bókhaldi þess aðila og verða ekki látnar öðrum í té, nema vegna rannsóknar opinberra mála, sé þeirra krafist
 3. Sérhver ágreiningur eða tjón vegna kaupa á vöru eða þjónustu sem greidd er með kortinu er útgefanda þess algerlega óviðkomandi og án ábyrgðar fyrir hann.
 4. ÍSB er heimilt að skuldfæra viðskiptareikning korthafa fyrir úttektum hans með korti miðað við útgáfudag/dagsetningu kaupnótu. Korthafi getur ekki afturkallað greiðslur er hann innir af hendi með korti sínu.
 5. Við kaup á vöru og þjónustu skal korthafi sjálfur slá inn PIN númer sitt, fari sölu- eða þjónustuaðili fram á slíkt, eða rita nafn sitt með eigin hendi á sölunótu/samning, enda sé ekki um snertilausa notkun sé að ræða. Með áritun á sölunótu eða innslætti á PIN númeri eða við snertilausa notkun samþykkir korthafi þau viðskipti sem tilgreind eru á sölunótunni/samningi.

C. Debetkort í hraðbönkum

 1. Þegar debetkortið er notað í hraðbönkum skal slá inn PIN númer og telst notkun á kortinu með þeim hætti vera samþykki korthafa til bankans fyrir úttekinni fjárhæð.
 2. ÍSB ákvarðar þá þjónustu sem hraðbankinn veitir á hverjum tíma og áskilur sér rétt til að auka hana eða minnka, svo sem hámarksfjárhæð úttekta hverju sinni og á hverjum sólarhring. Yfirlit yfir þá þjónustu sem hraðbankar Íslandsbanka veita á hverjum tíma má finna heimasíðu. ÍSB: www.islandsbanki.is/um-islandsbanka/utibu-og-thjonusta/hradbankar/. 
 3. Við peningaúttekt eða aðrar aðgerðir og afgreiðslur í hraðbanka, eða öðrum sjálfsafgreiðslutækjum, er notkun PIN númers ígildi undirskriftar korthafa.
 4. ÍSB áskilur sér rétt til að loka hraðbanka um stundarsakir, á meðan eftirlit eða önnur vinna við hann útheimtir að hann sé lokaður. Korthafi á ekki rétt á skaðabótum vegna tjóns sem hann kann að verða fyrir ef hraðbanki er tekinn úr notkun eða bilar.

D. Debetkort til úttektar í banka/sparisjóði

 1. Við peningaúttekt eða greiðslu í banka eða sparisjóði skal framvísa kortinu hjá gjaldkera. Afgreiðsla fer fram á rafrænan hátt og gilda um hana liðir B-i, ii og iv 3. gr.og h liður 5. gr. í reglum þessum.

4. VARÐVEISLA, MEÐFERÐ OG ÁBYRGÐ KORTHAFA

 1. Kortið er verðmæti sem skal gæta eins og peninga.
 2. Upplýsingar um PIN númer fyrir debetkort eru sendar í netbanka korthafa. Korthafi getur gegn gjaldi óskað eftir því að fá upplýsingar um PIN númer fyrir debetkort sendar á lögheimili sitt. Kostnaður vegna heimsendingar fer eftir verðskrá ÍSB hverju sinni. PIN númerið er notað til að framkvæma greiðslur í verslunum þar sem beðið er um slíkt eða til úttekta í hraðbönkum.
 3. Korthafi ábyrgist að varðveita kortið og PIN númer þess þannig að enginn annar en hann geti notað það.
 4. Korthafi skuldbindur sig til:
  1. að láta PIN númerið ekki öðrum í té,
  2. að geyma PIN númerið ekki með kortinu né í veski, snjalltæki eða öðrum rafrænum búnaði með þeim hætti að hann kunni að vera aðgengilegur öðrum,
  3. að eyðileggja umslag og miða þar sem PIN númer er skráð um leið og hann hefur móttekið og lært PIN númerið eða skráð það á öðrum stað en greinir í lið ii,
  4. að láta ekki skráningu gefa til kynna að um sé að ræða PIN númer vegna debetkorts, hafi hann skráð PIN númerið á tiltekinn stað,
  5. að ganga úr skugga um að enginn sjái PIN númerið þegar það er slegið inn. Varðveiti korthafi PIN númer sitt ekki í samræmi við ofangreint eða á annan þann hátt sem eykur verulega hættu á misnotkun telst það stórfellt gáleysi.
 5. Korthafi/reikningshafi getur sótt um aukakort á nafni annars aðila, en ber þá fulla ábyrgð á notkun þess sem sínu eigin. Að öðru leyti gilda ákvæði þessara skilmála um aukakortið.
 6. Korthafi ber ábyrgð á öllum greiðslum/úttektum með notkun debetkorts hans, sbr. þó ákvæði 9. gr. þessara skilmála.
 7. Aukakorthafi ber ábyrgð á greiðslum/úttektum á sama hátt og aðalkorthafi.
 8. Korthafi ábyrgist tjón gagnvart ÍSB sem verður vegna vanrækslu hans við vörslu eða notkun kortsins eða PIN númers þess, sbr. 9 gr.
 9. Kortahafa er skylt að tilkynna ÍSB um aðsetursskipti eins fljótt og auðið er svo tryggt sé að reikningsyfirlit og aðrar upplýsingar berist honum.
 10. ÍSB ákveður hvaða öryggisþættir eru notaðir við framkvæmd færslna eða annarra viðskipta við bankann. Bankanum er heimilt að innkalla debetkort til uppfærslu á öryggisþáttum. Bankinn getur gert viðskiptavini að skipta út öryggisþáttum ef grunur leikur á misnotkun eða villuhættu.

5. ÚTTEKTIR

 1. Kortið er tengt veltureikningi korthafa hjá ÍSB. Heimild til greiðslu/úttektar með kortinu takmarkast því við þá ráðstöfunarfjárhæð sem er til reiðu á þeim reikningi þegar kortið er notað. Sé kortið notað til auðkenningar í hraðbönkum takmarkast heimild til greiðslu/úttektar af öðrum reikningum við innstæðu eða ráðstöfunarfjárhæð viðkomandi reiknings, að teknu tilliti til hámarksfjárhæða úttekta/aðgerða sem gilda hverju sinni og á hverjum sólahring í hraðbönkum ÍSB í samræmi við ákvæði C-liðar 3.gr. þessa skilmála.
 2. Korthafi getur óskað eftir yfirdráttarheimild á veltureikning sinn í bankanum. Ef bankinn samþykkir heimildina, gilda um hana almennir skilmálar Íslandsbanka um yfirdráttarlán. Korthafi getur notað umsamda yfirdráttarheimild til þess að framkvæma greiðslur með debetkorti.
 3. Korthafi skuldbindur sig til að eiga ávallt næga innstæðu eða yfirdráttarheimild fyrir hverri greiðslu/ úttekt af þeim reikningi sem kortið er tengt. Hann ábyrgist að fara ekki yfir ráðstöfunarfjárhæð sína með notkun kortsins.
 4. Reynist innstæða ekki næg eða yfirdráttarheimild ekki fyrir hendi vegna greiðslu/úttektar þá er korthafa kunnugt um að slíkar aðstæður geta haft í för með sér refsiábyrgð lögum samkvæmt. Slíkar úttektir munu jafnframt hafa í för með sér kostnað samkvæmt verðskrá ÍSB hverju sinni.
 5. Bankinn áskilur sér rétt til að synja um heimild fyrir úttekt eða greiðslu með debetkorti. Algengustu ástæður þess að bankinn synjar úttektarbeiðni eru eftirfarandi:
  • Kort hefur verið tilkynnt glatað eða stolið.
  • Fjárhæð greiðslu fer yfir ráðstöfunarfjárhæð á reikningi.
  • PIN númer hefur verið rangt slegið inn.
  • Gildistími kortsins er útrunninn.
  • Lög kveða á um annað.
 6. Sé fyrir hendi rökstuddur grunur um óheimila eða sviksamlega notkun kortsins áskilur bankinn sér rétt til að synja um úttektarheimild og loka korti. Í því tilviki er korthafa gert viðvart í framhaldinu án tafar. Reynist sá grunur ekki á rökum reistur er opnað fyrir notkun kortsins að nýju.
 7. Útgefandi kortsins er ekki ábyrgur fyrir tjóni sem verður vegna lagaboða, aðgerða stjórnvalda, náttúruhamfara, stríðs, verkfalls, verkbanns, skæruverkfalla eða annarra slíkra aðstæðna, rafmagnstruflana eða rafmagnsleysis, né vegna truflana í símkerfi eða öðrum boðleiðum eða samgöngum.
 8. Korthafi getur nálgast reikningsyfirlit yfir úttektir og notkun debetkorts í netbanka sínum hjá ÍSB og/eða gegn gjaldi samkvæmt verðskrá ÍSB hverju sinni í útibúi bankans á prentuðu reikningsyfirliti ef korthafi óskar eftir því. Greiðslur með debetkorti koma fram á yfirliti þess reiknings sem kortið er tengt og korthafi fær sent frá ÍSB með umsömdu millibili. Einnig er hægt að nálgast reikningsyfirlit í Netbanka ÍSB. Á yfirlitinu kemur fram nafn seljenda, þar sem kortið var notað, ásamt dagsetningu og upphæð. Ef um erlend viðskipti er að ræða kemur fram upphæð þess gjaldmiðils sem verslað var fyrir og viðmiðunargengi, sbr. 6. gr. þessara skilmála

6. NOTKUN ERLENDIS

 1. Úttekir korthafa í erlendri mynt eru umreiknaður í íslenskar krónur á því Mastercard gengi sem í gildi er á þeim degi er færslan kemur sem inn í kortakerfi útgefanda sem úttekt. Korthafi greiðir einnig sértakt úttektar- eða greiðslugjald samkvæmt verðskrá bankans, eins og hún er hverju sinni. Upplýsingar um Mastercard gengi er að finna á heimasíðu Íslandsbanka: www.islandsbanki.is. Gengi er skráð alla virka bankadaga. Gengi er ekki skráð á innlendum frídögum eða á frídögum sem taka til alþjóðlegra kortasamsteypa. Verði gengi skráð á öðrum dögum tekur sú breyting gildi þegar í stað en ekki samkvæmt 12. gr. a. Notkun korts í gjaldeyrisviðskiptum er háð upplýsingaskyldu til Seðlabanka Íslands samkvæmt lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál og reglum settum með heimild í þeim lögum.
 2. Skiladagur færslu frá söluaðila til færsluhirðis ræður því, til hvaða kortatímabils úttekt heyrir.

7. GLÖTUÐ KORT, LOKUN OG AFTURKÖLLUN

 1. Glatist kort, verði korthafi var við óheimilar greiðslur eða vakni grunur um misnotkun kortsins ber korthafa tafarlaust að tilkynna það til ÍSB eða næsta umboðsaðila Mastercard/Borgunar hf., hvar sem er í heiminum. Korthafi á rétt á að fá staðfestingu á að hann hafi sinnt tilkynningarskyldu sinni. Um leið og tilkynning hefur verið móttekin ber þeim sem tók á móti tilkynningunni að loka kortinu og koma í veg fyrir frekari notkun þess og/eða misnotkun. Sá sem móttekur tilkynningu korthafa, hvort heldur sem er bankinn eða umboðsaðili Mastercard/Borgunar, ber að geyma slíka tilkynningu í 18 mánuði.
 2. Óski korthafi eftir nýju korti í stað glataðs ber honum að skila til bankans yfirlýsingu um glatað kort og staðfesta umsókn um nýtt kort. Nýtt kort verður þá gefið út gegn gjaldi samkvæmt verðskrá ÍSB.
 3. Glati korthafi korti sínu erlendis býðst honum neyðarfé fyrir milligöngu Borgunar hf. Kostnaður vegna þessarar þjónustu skuldfærist af reikning korthafa samkvæmt verðskrá ÍSB eins og hún er á hverjum tíma.
 4. Finni korthafi kort sem tilkynnt hefur verið glatað er honum óheimilt að nota það. Tilkynna ber ÍSB eða Borgun hf. endurheimtuna og koma kortinu sundurklipptu til viðskiptaútibús síns eða næsta útibús.
 5. ÍSB getur afturkallað kortið fyrirvaralaust komi til misnotkunar á því eða brota korthafa á reglum og skilmálum sem um kortið gilda að mati útgefanda eða um vanskil hjá korthafa er að ræða.
 6. ÍSB hefur heimild til þess að skrá öll afturkölluð kort og miðla þeim upplýsingum til seljenda vöru og þjónustu. Ef seljandi óskar þess að korthafi skili eftirlýstu korti, þá ber honum að afhenda það.
 7. Bankinn áskilur sér rétt til að setja og varðveita á lokanaskrá banka og sparisjóða upplýsingar um ógildingu korts vegna misnotkunar.
 8. Korthafa er óheimilt að nota kortið eftir að gildistími þess rennur út eða hefur verið ógilt. Misnotkun kortsins varðar við lög sbr. m.a. 249 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

8. GJALDTAKA

 1. Við fyrstu útgáfu debetkorts greiðir korthafi sérstakt stofngjald auk venjulegs árgjalds samkvæmt verðskrá ISB eins og hún er á hverjum tíma.
 2. Af peningaúttektum reiknast úttektargjald og þóknun. Korthafi greiðir gjöld vegna notkunar kortsins, svo sem ár- og færslugjöld, samkvæmt verðskrá ÍSB á hverjum tíma.
 3. Ef korthafi hefur yfirdráttarheimild á veltureikningi sem tengdur er við debetkort hans greiðir hann yfirdráttavexti samkvæmt gildandi vaxtatöflu hverju sinni. Íslandsbanka er heimilt að breyta yfirdráttarvöxtum fyrirvaralaust samkvæmt almennum skilmálum Íslandsbanka um yfirdráttarlán að teknu tilliti til ákvæða laga um neytendalán og greiðsluþjónustu eins og við getur átt hverju sinni..
 4. ÍSB er heimilt að færa korthafa til gjalda á viðskiptareikningi hans gjöld vegna notkunar samkvæmt verðskrá ÍSB.
 5. Verðskrá og vaxtatafla Íslandsbanka veita upplýsingar um gjöld, vaxtakjör og annað sem tengist notkun debetkorta og eru aðgengilegar á vefsíðu bankans: https://www.islandsbanki.is/um-islandsbanka/utibu-og-thjonusta/verdskra/ og í útibúum hans.
 6. Breytingar á verðskrá bankans verða tilkynntar á heimasíðu ÍSB. Telst sú birting fullnægja kröfum laga um neytendalán nr. 33/2013.

9. VILLUR OG ÁBYRGÐ

 1. Hafi korthafi athugasemdir við reikningsyfirlit sitt ber honum að senda skriflega og undirritaða athugasemd til bankans innan 30 daga frá greiðslu eða 10 daga frá því að honum berst reikningsyfirlit. Þegar korthafi er lögaðili skal hann gera athugasemdir við reikningsyfirlit innan 10 daga frá greiðslu.
 2. Telji korthafi að kort hans hafi verið notað með sviksamlegum hætti ber honum að tilkynna það án tafar til bankans. Í öllum tilvikum þegar grunur um sviksamlega kortanotkun er fyrir hendi ber bankanum að loka korti og korthafa að afhenda kortið til bankans. Eftir að tilkynning hefur borist til bankanum ber korthafi ekki tjón vegna úttekta sem hann á ekki sannarlega aðild að, nema að korthafi hafi sýnt af sér sviksamlega háttsemi. Korthafa ber skylda til að aðstoða bankann og Borgun við að upplýsa málsatvik og lágmarka tjónið eins og kostur er.
 3. Þrátt fyrir a og b lið 9. gr. hefur korthafi að hámarki 13 mánuði til að gera athugasemdir við reikningsyfirlit. Tímafrestur samkvæmt ákvæði þessu gildir þó aðeins ef korthafi getur sýnt fram á að bankinn hafi ekki uppfyllt skilyrði h. liðar 5. gr. um aðgengi korthafa að reikningsyfirliti. Þetta ákvæði á ekki við þegar korthafi er lögaðili.
 4. Korthafi ber sjálfsábyrgð vegna óheimilaðra greiðslna að fjárhæð sem svarar til allt að EUR 150, miðað við opinbert viðmiðunargengi hverju sinni, ef hinar óheimiluðu greiðslur má rekja til þess að korthafi hefur týnt debetkortinu eða kortinu hefur verið stolið eða notað með öðrum óréttmætum hætti áður en hvarf eða misnotkun þess er tilkynnt og notkunina má rekja til þess að korthafi uppfyllti ekki skyldu sína samkvæmt c og d lið 4. gr. Við ákvörðun fjárhæðar sjálfsábyrgðar er m.a. horft til málsatvika þegar kortið týndist, glataðist eða var nýtt með óréttmætum hætti og hvernig korthafi varðveitti kort sitt og PIN númer. Korthafi er ábyrgur fyrir öllum úttektum sem staðfestar eru með PIN númeri, hafi hann ekki varðveitt PIN númer í samræmi við d lið 4. gr., enda telst varðveisla með öðrum hætti stórfellt gáleysi. Korthafi er einnig ábyrgur fyrir öllum snertilausum úttektum, hafi hann ekki áður tilkynnt útgefanda á sannanlegan hátt að kortinu hafi verið stolið
 5. Korthafi ber ábyrgð á öllu tjóni vegna óheimilaðra greiðslna ef stofnað er til þeirra með sviksamlegum hætti eða ef korthafi hefur vanrækt skyldur sínar samkvæmt c og d lið 4. gr., 7. gr. og 9. gr. af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.
 6. Þegar korthafi er ekki neytandi ber hann allt tjón sem hlýst vegna óheimilaðra greiðslna ef hann hefur vanrækt skyldur sínar samkvæmt þessum skilmálum.
 7. Korthafi ber ekki ábyrgð á notkun korts eftir að hann hefur tilkynnt það glatað, nema hann hafi sýnt af sér sviksamlega háttsemi. Auk þess ber korthafi ekki ábyrgð á notkun korts eftir að hann hefur tilkynnt það glatað ef móttakandi tilkynningar hefur ekki lokað kortinu strax í kjölfar tilkynningar, sbr. a lið 7. gr., nema korthafi hafi sýnt af sér sviksamlega háttsemi.
 8. Útgefandi ber ekki ábyrgð á tjóni korthafa vegna tæknilegrar bilunar í hraðbanka eða öðru sjálfsafgreiðslutæki, né heldur á tjóni korthafa sem hlýst af því að sjálfsafgreiðslutæki hefur ekki samband við heimildarkerfi útgefanda. Telji korthafi og/eða reikningshafi sig hafa orðið fyrir tjóni vegna þessa, hvílir sönnunarbyrðin á færsluhirði sem ber, fyrir hönd viðkomandi sölu- eða þjónustuaðila, að sýna fram á að viðskiptin hafi verið rétt skráð og réttilega færð inn á reikninga og að tæknibilun eða aðrir hnökrar hafi ekki valdið rangri skráningu sem leitt hafi til tjóns.Telji korthafi að hann hafi orðið fyrir slíku tjóni skal hann senda útgefanda skriflega kvörtun. Útgefandi framsendir kvörtun korthafa til færsluhirðis. Ábyrgð færsluhirðis tekur ekki til tjóns sem kann að leiða af því að umbeðin fjárhæð, vara eða þjónusta, fæst ekki afhent, heldur takmarkast hún við beint fjárhagslegt tjón korthafa. Færsluhirðir ábyrgist ekki tjón þegar tæknibilun á að vera korthafa ljós, svo sem þegar skilaboð þess efnis koma fram á tölvuskjá.

10. MEÐFERÐ Á PERSÓNUUPPLÝSINGUM

 1. Persónuupplýsingar þær sem safnast í tengslum við umsókn um debetkort verða skráðar í tölvukerfi útgefanda þ.á m. upplýsingar um korthafa, aukakorthafa og ábyrgðarmenn. Upplýsingar sem hér um ræðir eru m.a. kennitala, heimilisfang og aðrar þær upplýsingar sem aðilar hafa veitt bankanum með útfyllingu eyðublaða og forma bankans. Upplýsingarnar eru aðgengilegar afkomusviðum bankans sem kunna að vera rekin undir öðrum auðkennum, svo sem ERGO og Kreditkort, nema að að reglur um aðskilnað viðkomandi sviðs frá meginstarfsemi (Kínaveggir) eigi við. Íslandsbanka er einnig heimilt að afhenda öðrum félögum innan Íslandsbankasamstæðunnar persónuupplýsingar um viðskiptavini sína án samþykkis hafi viðskiptavinur leitað eftir þjónustu frá viðkomandi félögum.
 2. Allar upplýsingar um kortareikninga og notkun korta eru vistaðar í tölvukerfi bankans. Dulkóðaðar upplýsingar um færslur á korti korthafa eru sendar alþjóðlegum kortasamsteypum, sbr. grein 1.a., þ.e. upplýsingar um kortnúmer, hvenær færsla er gerð, fjárhæð færslu og hver er starfsemi seljanda.
 3. Bankanum er heimilt lögum samkvæmt að halda utan um og vinna með upplýsingarnar með rafrænum hætti. Vinnsla getur t.d. verið nauðsynleg við gerð viðskiptasamninga, til að þjóna þeim á gildistíma þeirra og í því skyni að setja fram og birta upplýsingar í netbanka og snjalltækjum. Vinnsla persónuupplýsinga getur einnig verið notuð sem grundvöllur fjármálaráðgjafar og greiningar viðskiptavina. 
 4. Bankinn kann að nota persónuupplýsingar í markaðslegum tilgangi, þ.m.t. til að þróa nýjar þjónustuleiðir og viðskiptalausnir sem beint er til ákveðins hóps viðtakenda á grunni persónuupplýsinga. Bankinn getur haft samskipti í þessu skyni við viðskiptavini í gegnum sms, tölvupóst, netbanka eða önnur rafræn skilaboð. Bankinn notar sams konar samskiptaleiðir til að meta gæði þjónustu sem bankinn veitir. Viðskiptavinir bankans geta óskað eftir því að notkun persónugreinanlegra upplýsinga eða sending tölvupósts í markaðslegum tilgangi fari ekki fram.
 5. Flokkun persónuupplýsinga, svo sem vegna fjármálalegra færslna sem viðskiptavinur hefur aðgang að í gegnum netbanka- eða snjalltækjalausnir, má setja fram gagnvart viðskiptavini með hverjum þeim hætti sem eykur notkunargildi þeirra og gegnsæi eða til að uppfylla þá þjónustuþætti sem í boði eru á hverjum tíma, enda sé öryggi upplýsinganna tryggt með fullnægjandi hætti eftir sem áður.
 6. Það kann að vera að upplýsingunum sé deilt með þriðja aðila t.d. til eftirlits- eða til þjónustuaðila en fyllsta öryggis og trúnaðar er gætt við slíka miðlun.
 7. Vinnsla og geymsla persónuupplýsinga skal vera í samræmi við það sem nauðsynlegt er til starfrækslu greiðslumiðlunar. Þá getur vinnsla persónuupplýsinga verið nauðsynleg við rannsóknir ef grunsemdir vakna um peningaþvætti eða aðra sviksemi og byggir slík vinnsla á viðeigandi löggjöf. Bankinn skal gæta þess að vinnsla og vistun persónuupplýsinga sé ætíð í samræmi við gildandi lög og reglur.
 8. Viðskiptavinir bankans eiga rétt á að fá upplýsingar um hvaða persónuupplýsingar bankinn hefur skráð um þá samkvæmt ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og í samræmi við reglur Íslandsbanka um meðferð viðskiptamannaupplýsinga. Nánari upplýsingar um meðferð, vinnslu persónuupplýsinga og réttindi einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga hjá Íslandsbanka má finna hér: www.islandsbanki.is/personuvernd

11. FRÍÐINDAKERFI ÍSLANDSBANKA

 1. Íslandsbanki hf. gefur út debetkort tengt fríðindakerfi Íslandsbanka.
 2. Fríðindakerfi Íslandsbanka býður korthöfum af og til upp á tilboð þar sem tiltekin fyrirtæki og söluaðilar bjóða korthöfum afslátt ef verslað er á tilteknu tímabili, að því gefnu að korthafi greiði með greiðslukorti sem tengt er við fríðindakerfið. Tilboðin og þar með afslátturinn virkjast ekki ef korthafi greiðir með öðrum hætti, t.d. í reiðufé. Tilboðin munu birtast í smáforriti sem Íslandsbanki lætur korthafa í té (Íslandsbanka Appinu). Korthafi greiðir fullt verð fyrir vöru og/eða þjónustu til viðkomandi fyrirtækis samkvæmt hverju tilboði. Sá afsláttur sem fyrirtækið veitir verður greiddur til Íslandsbanka sem tekur við greiðslunni fyrir hönd korthafa og greiðir svo til korthafa í samræmi við skilmála fríðindakerfisins.
 3. Tilboðum fríðindakerfisins kann að vera eingöngu beint til tiltekinna hópa af korthöfum. Mismunandi tilboð eru í boði fyrir ólíka hópa viðskiptavina hverju sinni sem valdir eru eftir lýðfræðilegum breytum og neysluhegðun. Slík tilboð taka þá eingöngu til viðkomandi hópa en ekki annarra. Korthafi þarf að veita sitt samþykki til að fá send slík sérsniðin tilboð en slíkt samþykki er ávallt hægt að veita gegnum smáforrit Íslandsbanka (Íslandsbanka appinu/Kreditkorts appinu).
 4. Korthafar geta hvenær sem er óskað eftir að skrá sig úr sérsniðnum tilboðum og munu þá í kjölfarið ekki verða send slík tilboð. Viðeigandi korthöfum mun eftir sem áður berast almenn tilboð sem send eru á alla viðeigandi korthafa.
 5. Fríðindakerfið er í eigu Íslandsbanka og áskilur bankinn sér rétt til að hætta rekstri kerfisins hvenær sem er. Íslandsbanki mun tilkynna korthöfum um slíka ákvörðun með a.m.k. 2 mánaða fyrirvara. Ef rekstri kerfisins er hætt falla allar skuldbindingar Íslandsbanka vegna fríðindakerfisins niður að þeim ávinningi frátöldum sem korthafi hefur aflað sér fyrir lokunina.

12. BREYTING Á SKILMÁLUM OG AÐRAR TILKYNNINGAR

 1. Bankinn hefur heimild til að breyta ákvæðum skilmála þessara einhliða. Ef breytingar eru íþyngjandi fyrir korthafa skal honum tilkynnt um þær á tryggan hátt, s.s. með skilaboðum í netbanka, með tölvupósti á tilkynnt netfang korthafa eða með tilkynningu á vefsíðu Íslandsbanka, eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir gildistöku þeirra. Korthafi skal hafa aðgang að gildandi skilmálum á pappír eða á rafrænu formi. Aðrar breytingar er bankanum heimilt að birta með tilkynningu á heimasíðu sinni: www.islandsbanki.is, í netbanka og í útibúum sínum. Korthafi telst hafa samþykkt breytinguna tilkynni hann ekki um annað fyrir fyrirhugaðan gildisdag, sem og ef hann notar kortið eftir að nýir skilmálar hafa tekið gildi.
 2. Vilji korthafi segja kortinu upp skal hann tilkynna það skriflega til ÍSB og skila kortinu sundurklipptu.
 3. Korthafi getur skotið ágreiningi er varðar fjárhagslegar kröfur og einkaréttarlega hagsmuni til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, sbr. 19. gr. a í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Upplýsingar um úrskurðarnefndina er að finna á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins,www.fme.is.
 4. Öll mál, sem rísa kunna af notkun kortsins skulu, nema á annan veg sé samið, fara eftir íslenskum lögum. Korthafi samþykkir auk þess að ÍSB megi reka innheimtumál í því landi sem korthafi hefur búsetu hverju sinni.
 5. Rísi mál vegna brota á skilmálum þessum eða ágreinings um túlkun þeirra má reka það fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

13. GILDISTÍMI

 1. Skilmálar þessir eru gefnir út á íslensku og gilda frá og með 15.07.2018 og til þess tíma er nýir skilmálar taka gildi samkvæmt, sbr. 12. gr. a.

 

Reykjavík, júlí 2018.

Íslandsbanki hf.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall