Vaxtagreiðsluþak

Vaxtagreiðsluþak er þjónusta sem veitir viðskiptavinum með óverðtryggð húsnæðislán skjól fyrir sveiflum í greiðslubyrði við hækkun vaxta.

Þjónustan í hnotskurn:

 • Þú velur vaxtagreiðsluþakið sjálf/ur sem þó verður að vera yfir 7,5% ársvöxtum sem er lágmarkið*
 • Ef vextir lánsins hækka umfram það vaxtagreiðsluþak sem þú hefur valið tekur vaxtagreiðslan mið af því þaki en sú upphæð sem ber á milli ríkjandi vaxta skv. vaxtatöflu og vaxta reiknuðum samkvæmt vaxtagreiðsluþaki leggst við höfuðstól lánsins.
 • Þeir vextir sem leggjast við höfuðstól koma til greiðslu á þeim gjalddögum sem eftir eru af láninu (dreifast á lánstímann).
 • Vaxtagreiðsluþak hentar þeim lántakendum sem vilja jafna greiðslubyrðina við hækkandi vaxtastig.

Dæmi um virkni þjónustunnar miðað við mismunandi vaxtastig:

A. Þegar vextir láns eru lægri en (eða jafnt og) það vaxtagreiðsluþak sem lántaki velur tekur vaxtagreiðsla mið af ríkjandi vaxtatöflu

Dæmi: Vextir láns þróast frá 6,15% til 7,40% en skilgreint vaxtagreiðsluþak er 7,5% ársvextir

=> allir áfallnir vextir eru greiddir og engir vextir lagðir við höfuðstól

B. Þegar vextir eru hærri en það vaxtagreiðsluþak sem lántaki hefur valið tekur vaxtagreiðsla mið af vaxtagreiðsluþakinu en mismunur á þakinu og gildandi vöxtum leggst við höfuðstól lánsins

Dæmi: Vextir láns eru 8,5% en vaxtagreiðsluþak er 7,5% ársvextir

=> greiddir vextir eru 7,5% en 1,0% ársvextir eru lagðir við höfuðstól og koma til greiðslu með afborgunum út lánstímann

Kostir

 • Dregur úr óvissu um greiðslubyrði óverðtryggðra húsnæðislána og veitir lántakendum öryggi
 • Auðveldar lántakendum að vera á óverðtryggðum lánaskilmálum þrátt fyrir hærra vaxtastig
 • Hraðari eignamyndun samanborið við verðtryggð húsnæðislán að því gefnu að vaxtaþróun sé í samræmi við þróun verðbólgu á hverjum tíma
 • Lántaki velur sjálfur hvar vaxtagreiðsluþakið umfram 7,5% ársvexti liggur og getur því stillt greiðslubyrðina af miðað við sína eigin greiðslugetu

Ókostir

 • Ef vextir fara umfram vaxtagreiðsluþakið þá er hluta af vaxtagreiðslunni frestað í stað þess að hún sé greidd á hverjum gjalddaga
 • Höfuðstóll lánsins verður hærri en hann ella hefði orðið ef vextir lánsins eru umfram vaxtagreiðsluþakið
 • Heildarvaxtakostnaður lánsins hækkar þegar höfuðstóll hækkar
 • Til lengri tíma litið hækkar greiðslubyrði lánsins þegar að vöxtum er bætt við höfuðstól en hóflega þó þar sem afborganir höfuðstóls dreifast á þá gjalddaga sem eftir eru af lánstímanum

Spurt og svarað

Opna allt
Þjónustan er í boði fyrir lántakendur Íslandsbanka sem eru með óverðtryggð húsnæðislán. Þjónustan hentar þeim lántakendum best sem þurfa að minnka sveiflur í greiðslubyrði lánsins vegna hækkandi vaxtastigs en hafa engu að síður greiðslugetu til að greiða vexti miðað við skilgreint vaxtagreiðsluþak. Sérstök athygli er vakin á því að heildarvaxtakostnaðurinn er minni með því að staðgreiða vaxtakostnaðinn með óbreyttum lánaskilmálum í stað þess að fresta greiðslu þess kostnaðar eins og þjónustan felur óhjákvæmilega í sér.
a) Vegna útistandandi óverðtryggðra húsnæðislána er útbúinn sérstakur viðauki við veðskuldabréfið (skilmálabreyting) sem þarf að undirrita af viðskiptavini og þinglýsa (með samþykki síðari veðhafa ef einhverjir eru). Þegar búið er að þinglýsa heimildinni getur viðskiptavinur hvenær sem er óskað eftir því að vaxtagreiðsluþakið sé sett á með því að fylla út beiðni þar að lútandi. Athugið að beiðni um gildistöku þarf að berast a.m.k. 15 dögum fyrir næsta gjalddaga lánsins til þess að Vaxtagreiðsluþakið taki gildi fyrir næsta vaxtatímabil þar á eftir.

b) Vegna nýrra óverðtryggðra húsnæðislána er nóg að skrifa undir beiðni um gildistöku hjá ráðgjöfum í útibúum um að þjónustan verði virkjuð. Ekki þarf að koma til þinglýsingar á sérstökum viðauka þar sem skilmálar um vaxtagreiðsluþak eru þegar inni í nýjum veðskuldabréfum óverðtryggðra húsnæðislána.

Kostnaður við skilmálabreytingu (viðauki útbúinn) og skráningu í þjónustuna tekur mið af verðskrá bankans hverju sinni,nú:

 1. kostnaður við skilmálabreytinguna er sem stendur kr. 10.000- 
 2. kostnaður við beiðni um gildistöku er kr. 10.000 – en frítt í fyrsta skipti (ef um viðauka var að ræða)
 3. kostnaður við þinglýsingu á viðauka við lánið er skv. verðskrá Sýslumannsembættis hverju sinni (nú kr. 2.000 hvert skjal).

Lántaki getur á hverjum tíma óskað eftir því að þjónustan falli úr gildi og miðast þá vaxtagreiðslur við ríkjandi vexti lánsins frá og með næsta vaxtatímabili eftir að beiðnin hefur verið lögð fram (að því gefnu að beiðni berist a.m.k. 15 dögum fyrir næsta gjalddaga lánsins).


* Miðað við lán á fyrsta veðrétti innan við 70% af fasteignamati. Lágmarks vaxtagreiðsluþak viðbótarlána (frá 70% af fasteignamati upp í 80% af markaðsverðmæti) íbúðarhúsnæðis er hærra sem nemur vaxtamun á húsnæðisláni og viðbótarláni skv. vaxtatöflu bankans hverju sinni, nú 8,00% (08.06.2012).Skilgreint lágmarksvaxtagreiðsluþak sem tilgreind eru inn í þinglýstum viðauka eru í gildi í 10 ár frá undirritun en fellur þá úr gildi.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall