Fréttir Greiningar

Hagvísar vikunnar

02.09.2013 10:00

Óhætt er að segja að mikið verði birt nú í vikunni af mikilvægum hagvísum sem gefa góða mynd af framvindu hagkerfisins hér á landi það sem af er ári. Klukkan 16:00 í dag mun Seðlabanki Íslands (SÍ) birta tölur um greiðslujöfnuð við útlönd á öðrum fjórðungi ársins. Á fimmtudag mun Hagstofa Íslands birta bráðabirgðatölur um vöruskipti við útlönd fyrir ágúst og jafnframt má telja líklegt að Ferðamálastofa Íslands birti tölur um brottfarir gesta um Leifsstöð fyrir sama mánuð undir lok vikunnar. Á föstudag mun Hagstofan birta bráðabirgðatölur um verga landsframleiðslu (VLF) á öðrum ársfjórðungi 2013, sem og endurskoðaðar tölur fyrir síðasta ár. Einnig verður áhugavert að rýna í fundargerð peningastefnunefndar SÍ vegna vaxtaákvörðunar hennar þann 21. ágúst sl., en hún verður birt kl. 16:00 á miðvikudag.

Óbreyttir vextir í takti við spár

nullÁ síðasta vaxtaákvörðunarfundi ákvað peningastefnunefnd SÍ að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum. Var ákvörðunin í takti við væntingar á markaði og opinberar spár, sem hljóðuðu allar upp á óbreytta vexti. Tónninn varðandi næstu skref var einnig óbreyttur frá fyrri yfirlýsingu peningastefnunefndar, sem var í júní sl.

Við vaxtaákvörðunina í júní sl. studdu allir meðlimir peningastefnunefndar SÍ tillögu Seðlabankastjóra um óbreytta stýrivexti. Hvorki var rædd hækkun né lækkun vaxta á fundinum og enginn hefði kosið aðra niðurstöðu. Var vaxtahaukur nefndarinnar því áfram sammála öðrum nefndarmönnum um óbreytta vexti eftir að hafa síðast kosið gegn þeim í mars, en þá vildi hann 0,25 prósenta vaxtahækkun. Reiknum við með að full samstaða hafi einnig verið um ákvörðunina nú í ágúst. Það kæmi þó ekki á óvart að vaxtahaukurinn hafi látið að heyra í sér á ný og hefði kosið að hækka vexti vegna verri verðbólguhorfa þrátt fyrir að hann hafi greitt atkvæði með tillögu seðlabankastjóra.

Landsframleiðsla á öðrum ársfjórðungi

nullHagstofan mun birta landsframleiðslutölur á föstudag og verður áhugavert að rýna í hvað þær segja um umsvifin í hagkerfinu, en þær þjóðhagsspár sem birtar hafa verið að undanförnu hafa gerst æ svartsýnni á framvindu hagkerfisins á þessu ári.

Bráðabirgðatölur fyrir fyrsta ársfjórðung benda til þess að hagvöxtur hafi verið 0,8%. Sá vöxtur var drifinn áfram af utanríkisviðskiptum þar sem útflutningur jókst um 2,3% á milli ára á sama tíma og innflutningur dróst saman um 6,3%. Einkaneysla og samneysla jukust um tæplega 1% en á móti dróst fjármunarmyndun í heild saman um 19,9%. Nam því samdráttur þjóðarútgjalda á fyrsta ársfjórðungi 4,0% milli ára.

Landsframleiðsla endurskoðuð fyrir 2012

nullAuk þess að birta tölur fyrir annan ársfjórðung birtir Hagstofan einnig endurskoðaðar tölur fyrir árið 2012. Bráðabirgðatölur benda til þess að hagvöxtur hafi verið 1,6% á síðasta ári, og að sá vöxtur hafi verið drifinn áfram af vexti þjóðarútgjalda upp á 1,9% enda var framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar neikvætt. Oft breytast tölurnar töluvert við endurskoðun og má við því búast að svo verði upp á teningnum nú. Í raun tekur það oft á tíðum nokkur á að fá hina réttu niðurstöðu um hver hinn raunverulega staða var, sem má einna helst rekja til stöðugra breytinga í tölum um fjármunamyndun, enda virðast áreiðanleg gögn um hana berast Hagstofunni talsvert síðar en gögn um aðra helstu þætti þjóðhagsreikninga.

Tölur um ytri jöfnuð þjóðarbúsins í dag

nullSíðar í dag mun Seðlabankinn birta tölur um greiðslujöfnuð við útlönd og erlenda stöðu þjóðarbúsins á öðrum ársfjórðungi. Nú þegar liggja fyrir tölur um tvo af þremur undirliðum viðskiptajafnaðar á fjórðungnum. Halli af vöruskiptum hljóðar upp á 1,9 ma.kr. en afgangur af þjónustujöfnuði upp á 20,1 ma.kr. Samanlagt er því afgangur af vöru- og þjónustuviðskipum á fjórðungnum upp á 18,2 ma.kr. Verður því forvitnilegt að sjá hvernig undirliggjandi jöfnuður þáttatekna (þ.e. án innlánsstofnana í slitameðferð) mun koma út á fjórðungnum, enda mun hann ráða hvort halli eða afgangur komi til með að mælast á undirliggjandi viðskiptajöfnuði.

Góðar líkur á stærsta ferðamannamánuði frá upphafi

nullTelja má nokkuð líklegt að Ferðamálastofa muni birta tölur um brottfarir gesta frá landinu um Leifsstöð í ágústmánuði undir lok vikunnar, eins og getið er um hér á ofan. Fjöldi erlendra ferðamanna hefur ávallt náð hámarki hér á landi í ágústmánuði, og eru því góðar líkur á að ágúst 2013 sé fjölmennasti mánuður frá upphafi hvað fjölda erlendra ferðamanna varðar m.v. þróunina á árinu. Á fyrstu sjö mánuðum ársins eru brottfarir erlendra ferðamanna komnar upp í 435 þúsund og hefur þeim fjölgað um 22% frá sama tímabili í fyrra. Er hér um metfjölda að ræða og verður því spennandi að sjá hvað tölurnar fyrir ágúst bera með sér. Fjöldi erlendra gesta í ágúst hefur mest farið upp í tæp rúm 115 þúsund, sem var í fyrra. Miðað við að erlendir gestir hafi verið hátt í 124 þúsund í júlí sl., og að þróunin verði með líkum hætti og hún hefur verið á milli júlí og ágúst síðustu ár, má ætla að erlendir ferðamenn hafi verið á bilinu 125-130 þúsund hér á landi í ágúst.

Tölur Ferðamálastofu ná einnig til brottfara Íslendinga um Leifsstöð. Í júlí sl. héldu rúmlega 33 þúsund Íslendingar erlendis, samanborið við 35 þúsund júlí í fyrra. Jafngildir þetta fækkun upp á tæp 5% á milli ára, og var þetta annar mánuðurinn í röð sem talsverð fækkun átti sér stað. Sé tekið mið af fyrstu sjö mánuðum ársins höfðu tæplega 204 þúsund Íslendingar haldið utan, sem er fækkun upp rúmt 1% frá sama tímabili í fyrra.

Útkoma vöruskipta lakari en í fyrra

nullÁ fimmtudag mun Hagstofan birta bráðabirgðatölur um vöruskipti við útlönd í ágústmánuði. Á fyrstu sjö mánuðum ársins nam vöruútflutningur 349,6 mö.kr. en vöruinnflutningur 321,5 mö.kr. Afgangur af vöruskiptum nam því 28,1 ma.kr. á tímabilinu, eða sem nemur 4 mö.kr. á mánuði að jafnaði. Samsvarar afgangurinn af vöruskiptum um 1,6% af áætlaðri vergri landsframleiðslu ársins í heild. Á sama tímabili í fyrra nam afgangurinn 26,4 mö.kr. og árið þar á undan var hann 46,7 ma.kr. Þróunin er hins vegar neikvæðari ef horft er til vöruskipta án skipa og flugvéla, sem kunna að gefa réttari mynd af undirliggjandi gjaldeyrisflæði vegna vöruskipta. Á þann mælikvarða nam afgangur af vöruskiptum 32,2 mö.kr. á tímabilinu, en á sama tíuma í fyrra var hann 51,1 ma.kr.

Við teljum að afgangurinn verði að jafnaði nokkru meiri í þeim mánuðum sem eftir eru af árinu. Fiskverð hefur hækkað nokkuð síðustu mánuði og aukið aflamark í botnfiski mun leiða til aukningar í útflutningi sjávarafurða á komandi mánuðum. Á móti hefur álverð haldist lágt á erlendum mörkuðum og innflutningur neyslu- og fjárfestingarvara gæti aukist nokkuð það sem eftir lifir árs.  

 

Dags.

Efni

Heimild

2.sep.13

Vísitala launa helstu launaþegahópa 2005-2013

Hagstofa Íslands

2.sep.13

Greiðslujöfnuður við útlönd, 2. ársfj. 2013

Seðlabanki Íslands

2.sep.13

Erlend staða þjóðarbúsins á 2. ársfj. 2013

Seðlabanki Íslands

2.sep.13

Erlendar skuldir þjóðarbúsins á 2. ársfj. 2013

Seðlabanki Íslands

3.sep.13

Gjaldeyrisútboð Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands

3.sep.13

Hópuppsagnir í ágúst 2013

Vinnumálastofnun

4.sep.13

Fasteignamarkaðurinn í ágúst eftir landshlutum

Þjóðskrá Íslands

4.sep.13

Gjaldeyrismarkaður í ágúst 2013

Seðlabanki Íslands

4.sep.13

Raungengi krónunnar í ágúst 2013

Seðlabanki Íslands

4.sep.13

Staða Lífeyrissjóða í lok júlí 2013

Seðlabanki Íslands

4.sep.13

Fundargerð Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands

4.sep.13

Útboð hjá Reykjavíkurborg

Reykjavíkurborg

5.sep.13

Gistinætur og gestakomur á hótelum í júlí 2013

Hagstofa Íslands

5.sep.13

Vöruskipti við útlönd, ágúst 2013, bráðabirgðatölur

Hagstofa Íslands

5.sep.13

Fjármálareikningar fjármálafyrirtækja, 2. ársfj. 2013

Seðlabanki Íslands

6.sep.13

Vísitala launa á 2. ársfjórðungi 2013

Hagstofa Íslands

6.sep.13

Landsframleiðslan á 2. ársfjórðungi 2013

Hagstofa Íslands

6.sep.13

Landsframleiðslan 2012 - endurskoðun

Hagstofa Íslands

6.sep.13

Brottfarir gesta frá landinu um Flugstöð Leifs Eiríkssonar í ágúst 2013

Ferðamálastofa Íslands

6.sep.13

Efnahagur Seðlabankans í lok ágúst 2013

Seðlabanki Íslands

6.sep.13

Útboð ríkisbréfa

Lánamál ríkisins


Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall