Fréttir Greiningar

Útboð hjá Lánamálum á föstudag

04.09.2013 11:07

nullÁ föstudag kl. 11:00 fer fram útboð á ríkisbréfaflokknum RIKB31 hjá Lánamálum ríkisins. Þetta er í takti við útgáfuáætlun Lánamála fyrir yfirstandandi ársfjórðung, þar sem áætlað er að gefa út bréf í flokknum fyrir allt að 15,0 ma.kr. á fjórðungnum. Að vanda eru útboðsskilmálarnir með hefðbundnum hætti þannig að lægsta samþykkta verð (hæsta ávöxtunarkrafa) ræður söluverði útboðsins.

Þetta er fjórða útboð Lánamála á þriðja ársfjórðungi, en alls hafa verið gefin út bréf í RIKB31 fyrir 9,6 ma.kr. að söluvirði. Síðasta útboð á flokknum fór fram þann 23. ágúst sl. Í því útboði voru seld bréf í flokknum fyrir 3.200 m.kr. að nafnvirði á ávöxtunarkröfunni 6,63%. Er flokkurinn nú rúmlega 59,5 ma.kr. að stærð.

Ekki liggur enn fyrir hverjir voru helstu kaupendur bréfa í flokknum í útboðinu í ágúst. Þó teljum við góðar líkur á að lífeyrissjóðirnir hafi þar verið stórtækir enda eru þeir langstærstu eigendur þessa flokks og áttu í lok júlí sl. 84% útistandandi bréfa í flokknum. Krafan á RIKB31 er aðeins hærri nú en hún var í aðdraganda útboðsins í ágúst. Stendur krafa RIKB31 nú í 6,71% en hún hafði verið 6,64% fyrir útboðið í ágúst.

Um 11 ma.kr. ríkisbréfaútgáfa eftir á fjórðungnum

Lánamál áætla að gefa út bréf fyrir 15-29 ma.kr. að söluvirði á þriðja ársfjórðungi. Það sem af er fjórðungnum hafa verið gefin út bréf fyrir 17,8 ma.kr. í almennum útboðum. Ef útgáfa RIKS33-bréfa í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands í gær er meðtalin er útgáfan á fjórðungnum komin upp í 18,4 ma.kr. Stendur því eftir 10,6 ma.kr. ríkisbréfaútgáfa til septemberloka miðað við efri mörk útgáfuáætlunar, en tvö ríkisbréfaútboð eru fyrirhuguð í mánuðinum. Raunar stendur þessi sama tala útaf ef horft er til áætlaðrar útgáfu á árinu í heild. Við teljum þó líklegt að útgáfuáætlun ársins verði endurskoðuð til hækkunar um næstu mánaðamót.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall