Fréttir Greiningar

Aldrei fleiri gistinætur á hótelum

05.09.2013 10:30

nullGistinætur á hótelum hér á landi í júlí síðastliðnum voru ríflega 286 þúsund talsins, og er hér um langstærsta mánuð frá upphafi að ræða í fjölda þeirra. Á sama tíma í fyrra voru þær tæplega 264 þúsund, og nam aukningin á milli ára því rúmlega 8%. Þessa aukningu má að stórum hluta rekja til erlendra ferðamanna, en þó var einnig lítilsháttar aukning á gistinóttum Íslendinga. Þetta má sjá í tölum Hagstofu Íslands sem birtar voru í morgun um gistinætur og gestakomur á hótelum í júlí síðastliðnum. Þess má geta að hér er eingöngu um að ræða gistinætur á hótelum sem opin eru allt árið.

Gistinætur útlendinga 90% af heildarfjölda

Gistinætur útlendinga voru alls 90% af heildarfjölda gistinátta í júlímánuði, og fjölgaði þeim um rúm 9% milli ára. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði um rúm 3% á sama tímabili. Þrátt fyrir að um ágætis aukningu sé að ræða á gistinóttum útlendinga þá er þetta heldur hægari vöxtur en sú 22% aukning sem var á gistinóttum á fyrstu 6 mánuðum ársins frá sama tímabili í fyrra. Rímar það vel við tölur Ferðamálastofu um brottfarir erlendra ferðamanna um Flugstöð Leifs Eiríkssonar (FLE) sem sýndu fjölgun upp á 10% milli ára í júlí, en á fyrstu sex mánuðum ársins hafði þeim fjölgað um 21%.

Íslendingar kaupa gistingu í ríkara mæli en áður

nullGistinætur eru nú komnar upp í 1.218 þúsund á fyrstu sjö mánuðum ársins, sem er um 17% aukning miðað við sama tímabil í fyrra. Hefur gistinóttum erlendra ríkisborgara fjölgað um 19% á tímabilinu, og voru gistinætur þeirra 85% af heildarfjölda gistinátta á fyrstu sjö mánuðum ársins, en það hlutfall hefur aldrei áður farið svo hátt á þessu tímabili. Þó hefur einnig orðið dágóð aukning á gistinóttum Íslendinga að undanförnu og í raun benda þessar tölur Hagstofunnar til þess að landinn hafi aldrei áður leyft sér að kaupa gistingu á hótelum innanlands í eins ríkum mæli og nú í ár. Hefur gistinóttum Íslendinga fjölgað um rúmlega 11% á milli ára.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall