Fréttir Greiningar

Enn spútnik tölur úr í ferðaþjónustu

09.09.2013 11:46

nullEf ekki væri væri vegna spútnikvaxtar í ferðaþjónustu hefði lítill hagvöxtur mælst hér á landi á fyrri helmingi yfirstandandi árs, en samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar jókst landsframleiðslan um 2,2% að raungildi á tímabilinu. Eru það því mjög jákvæð tíðindi að ekkert lát hafi verið á aukningu á komum erlendra ferðamanna hingað til lands í ágúst sl., sem hefur ávallt verið stærsti ferðamannamánuður ársins. Samkvæmt tölum Ferðamálastofu námu brottfarir erlendra gesta frá landinu um Flugstöð Leifs Eiríkssonar (FLE) um 132 þúsund, sem er aukning upp á rúm 14% frá því í ágúst í fyrra. Er hér um fjölmennasta ferðamannamánuð að ræða hér á landi frá upphafi. 

Orðnir fleiri en allt árið 2011

nullBrottfarir erlendra ferðamanna eru nú komnar upp í tæplega 567 þúsund á fyrstu átta mánuðum ársins, samanborið við rúmlega 472 þúsund á sama tímabili í fyrra. Þetta jafngildir aukningu upp á 20% milli ára, eða sem nemur rúmlega 94 þúsund ferðamönnum. Til vitnis um hversu gríðarleg aukning hefur átt sér stað á komum erlendra ferðamanna hingað til lands má nefna að erlendir ferðamenn eru nú þegar orðnir fleiri en þeir voru allt árið 2011 og raunar öll ár fyrir þann tíma. Í fyrra námu brottfarir erlendra ferðamanna um FLE 647 þúsund talsins og höfðu þær þá aldrei áður verið fleiri. Miðað við 15% vöxt í hverjum mánuði út árið, sem er hóflegur vöxtur miðað við þá þróun sem verið hefur framan af árinu, munu brottfarir erlendra ferðamanna um FLE slaga upp í 770 þúsund á árinu í heild.

Áfram samdráttur í utanlandsferðum

nullAlls námu brottfarir Íslendinga um Flugstöð Leifs Eiríkssonar (FLE) tæplega 37 þúsund í ágúst sl., sem er fækkun upp á tæpt 1% frá sama tíma í fyrra. Þetta er þriðji mánuðurinn í röð sem samdráttur á sér stað í brottförum Íslendinga á milli ára, en í júní nam hann tæpum 8% og í júlí 5%. Þessi þróun kemur mjög á óvart, enda skýtur hún skökku við það óhagstæða tíðarfar sem var ríkjandi hér á landi í sumar, a.m.k. á því landsvæði þar sem meginþorri landsmanna er búsettur. Alla jafna ætti ótíð heima fyrir að auka spurn eftir ferðum til sólríkari staða. Er því spurning hvort vætutíðin í sumar muni endurspeglast í að fleiri Íslendingar haldi erlendis nú á haustmánuðum en gerðu á sama tíma í fyrra. Sé tekið mið af fyrstu átta mánuðum ársins eru brottfarir Íslendinga um FLE komnar upp í rúm 240 þúsund samanborið við tæplega 243 þúsund í fyrra. Nemur fækkun á milli ára 1%.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall