Fréttir Greiningar

Aukin þolinmæði aflandskrónueigenda

10.09.2013 11:45

nullErlendir aðilar eiga nú talsvert fjölbreyttara safn ríkisbréfa en raunin var í upphafi árs. Hafa þeir bæði aukið við eign sína í lengri flokkum óverðtryggðra fastvaxtabréfa og einnig keypt verðtryggð ríkisbréf og ríkisbréf með fljótandi vöxtum í talsverðum mæli það sem af er ári. Er þetta að okkar mati til marks um að aflandskrónueigendur eru þolinmóðari fjárfestar en oft hefur verið talið. Því virðist skynsamlegt að vinna við afnám hafta snúi í ríkari mæli að öðrum þáttum en fækkun aflandskróna.

Samkvæmt nýbirtum Markaðsupplýsingum Lánamála ríkisins nam eign erlendra aðila í ríkisverðbréfum í krónum alls 186,5 mö.kr. í lok ágústmánaðar. Hafði eign þeirra í slíkum bréfum þá aukist um 3,4 ma.kr. í mánuðinum. Af þessari upphæð var stærsti hlutinn, samtals 107 ma.kr., í þremur stystu ríkisbréfaflokkunum, en lokagjalddagi eins þeirra fellur á hvert næstu þriggja ára.

Aukinn áhugi á langtímabréfum

nullHins vegar hefur orðið talsverð breyting á samsetningu ríkisbréfaeignarinnar frá áramótum. Í upphafi árs nam eign erlendra aðila í þremur stystu ríkisbréfaflokkunum samtals 164 mö.kr. Af þeim var stysti flokkurinn, RIKB13, þá langstærstur hvað eign útlendinga varðaði, og áttu þeir ríflega 89 ma.kr. í þeim flokki.

Í kring um gjalddagann á RIKB13 í maí virðist þetta fé hafa dreifst nokkuð á milli hinna ýmsu ríkisbréfaflokka, en ekki sótt fyrst og fremst í stystu ríkisbréfin. Þannig hefur eign erlendra aðila í millilanga flokknum RIKB19 aukist um rúmlega 16 ma.kr. það sem af er ári, eign þeirra í lengri óverðtryggðu ríkisbréfaflokkunum aukist um tæplega 8 ma.kr. og eign í verðtryggðum ríkisbréfum aukist um svipaða upphæð. Þá eiga erlendir aðilar nú tæpa 7 ma.kr. í RIKH18-bréfinu sem er óverðtryggt en ber fljótandi vexti. Á móti hefur eign þeirra í ríkisvíxlum skroppið saman um helming á tímabilinu og nemur nú tæpum 9 mö.kr. Einhver hluti þessa fjár hefur svo leitað burt frá landinu í gjaldeyrisútboðum Seðlabankans, en það sem af er ári hafa aflandskrónueigendur keypt evrur fyrir 34 ma.kr. í þeim.

Minni þrýstingur á gjaldeyrismarkað?

Í síðasta mánuði gáfu Lánamál út sérrit þar sem farið er yfir þessa þróun síðustu misserin, og sú ályktun dregin að margt bendi til þess að eigendur aflandskróna hafi trú á íslensku efnahagslífi og að þrýstingur á krónuna vegna þeirra gæti hafa minnkað þar sem þeir séu nú þolinmóðari en áður. Óhætt er að taka undir þessi orð, og virðast gjaldeyrisútboð Seðlabankans, ásamt öðrum aðgerðum hans og breytingum á eigendahóp aflandskrónanna, hafa minnkað mikið þann mögulega þrýsting sem aflandskrónurnar gætu sett á gjaldeyrismarkað við afléttingu hafta. Það eru því aðrir þættir sem meiru skiptir að leggja áherslu á að okkar mati, áður en næstu skref við haftaafléttingu eru stigin. Ber þar hæst farsælt uppgjör þrotabúa Glitnis og Kaupþings þannig að gjaldeyrisútflæði verði lágmarkað annars vegar, og að lengja í afborgunarferli erlendra skulda Landsbankans hins vegar.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall