Fréttir Greiningar

Ríkisvíxlaútboð á morgun

11.09.2013 10:16

nullÁ morgun kl. 11:00 fer fram víxlaútboð hjá Lánamálum ríkisins. Í takti við áætlun verða tveir víxlar í boði, þ.e. annars vegar 3ja mánaða víxill með gjalddaga þann 16. desember 2013 og hins vegar víxill til 6 mánaða með gjalddaga þann 17. mars 2014. Fyrrnefndi flokkurinn var upphaflega gefinn út í júní sl. og er hann 2.370 m.kr. að stærð. Að vanda ræður lægsta samþykkta verð, og þar með hæsta ávöxtunarkrafa, í hvorum flokki söluverðinu.

Áhugi útlendinga hefur minnkað verulega

Það sem af er ári hefur verið mun minni spurn eftir víxlum en verið hefur síðustu ár, sem má fyrst og fremst rekja til minnkandi áhuga erlendra aðila. Samkvæmt Markaðsupplýsingum sem Lánamál birtu á mánudag áttu útlendingar ríkisvíxla fyrir 8,7 ma.kr. í lok ágúst, en sú fjárhæð hefur ekki verið lægri frá því farið var að gefa út ríkisvíxla með því fyrirkomulagi sem tíðkast hefur frá hruni.

Vextir fara hækkandi

nullÍ víxlaútboðinu í ágúst bárust alls tilboð upp á 7,3 ma.kr. að nafnverði í 3ja mánaða flokkinn, og var þeim tekið fyrir 7,1 ma.kr. á 3,54% flötum vöxtum. Þá bárust alls tilboð fyrir 3,1 ma.kr. í 6 mánaða víxlaflokkinn, og var þeim tekið fyrir 2,2 ma.kr. á 3,70% flötum vöxtum. Voru vextir á báðum flokkunum þeir hæstu frá því farið var að bjóða víxla með núverandi fyrirkomulagi, þ.e. 6 mánaða víxlaflokka sem stækkaðir eru þegar 3 mánuðir eru til gjalddaga, en þeir hafa farið stöðugt hækkandi frá því í maí. Í því útboði voru vextir á 3ja mánaða flokkinn 2,95% og 6 mánaða flokkinn 3,15%. Hækkandi vextir haldast í hendur við minni heildareftirspurn, og er skýring þess sú sama og við röktum í Morgunkorninu í gær, þ.e. að aflandskrónueigendur eru þolinmóðari en áður og beina fé sínu því í skuldabréf með lengri líftíma.

Síðasta útboð fjórðungsins

Fjárhæð útistandandi ríkisvíxla var í lok ágúst sl. rétt rúm 27,3 ma.kr., sem er langt undir þeim 40 mö.kr. sem Lánamál áætla að hafa stöðuna um næstu áramót. Útboðið á morgun er hið síðasta á þriðja ársfjórðungi, og þar með hið síðasta áður en Lánamál taka ákvörðun um það hvernig útgáfu ríkisbréfa og -víxla verði háttað á síðasta fjórðungi ársins. Í ljósi þróunar í víxlaútboðum að undanförnu kæmi okkur ekki óvart að Lánamál lækkuðu þau 40 ma.kr. mörk sem áætluð eru um næstu áramót, sem aftur hefði þá líklega í för með sér samsvarandi meiri útgáfu ríkisbréfa á móti. Á gjalddaga nú í september eru víxlar fyrir 9.480 m.kr. og má búast við að þátttaka í útboðinu á morgun verði í samræmi við þá fjárhæð.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall