Fréttir Greiningar

Spáum 0,4% hækkun neysluverðs í september.

13.09.2013 11:16

nullVið spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,4% í september frá fyrri mánuði. Ef spá okkar gengur eftir hjaðnar 12 mánaða verðbólga úr 4,3% í 4,0%  í mánuðinum. Verðbólga verður síðan að mati okkar á svipuðum slóðum næstu mánuði. Hagstofan birtir VNV fyrir september kl. 9:00 þann 26. september næstkomandi.

Útsölulok, skólagjöld og frístundir hækka VNV

Útsölulok hafa talsverð áhrif í september líkt og undanfarin ár. Hækkun á fötum og skóm hefur áhrif til 0,26% hækkunar VNV, og einnig hækka ýmsir aðrir undirliðir nokkuð vegna útsöluloka. Þá hækka skólagjöld ávallt nokkuð á haustin, og sömu sögu má segja af verði á margskonar tómstunda- og afþreyingarstarfsemi. Í heild metum við þau áhrif til 0,1% hækkunar VNV í mánuðinum. Á móti vegur til lækkunar aukin niðurgreiðsla á tannlækningum barna (-0,03% í VNV) og lækkun flugfargjalda til útlanda (-0,05%). Þá hefur hækkun eldsneytisverðs undanfarnar vikur gengið að mestu til baka síðustu daga auk þess sem gögn af íbúðamarkaði benda til þess að húsnæðisliður vísitölunnar muni lítið hækka þennan mánuðinn. Aðrir liðir hafa minni áhrif en vega samanlagt til 0,1% hækkunar VNV í septembermánuði.

0,9% hækkun VNV á 4F

nullÁ 4. ársfjórðungi gerum við samtals ráð fyrir 0,9% hækkun VNV. Spáum við 0,5% hækkun í október, 0,1% í nóvember og 0,3% í desember. Í október verða helstu hækkunarvaldar árstíðarbundin hækkun á nýjum vetrarvörum á borð við hjólbarða og fatnað, árstíðarbundin hækkun flugfargjalda og talsverð hækkun matvælaverðs. Í nóvember verður hins vegar lítið um hækkunarvalda líkt og spáin ber með sér, og þá gerum við ráð fyrir að flugfargjöld lækki að nýju í þeim mánuði. Við gerum svo ráð fyrir að húsnæðisliðurinn taki að hækka að nýju á 4. ársfjórðungi. Gangi spá okkar eftir mun verðbólga mælast 4,2% í árslok.

Talsverður verðbólguþrýstingur í kortunum

Næstu misserin mun svo verðbólga haldast á svipuðum slóðum og hún er nú, enda töluverður verðbólguþrýstingur í kortum okkar. Verðbólgan mun samkvæmt spá okkar verða drifin áfram af talsverðri hækkun launa í kjölfar kjarasamninga undir árslok, áframhaldandi bata í hagkerfinu, frekari raunhækkun húsnæðisverðs og veikingu krónunnar. Samkvæmt spánni verður verðbólga að jafnaði 4,0% á næsta ári og mælist 3,9% í lok árs 2014.

Verðbólguspá fyrir september

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall