Fréttir Greiningar

Staða ríkisvíxla snarlækkar eftir útboð

13.09.2013 09:48

nullStaða útistandandandi ríkisvíxla lækkaði um heila 9 ma.kr. í kjölfar ríkisvíxlaútboðs Lánamála í gær. Samtals seldu Lánamál víxla fyrir aðeins 450 m.kr., en á gjalddaga í mánuðinum eru víxlar fyrir 9.480 m.kr. Snarlækkar þar með víxlastabbinn, eða úr 27,3 mö.kr. niður í 18,3 ma.kr. Munar því 21,7 mö.kr. á stöðu útistandandi ríkisvíxla og því sem Lánamál áætla að hafa víxlastöðuna um næstu áramót.

Í 3ja mánaða víxilinn bárust alls tilboð upp á 1.350 m.kr. að nafnverði og var tilboðum fyrir 450 m.kr. tekið á 3,54% flötum vöxtum. Voru vextirnir hinir sömu og í víxlaútboði ágústmánaðar. Þá bárust alls tilboð fyrir 3.270 m.kr. í 6 mánaða víxlaflokkinn, og var þeim öllum hafnað. Voru því aðeins seldir víxlar fyrir 450 m.kr. í útboðinu í gær, eins og áður segir, og hefur sú fjárhæð ekki verið lægri áður.

nullSamkvæmt Markaðsupplýsingum Lánamála höfðu erlendir aðilar ekki keypt neina víxla í útboðum á flokknum RIKV 13 0916 sem er á gjalddaga í mánuðinum. Kann að vera að svo dræm eftirspurn líkt og var í útboðinu í gær tengist því að hluta til, en þó hefur áhugi útlendinga minnkað allverulega að undaförnu. Má hér nefna að í lok ágúst sl. nam víxlaeign þeirra 8,7 mö.kr. en hafði verið 33,1 ma.kr. á sama tíma í fyrra. Til áramóta eru alls víxlar að fjárhæð 14,6 ma.kr. á gjalddaga. Okkur reiknast til að erlendir aðilar eigi um 6,5 ma.kr. af þeirri fjárhæð sem er öll á gjalddaga í nóvember. Minnkandi áhugi útlendinga á ríkisvíxlum helst að mati okkar í hendur við aukna þolinmæði aflandskrónueigenda, líkt og við höfum áður rakið.

Enn meiri líkur á aukinni ríkisbréfaútgáfu

Víxlaútboðið í gær var hið síðasta á þriðja ársfjórðungi, og þar með hið síðasta áður en Lánamál taka ákvörðun um það hvernig útgáfu ríkisbréfa og -víxla verði háttað á síðasta fjórðungi ársins. Í ljósi niðurstöðu víxlaútboðsins í gær teljum við enn meiri líkur á að Lánamál lækki þau 40 ma.kr. mörk sem áætlað er að útistandandi víxlar verði um næstu áramót, um 10-20 ma.kr., og auki ríkisbréfaútgáfu sína á móti.

Þessu til stuðnings má hér nefna að ríkisbréfaútgáfa ársins er nú lokametrunum, nú þegar eitt útboð er eftir á þriðja ársfjórðungi og sex á síðasta fjórðungi ársins skv. útgáfudagatali Lánamála. Alls hafa verið gefin út ríkisbréf fyrir rúma 83 ma.kr. að söluvirði á árinu, og standa því eftir aðeins um 7 ma.kr. miðað við þá 90 ma.kr. útgáfu ríkisbréfa sem áætluð var í upphafi árs.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall