Fréttir Greiningar

Einkaneysluvöxtur á útivelli?

16.09.2013 12:16

nullNýjustu tölur yfir greiðslukortaveltu benda til þess að lítill sem enginn vöxtur hafi verið í einkaneyslu í ágúst síðastliðnum frá fyrra ári. Þá má lesa úr tölunum að sá vöxtur sem mælst hefur í einkaneyslu það sem af er ári sé að miklu leyti til kominn vegna aukinnar neyslu Íslendinga á erlendri grundu.

Samkvæmt tölum Seðlabankans, sem birtar voru á föstudag, dróst kortavelta Íslendinga innanlands saman að raungildi um 0,8% í ágústmánuði frá sama mánuði í fyrra, en kortavelta þeirra erlendis jókst hins vegar um 7,9% á sama mælikvarða. Síðarnefndi vöxturinn vekur raunar athygli í ljósi þess að brottförum Íslendinga af landinu í ágúst fækkaði um tæplega 1% á milli ára. Samanlagt nam raunvöxtur kortaveltu 0,1% í mánuðinum frá fyrra ári.

Aukin neysla erlendis drifkraftur í einkaneysluvexti

nullVöxtur kortaveltu í júlí nam 2,8%, og því mælist samanlagður vöxtur það sem af er 3. ársfjórðungi 1,4% á milli ára. Er það svipaður vöxtur og var á 2. ársfjórðungi, en þá nam vöxturinn 1,2%. Það athyglisverða við kortatölurnar er að vöxturinn er allur í kortaveltu erlendis það sem af er ári. Kortavelta Íslendinga á erlendri grundu hefur vaxið um 4,9% að raunvirði það sem af er ári, en kortavelta innanlands aðeins um 0,1% á sama tíma. Þessi munur stingur enn meira í augu í ljósi þess að utanferðum Íslendinga hefur fækkað um 1% það sem af er ári miðað við sama tímabil í fyrra.

Miðað við kortaveltutölurnar einar og sér mætti því draga þá ályktun að vöxtur í einkaneyslu það sem af er ári sé nær eingöngu vegna þess að hver Íslendingur sem heldur utan eyðir mun meira í ferðalaginu þetta árið en raunin var í fyrra. Rétt er samt að halda því til haga að þótt kortavelta endurspegli u.þ.b. tvo þriðju hluta einkaneyslu landsmanna nær hún ekki utan um öll útgjöld, t.d. vegna húsnæðis og bílakaupa.

Hægur einkaneysluvöxtur hefur áhrif á hagvöxt, enda er einkaneysla u.þ.b. 54% af landsframleiðslu. Ef sú er raunin að vöxtur einkaneyslu eigi sér að miklu leyti stað utan landsteinanna gætu framangreindar tölur bent til eitthvað hægari hagvaxtar en ella, enda kemur erlend neysla að fullu til frádráttar í innflutningsliðum þjóðhagsreikninga.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall