Fréttir Greiningar

Hægir á kaupmáttaraukningu launa

20.09.2013 11:32

nullLítillega dró úr kaupmætti launa í ágústmánuði, og mælist kaupmáttaraukning milli ára nú sú hægasta síðan í febrúar síðastliðnum. Samkvæmt launavísitölunni, sem Hagstofan birti í morgun, hækkuðu laun í landinu að jafnaði um 0,2% í ágúst frá fyrri mánuði. Hækkunin kemur í kjölfar 0,1% lækkunar í júlímánuði, og virðist launaskrið vera fremur lítið á vinnumarkaði þessa dagana. Undanfarna 12 mánuði hefur vísitalan hækkað um 5,7%, en frá því áhrifa kjarasamningsbundinnar hækkunar á fyrsta ársfjórðungi hætti að gæta nemur hækkun vísitölunnar 0,6%. Reyndar er rétt að halda því til haga að launavísitalan hækkar oft töluvert í september, og gæti það einnig orðið raunin nú.

Kaupmáttarvöxtur hægari en á 2F

nullVísitala neysluverðs hækkaði um 0,3% í ágúst, og minnkaði kaupmáttur launa því um 0,1% í mánuðinum. Þar sem kaupmáttur launa jókst um 0,2% í sama mánuði í fyrra hefur hreyfingin nú í för með sér að það hægir á aukningu kaupmáttar. Mælist árshækkun kaupmáttar launa nú 1,3%, en svo hægur hefur takturinn ekki verið í hálft ár. Til samanburðar mældist ársaukning kaupmáttar 2,3% í júní síðastliðnum, en frá hruni hefur kaupmáttaraukningin hraðast farið í 5,3% á vordögum 2012. Talsvert sterk fylgni hefur verið milli þróunar kaupmáttar launa og einkaneyslu síðustu misserin, enda er óhægara um vik með skuldsetta einkaneyslu en raunin var fyrir hrun. Hægari vöxtur kaupmáttar á 3. ársfjórðungi gæti þannig verið vísbending um að vöxtur einkaneyslu muni verða tiltölulega hægur á fjórðungnum, og fram komnar kortaveltutölur segja raunar svipaða sögu.

Kaupmáttaraukning bíður kjarasamninga

Útlit er fyrir að heldur dragi úr kaupmætti launa fram undir árslok. Við gerum ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 1,3% fram til ársloka. Ólíklegt er að mati okkar að launavísitala haldi að fullu í við hækkun neysluverðs fyrr en nýir kjarasamningar eru í höfn. Það er óvíst að samningar náist fyrir áramót, en eins gætu þeir orðið e.k. millileikur þar sem samið væri um tiltölulega hóflega hækkun launa og horft til nýrra samninga jafnvel innan árs. Ef það verður ofan á mun innlendur kostnaðarþrýstingur vegna launa jafnvel verða tiltölulega hóflegur á næstunni í samanburði við t.d. þróunina frá miðju ári 2011 fram til síðustu áramóta.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall