Fréttir Greiningar

Vikan: Verðbólga og væntingar

23.09.2013 10:30

Nokkrir áhugaverðir hagvísar líta dagsins ljós nú í vikunni. Má hér nefna Væntingavísitölu Capacent Gallup fyrir septembermánuð og tölur Hagstofu Íslands úr vinnumarkaðskönnun sinni fyrir ágústmánuð. Einnig mun Hagstofan birta vísitölu neysluverðs (VNV) fyrir septembermánuð, en hún verður birt kl. 09:00 næstkomandi fimmtudag.

Spáum 0,4% hækkun neysluverðs í september

nullEins og við greindum nýlega frá þá gerum við ráð fyrir 0,4% hækkun VNV í september frá fyrri mánuði. Gangi spá okkar eftir mun 12 mánaða verðbólga hjaðna úr 4,3% í 4,0% í mánuðinum.

Útsölulok setja svip sinn á VNV-mælingu septembermánaðar eins og jafnan. Við spáum að verð á fötum og skóm hafi áhrif til 0,26% hækkunar VNV, en einnig hækka ýmsir aðrir undirliðir vegna útsöluloka. Þá hækka skólagjöld ávallt nokkuð á haustin, og sömu sögu má segja af verði á margskonar tómstunda- og afþreyingarstarfsemi. Í heild metum við þau áhrif til 0,1% hækkunar VNV í mánuðinum.

Á móti vegur til lækkunar aukin niðurgreiðsla á tannlækningum barna (-0,03% í VNV) og lækkun flugfargjalda til útlanda (-0,05%). Þá var lítilsháttar lækkun á eldsneytisverði á milli mánaðarmælinga, auk þess sem gögn af íbúðamarkaði benda til þess að húsnæðisliður vísitölunnar muni lítið hækka á tímabilinu. Aðrir liðir hafa minni áhrif en vega samanlagt til 0,1% hækkunar VNV í septembermánuði. Ítarlegri umfjöllun um verðbólguspá okkar fyrir september má nálgast hér.

Væntingar neytenda hríðlækka

nullCapacent Gallup mun birta Væntingavísitölu (VVG) sína fyrir septembermánuð á morgun. VVG hefur heldur betur tekið kipp niður á við síðustu tvo mánuði, og mælast væntingar íslenskra neytenda til efnahags og atvinnulífs þær minnstu frá því í mars 2012. Mældist VVG í ágúst sl. 66,3 stig en hún var komin upp í 100 stig í maí og júní, sem felur í sér að álíka margir svarendur voru bjartsýnir og svartsýnir á ástand og horfur í íslensku efnahagslífi. Virðist því svartsýnin hafa tekið yfirhöndina að nýju.

Nokkuð athyglisverð skipting var á milli svarenda í ágústmánuði. Þeir sem hafa lágar tekjur voru býsna svartsýnir í svörum, en talsvert dró úr svartsýninni eftir því sem tekjur hækka. Í maí sl. var hins vegar lítill munur á svörum á milli tekjuhópa, og raunar voru þá hinir tekjulægstu og svo tekjuhæstu bjartsýnni en þeir sem voru með meðaltekjur. VVG tekur gjarnan sveiflu í kringum Alþingiskosningar og myndun nýrrar ríkisstjórnar, þar sem vísitalan hækkar strax í kjölfar kosninga en lækkar síðan oft að nýju. Hreyfingin nú í sumar er hins vegar stærri en áður. Teljum við líklegt að væntingar um bættan hag heimilanna fljótlega í kjölfar kosninga hafi verið umtalsverðar þetta árið, og  ummæli stjórnvalda um að aðgerðir á borð við skuldaniðurfærslu muni taka nokkurn tíma hafi slegið verulega á þessar væntingar. Verður athyglisvert að fylgjast með hvernig væntingar neytenda hafa þróast nú í september, en sögulega séð hafa þær oftar glæðst eitthvað á milli ágúst og september.

Atvinnuleysi hjaðnar og starfandi fjölgar

nullHagstofan mun birta niðurstöðu úr Vinnumarkaðsrannsókn sinni á miðvikudag. Rannsókn júlímánaðar benti til áframhaldandi bata á vinnumarkaði. Þannig mældist atvinnuleysi í mánuðinum töluvert minna en á sama tíma í fyrra og talsverð fjölgun var á fjölda starfandi. Samkvæmt könnuninni var atvinnuleysi 3,1% í júlí sl. samanborið við 4,4% á sama tíma í fyrra. Sé tekið mið af fjölda einstaklinga án atvinnu þá voru þeir 5.900 talsins í júlí í ár en höfðu verið 8.400 í júlí í fyrra. Á sama tímabili fór fjöldi starfandi úr 180.100 í 186.400 og hlutfall starfandi úr 80,5% í 82,6%.

Sé tekið mið af fyrstu sjö mánuðum þessa árs hefur atvinnuleysi samkvæmt könnun Hagstofunnar að jafnaði mælst 5,8% samanborið við 6,8% á sama tímabili í fyrra. Á sama tíma hefur fjöldi starfandi farið úr 169.500 í 173.800, og hlutfall starfandi úr 75,8% í 76,9%. Þessi fjölgun starfandi hefur jafnframt leitt til þess að heildarvinnustundum, sem er mælikvarði á ársverk, hefur fjölgað talsvert á milli ára, en fjöldi vinnustunda stendur nánast í stað á milli ára. Hefur heildarvinnustundum í hagkerfinu fjölgað um 2,7% á milli ára sé tekið mið af fyrstu sjö mánuðum ársins, og er óhætt að segja að það sé dágóð breyting á milli ára.
 

Dags.

Efni

Heimild

23.sep.13

Heildarsala skuldabréfa í verðbréfaútboðum í ágúst 2013

Seðlabanki Íslands

24.sep.13

Væntingarvísitala Gallup fyrir september 2013.

Capacent Gallup

24.sep.13

Útboð LSS

Lánasjóður sveitarfélaga

24.sep.13

Viðskipti með atvinnuhúsnæði í ágúst 2013

Þjóðskrá Íslands

25.sep.13

Vinnumarkaðsrannsókn, ágúst 2013

Hagstofa Íslands

25.sep.13

Reikningar bankakerfis í ágúst 2013

Seðlabanki Íslands

26.sep.13

Vísitala neysluverðs í september 2013

Hagstofa Íslands

26.sep.13

Efnahagsyfirlit verðbréfa-og fjárfestingasjóða í ágúst 2013

Seðlabanki Íslands

26.sep.13

Efnahagsyfirlit ýmissa lánafyrirtækja í ágúst 2013

Seðlabanki Íslands

27.sep.13

Vísitala framleiðsluverðs í ágúst 2013

Hagstofa Íslands

27.sep.13

Nýskráningar og gjaldþrot hlutafélaga í ágúst 2013

Hagstofa Íslands

27.sep.13

Afli, aflaverðmæti og ráðstöfun afla 2012

Hagstofa Íslands

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall