Fréttir Greiningar

Inngrip á gjaldeyrismarkaði í síðustu viku

24.09.2013 11:52

nullSeðlabankinn greip inn í gjaldeyrismarkaðinn á fimmtudaginn í síðustu viku samkvæmt upplýsingum sem bankinn birti í gær. Keypti Seðlabankinn 3 m.evra fyrir krónur og námu inngripin 27% af heildarveltunni á millibankamarkaðinum með gjaldeyri þann daginn. Eru þetta fyrstu kaup bankans á evrum á millibankamarkaðinum síðan í lok ágúst síðastliðinn. Einnig er þetta í sjötta sinn á þessu ári sem bankinn kaupir evrur á millibankamarkaðinum með gjaldeyri, en markmið bankans með slíkum kaupum hafa í raun verið tvö þ.e. að draga úr sveiflum í gengi krónunnar og að bæta í óskuldsetta hluta gjaldeyrisforðans.  

Inngripið í síðustu viku kom kjölfar þess að krónan styrktist nokkuð og þá sérstaklega gagnvart dollaranum en einnig gagvart evrunni. Frá inngripinu hefur gengi krónunnar lækkað nokkuð og hefur þar með haldið áfram sú hægfara lækkun gengis krónunnar sem staðið hefur yfir síðan í upphafi september sl. Er inngripið í síðustu viku í raun nokkuð sérstakt í ljósi þessarar hægfara veikingar krónunnar sem staðið hefur yfir frá upphafi mánaðarins.  

Hluti af hinni nýju stefnu

Peningastefnunefnd Seðlabankans sagði um miðjan maí síðastliðinn að forsendur væru fyrir aukinni virkni bankans á gjaldeyrismarkaði með það að markmiði að draga úr gengissveiflum. Inngripið í síðustu viku var í takti við þessa nýju stefnu. Síðan hin nýja stefna var sett hefur Seðlabankinn gripið tólf sinnum inn í millibankamarkaðinn með gjaldeyri. Í sjö skipti hefur hann keypt evrur fyrir krónur og í fimm skipti hefur hann selt evrur fyrir krónur. Fjárhæðin hefur verið 3 milljónir evra í hvert sinn. Hefur krónan haldist nokkuð stöðug og talsvert stöðugri en á sama tíma í fyrra. Bæði styrktist hún minna í sumar en hún gerði í fyrra, og eins hefur hún veikst minna í haust en hún gerði á sama tíma fyrir ári. Að hluta má eflaust þakka nýrri stefnu fyrir þennan aukna stöðugleika.

Staða krónunnar vekur upp spurningar

Í maí þegar stefnan var sett á aukna virkni Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði sagði peningastefnunefndin að gengi krónunnar væri nálægt því sem að óbreyttu má ætla að nægi til þess að ná verðbólgumarkmiðinu á næstu misserum. Var gengisvísitalan þá 215,2. Þegar bankinn greip inn í gjaldeyrismarkaðinn í síðustu viku var gengisvísitalan komin yfir 218 og krónan þannig nokkuð veikari. Það er því ekki bara veiking krónunnar frá upphafi mánaðarins sem gerir þetta inngrip Seðlabankans undarlegt heldur er það einng staða krónunnar.

Lítil aukning í óskuldsettum forða

Samhliða því að ný stefna var sett í maí sagði Seðlabankinn að markmiðið væri að auka óskuldsetta hluta gjaldeyrisforðans, sérstaklega í ljósi þess að framundan er afnám gjaldeyrishafta. Hefur bankinn sagt að aukning forðans sé langtímamarkmið og að framkvæmd stefnunnar sé háð bæði stöðu og hreyfingum krónunnar. Í maí síðastliðnum sagði bankinn hins vegar einnig að sá gjaldeyrir sem keyptur yrði til þess að mæta tímabundnu og í einhverjum tilvikum árstíðarbundnu innflæði myndi í samræmi við hina nýju stefnu verða notaður til þess að styðja við krónuna þegar flæði á markaði snýst í gjaldeyrisútstreymi. Það er þannig jákvætt að bankinn sé að kaupa inn í forðan líkt og hann gerði í síðustu viku.

 
Hins vegar er það áhyggjuefni hversu smá kaupin eru í sniðum, en hrein gjaldeyriskaup bankans nema aðeins 6 m. evra frá því nýja stefnan var tekin upp. Áður en bankinn lét af gjaldeyriskaupum á markaði um síðustu áramót hafði hann keypt 3 m. evra í viku hverri, og nema því framangreind kaup aðeins tveggja vikna reglulegum kaupum í fyrra. Gjaldeyriskaupin duga þannig skammt fyrir vaxtagreiðslum af skuldsettum gjaldeyrisforða, hvað þá að þau dugi til að stækka óskuldsettan forða um þessar mundir.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall