Fréttir Greiningar

Minni væntingar neytenda á 3. ársfjórðungi

24.09.2013 12:05

nullVæntingar íslenskra neytenda voru talsvert lægri á 3. ársfjórðungi en á fyrri helmingi ársins. Þá hyggja færri á stórkaup á næstunni en raunin var í sumarbyrjun. Bendir þetta, ásamt öðrum nýlegum hagvísum, til þess að einkaneysla vaxi hægt þessa dagana og að vöxtur hennar á seinni hluta árs kunni að verða hægari en vænst var.

Capacent Gallup birti í morgun Væntingavísitölu Gallup (VVG) fyrir septembermánuð. Vísitalan hækkar um 7,4 stig frá fyrri mánuði og mælist nú 73,7 stig. Hækkunin kemur eftir mikla lækkun VVG í sumar, en í júlí og ágúst lækkaði vísitalan samtals um þriðjung, og fór úr 100,6 stigum í júní niður í 66,3 stig í ágúst. Þrátt fyrir hækkunina nú er gildi vísitölunnar það næstlægsta það sem af er ári. Við höfum áður bent á að VVG hækkar gjarnan í aðdraganda alþingiskosninga og lækkar svo nokkuð að nýju að þeim loknum. Hreyfingin í kring um kosningarnar nú virðist hins vegar í stærra lagi, og kann að skýrast af því að neytendur hafi margir hverjir haft talsverðar væntingar um fjárhagslegan ábata í kjölfar kosninganna, sem enn hafa ekki gengið eftir.

Fleiri svartsýnir en bjartsýnir á ástand og horfur

Hækkunin nú skýrist fyrst og fremst af auknum væntingum til sex mánaða. Sú undirvísitala mælist nú 96,7 stig og hækkar um 10,6 stig milli mánaða. Þrátt fyrir þessa hækkun stendur vísitalan í sínu næstlægsta gildi frá því í mars í fyrra, en frá þeim tíma hefur hún að jafnaði mælst 112 stig. Hæst fór vísitalan í 142,3 stig, en svo há hefur vísitalan ekki mæst frá miðju ári 2007, og vart kemur á óvart í ljósi ofangreindrar þróunar VVG að vísitalan hafi náð því gildi stuttu eftir alþingiskosningar en þó fyrir myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Vísitala fyrir mat á núverandi ástandi mælist nú 39,1 stig og hækkar um 2,7 stig frá ágúst. Mat á atvinnuástandi hækkar um 9 stig og mat á efnahagslífinu um 3 stig frá fyrri mánuði. Fyrrnefnda undirvísitalan mælist 83,4 stig og sú síðarnefnda 55,2 stig. Fleiri svarendur eru því svartsýnir en bjartsýnir á alla þessa mælikvarða, en 100 stig marka skilin milli bjartsýni og svartsýni í VVG.

Færri huga að bíla- og ferðakaupum

 nullÁrsfjórðungsleg mæling stórkaupavísitölu var birt með VVG að þessu sinni. Sú vísitala mælir fyrirhuguð kaup á bifreiðum, íbúðarhúsnæði og utanlandsferðum. Vísitalan lækkar um 1,5 stig frá júnímælingu hennar, og mælist nú 53,8 stig. Er það 1,4 stigum lægra gildi en á sama tíma í fyrra. Lækkun stórkaupavísitölunnar nú skýrist af 2,4 stiga lækkun vísitölu fyrir bifreiðakaup og 2,3 stiga lækkun á vísitölu fyrir utanlandsferðir, en vísitala fyrir húsnæðiskaup helst nánast óbreytt. Lækkun vísitölu fyrir utanlandsferðir er athyglisverð í ljósi þess að slæmt sumar á suðvesturhorninu ætti að öðru jöfnu að auka sókn í ferðir út fyrir landsteinana. Minni áhugi á bifreiðakaupum er hins vegar í takti við aðrar hagtölur sem sýna minni vöxt í þeim geira en raunin var í fyrra.

Vísbendingar um hægari einkaneysluvöxt

 nullEf horft er á mælingar VVG á 3. ársfjórðungi ásamt nýjustu mælingu stórkaupavísitölunnar virðast þær tölur segja svipaða sögu og nýlegar kortaveltutölur og tölur um innflutning neysluvara, þ.e. að vöxtur einkaneyslu hafi verið hægur á 3. ársfjórðungi. Talsverð fylgni er t.d. oft á milli VVG og einkaneysluþróunar, þótt hækkandi gildi á VVG frá ársbyrjun 2012 fram undir mitt þetta ár hafi raunar ekki endurspeglast í hraðari vexti einkaneyslu. Sömuleiðis er fylgni milli stórkaupavísitölunnar og einkaneyslu einnig talsverð þótt hún sé mismikil milli tímabila. Flest bendir því til að vöxtur einkaneyslu mælist svipaður og hann var á fyrri hluta árs, þegar hann nam 1,2% frá árinu áður. Væntingar margra hafa staðið til þess að einkaneysluvöxturinn myndi taka við sér á seinni helmingi ársins, en að okkar mati fara líkur á því minnkandi. Hægur einkaneysluvöxtur er í samræmi við hægari vöxt kaupmáttar launa, en líkt og við bentum á nýverið hefur dregið úr kaupmáttarvexti og eru ekki horfur á að kaupmáttur launa aukist að ráði það sem eftir lifir árs.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall