Fréttir Greiningar

LS langt kominn með útgáfuáætlun ársins

25.09.2013 12:03

nullÓhætt er að segja að útboð Lánasjóðs sveitarfélaga (LS) í gær hafi tekist með ágætum. Þó var þátttaka í útboðinu nokkuð minni en hún hefur verið að jafnaði á árinu, en engu að síður fékk LS hagstæðustu kjör á skuldabréfaflokkana tvo sem í boði voru frá því útgáfa á þeim hófst. Rífandi gangur hefur verið í útgáfumálum LS á árinu, og vantar lítið upp á að sjóðurinn nái að uppfylla áætlun sína sem hljóðar upp á 8-10 ma.kr. skuldabréfaútgáfu á árinu. Eftir útboð gærdagsins er útgáfan komin upp í 7,4 ma.kr. og stendur því eftir aðeins 0,6-2,6 ma.kr. útgáfa til ársloka. Samkvæmt útgáfudagatali sjóðsins eru þrjú útboð fyrirhuguð til ársloka.

Hagstæðustu kjör frá upphafi

nullÍ LSS24-flokkinn bárust alls tilboð að fjárhæð 950 m.kr að nafnvirði á kröfubilinu 2,02% - 2,20%.  Ákváðu LS-menn að taka tilboðum fyrir 150 m.kr. að nafnvirði á ávöxtunarkröfunni 2,06%. Þetta er 24 punktum lægri krafa en hún var í útboði LS í júlí sl., og í raun sú langlægsta frá því flokkurinn var fyrst gefinn út, sem var í lok október árið 2008. Í LSS34-flokkinn bárust alls tilboð fyrir 540 m.kr. að nafnvirði á kröfubilinu 2,53% - 2,70%.  Ákveðið var að taka tilboðum fyrir 440 m.kr. á ávöxtunarkröfunni 2,57%. Var niðurstöðukrafan þar með 12 punktum lægri en í síðasta útboði LS sem fór fram í ágúst sl., og þar með sú lægsta á flokknum frá upphafi. Eftir þetta útboð er flokkurinn LSS24 orðinn um 30.615 m.kr. að stærð og LSS34 um 12.128 m.kr.

Álag á LSS-flokkana lækkað verulega

nullÁlagið á bréf LS miðað við nærtækustu ríkistryggðu skuldabréfin var svipað í útboðinu í gær og verið hefur að undanförnu, en litið lengra aftur í tímann er ljóst að það hefur snarlækkað. Þannig var krafa næststysta íbúðabréfaflokksins, HFF24, 1,78% í lok gærdagsins og var munurinn á niðurstöðukröfu LSS24 og HFF24 þar með 28 punktar. Að jafnaði hefur munurinn á niðurstöðukröfu LSS24 og dagslokakröfu HFF24 verið um 31 punktar á árinu, en var að meðaltali 110 punktar í útboðum sjóðsins í fyrra. Krafa íbúðabréfaflokksins HFF34 var 2,32% í gær, og var munurinn á niðurstöðukröfu LSS34 og HFF34 þar með 25 punktar. Munurinn á þessum tveimur flokkum hefur að jafnaði verið 41 punktar í útboðum á árinu en í fyrra var hann að jafnaði 96 punktar. Að hluta endurspeglar minnkandi munur milli þessara bréfa þá skoðun á markaði að HFF-bréfin séu ekki með öllu áhættulaus, en þó er ljóst að okkar mati að minnkandi áhættuálag á LSS-bréfin sjálf á þarna stóran þátt. Það hlýtur að teljast jákvætt fyrir sveitarfélögin sem treysta á LS varðandi fjármögnun, en sjóðurinn endurlánar þá fjármuni sem hann aflar áfram til þeirra með lítilsháttar álagi.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall