Fréttir Greiningar

Lítið um fyrirhuguð bifreiðakaup – tryggingafélögin bíða

26.09.2013 10:06

nullLítið verði um bifreiðakaup hjá landsmönnum á næstu sex mánuðum samkvæmt stórkaupavísitölu Gallup sem birt var síðastliðinn þriðjudag. Vísitalan stendur nú í 18,4 og lækkaði um 2,4 stig frá júní mælingu vísitölunnar. Telja 3,8% mjög líklegt að þeir muni kaupa bifreið á næstu sex mánuðum og 7,1% að það sé frekar líklegt. Stærð bílaflota landsmanna getur haft töluverð áhrif á tryggingafélög landsins þar sem bifreiðatryggingar eru stærsta tryggingagrein félaganna. Árið 2012 komu 46,5% tekna tryggingafélaganna af tryggingarrekstri frá bifreiðatryggingastarfsemi, samkvæmt samanteknum tölum FME, og 36% hagnaðar.  

Tæplega 2 ma.kr. hagnaður af bifreiðatryggingum á síðasta ári

nullEf litið er til samsetts hlutfalls bifreiðatryggingagreinanna má sjá að hlutfall lögboðinna ökutækjatrygginga hefur yfirleitt legið yfir 100% á meðan samsett hlutfall frjálsu trygginganna hefur sveiflast um 100%. Samsett hlutfall yfir 100% þýðir að enginn hagnaður er af tryggingarekstrinum þ.e. iðgjaldatekjur að frádregnum tjónakostnaði og rekstarkostnaði viðkomandi greinar gefur neikvæða afkomu. Við það leggjast síðan aftur fjárfestingartekjur og í sumum tilfellum aðrar tekjur sem hafa skilað afkomu greinarinnar yfir í jákvæða tölu síðan 2005. Á síðasta ári var hagnaður af ökutækjatryggingum 1,86 ma.kr. sem var töluverð hækkun frá árinu á undan, þrátt fyrir það er hlutfall ökutækjatrygginga í heildar afkomu tryggingafélaganna heldur að dragast saman.

Af hverju skiptir bílaflotinn tryggingafélögin máli?

Það liggur fyrir að tryggingafélögin bítast nú um takmarkaðan markað en eina leiðin til að stækka hann er að eignum sem tryggja þarf fjölgi. Nýfjárfestingar einstaklinga og fyrirtækja eru þar einn helsti drifkraftur vaxtar og eins og ofangreindar tölur sína skiptir þar bílaflotinn töluverðu máli. Þá skiptir einnig máli að bílaflotinn í dag er orðinn fremur gamall en meðalaldur fólksbifreiða í síðustu birtu tölum Umferðastofu, frá 2011, er 11,6 ár en árleg hækkun hans  frá 2009 er 0,7 ár og benda þessar tölur síst til þess að flotinn yngist. Aldur bílaflotans þýðir að færri sjá hag sinn í því að kaupa frjálsar ökutækjatryggingar og dregur því úr tekjum sem af þeim hljótast.

Frjálsar ökutækjatryggingar og hagsveiflan

Eins og sést í myndinni hér að ofan hefur samsett hlutfall  frjálsu trygginganna lækkað verulega á árunum eftir hrun. Oft hefur heyrst sú kenning að þessi lækkun sé í samræmi við hagsveifluáhrif en þá mætti draga þá ályktun að aukinn hagvöxtur myndi þrýsta hlutfallinu aftur upp og draga úr ábata tryggingafélaganna af þessari grein. Það liggur þó fyrir að fjölmargir hlutir hafa hjálpast að við lækkun þessa hlutfalls. Bæði hafa tryggingafélögin unnið í því að ná niður samsettu hlutfalli allra tryggingagreina með ágætis árangri en auk þess hefur tjónatíðni dregist verulega saman á síðustu árum. Samkvæmt Samgöngustofu hefur slösuðum fækkað stöðugt frá 2007 á sama tíma og bílar og mannvirki hafa batnað og mikil hugarfarsbreyting hefur átt sér stað um umferðaröryggi. Ef við berum saman árin 2009 og 2012 þá fækkaði umferðaslysum um 15% og slösuðum fækkaði um 20%. Þá standa líkur til að samkeppni hafi ekki farið jafn hátt á árunum rétt eftir hrun en fyrir liggur að hún er nú að aukast. Þegar greinin er ekki að stækka og samkeppni að aukast liggur fyrir að þrýstingur mun verða í átt til hækkunar samsetta hlutfallsins, þ.e. ef félögunum tekst ekki að ná til sín nýjum viðskiptamönnum með öðru móti en lækkun iðgjalda.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall