Fréttir Greiningar

Óbreyttir stýrivextir í takti við spár

02.10.2013 11:58

nullPeningastefnunefnd Seðlabankans hélt stýrivöxtum Seðlabankans óbreyttum í dag og var það í takti við opinberar spár, þ.m.t. okkar. Harðari vaxtahækkunartón má hins vegar greina í yfirlýsingu nefndarinnar. Tengist þessi harðari tónn komandi kjarasamningum.  Segir nefndin nú að verði launahækkanir í kjarasamningunum í samræmi við nýjustu spá Seðlabankans, sem er að laun hækki um 5,5% á milli áranna 2013 og 2014, er líklegt að nafnvextir bankans muni að óbreyttu hækka í framhaldinu. Þetta eru mun harðari skilaboð til aðila vinnumarkaðarins en var í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar í ágúst.

Sátt við fjárlagafrumvarpið

Peningastefnunefndin virðist vera nokkuð sátt við nýframkomið frumvarp til fjárlaga ríkisins, a.m.k. segir hún það vera í samræmi við fyrri áætlanir. Fram kom í máli seðlabankastjóra á kynningarfundi vegna ákvörðunarinnar að eftir á að koma fram hversu raunhæft frumvarpið er. Segir í yfirlýsingu nefndarinnar í morgun að áform í opinberum fjármálum hafi skýrst nokkuð með nýju fjárlagafrumvarpi og að í samræmi við fyrri áætlanir gerir nýtt fjárlagafrumvarp ráð fyrir að afgangur á jöfnuði fyrir fjármagnstekjur og -gjöld (þ.e. frumjöfnuður) aukist frá þessu ári og að skuldir lækki sem hlutfall af landsframleiðslu. Þá segir nefndin að mikilvægt sé að heildarafgangur náist á ríkissjóði sem fyrst þannig að samspil stefnunnar í peninga- og ríkisfjármálum stuðli með sem minnstum tilkostnaði að ytra jafnvægi þjóðarbúsins, efnahagslegum stöðugleika og verðbólgu í samræmi við markmið.

Spáum vaxtahækkun snemma á næsta ári

Við erum enn á því að stýrivextir bankans verði óbreyttir út árið, en eftir eru tveir vaxtaákvörðunardagar til áramóta, þ.e. 6. nóvember og 11. desember. Yfirlýsing nefndarinnar nú styrkir okkur í þeirri skoðun að nefndin muni ákveða að hækka stýrivexti bankans snemma á næsta ári. Reiknum við með tveimur 0,25 prósentustiga hækkunum stýrivaxta á næsta ári. Fara stýrivextir bankans, þ.e. vextir af lánum gegn veði til sjö daga, við það úr 6% í 6,5%. Reiknum við með því að verðbólgan verði öllu þrálátari en Seðlabankinn spáir litið til næsta árs og lengra fram í tímann. Gerum við ráð fyrir því að það muni þar með hvetja nefndina til að hækka stýrivexti samhliða því að slakinn hverfur úr efnahagslífinu.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall