Fréttir Greiningar

Aukin velta á íbúðamarkaði

04.10.2013 10:00

nullHeildarvelta með íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu var 16,3 ma.kr. í september síðastliðnum og jókst um 35% frá sama mánuði í fyrra. Nokkuð sveiflukennt er á milli mánaða hver vöxturinn er þannig að ef greina á hvert markaðurinn stefnir er betra að horfa til lengra tímabils. Á þriðja ársfjórðungi þessa árs var veltan 50,4 ma.kr., sem er 32,1% aukning frá sama ársfjórðungi í fyrra. Þetta er mesti ársfjórðungslegi vöxtur á íbúðamarkaðinum á höfuðborgarsvæðin sem mælst hefur síðan á fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Kemur þetta fram í tölum sem Þjóðskrá Íslands birti nýlega. 

 
Hvað fjölda kaupsamninga með íbúðarhúsnæði varðar þá voru þeir 516 talsins í september á höfuðborgarsvæðinu, sem er 24% aukning frá sama mánuði í fyrra. Á þriðja fjórðungi þessa árs voru þeir 1.551, sem er 17,4% aukning frá sama tíma í fyrra. Líkt og með veltuna hefur vöxturinn í fjölda samninga frekar verið að færast í aukanna undanfarið en úr honum dró í upphafi árs. Var hann þannig einungis 6,8% á öðrum ársfjórðungi svo dæmi sé tekið.

Virðist veltan á íbúðamarkaðinum haldast nokkuð í hendur við þróun einkaneyslu, en á vexti hennar hægði á fyrri hluta árs samkvæmt tölum Hagstofunnar. Að baki liggur m.a. minni vöxtur kaupmáttar ráðstöfunartekna. Við reiknum með að vöxtur í bæði heildarveltu og fjölda samninga á höfuðborgarsvæðinu muni halda áfram á næstu misserum af nokkrum krafti, og að frekar muni bæta þar í.

Heildarvelta með íbúðarhúsnæði utan höfuðborgarsvæðisins (Akureyri, Árborg, Akranesi og Reykjanesbæ) var 6,6 ma.kr. á þriðja ársfjórðungi þessa árs og er það 33,4% aukning frá sama tíma fyrir ári. Líkt og á höfuðborgarsvæðinu er þetta mesti ársfjórðungsvöxtur sem mælst hefur síðan á fyrsta ársfjórðungi 2012. Var fjöldi kaupsamninga með íbúðarhúsnæði 300 á þriðja ársfjórðungi, sem er 32,7% aukning frá sama ársfjórðungi í fyrra. Hefur vöxturinn á landsbyggðinni verið að glæðast undanfarið líkt og á höfuðborgarsvæðinu og eftir að úr honum dró á síðasta ári.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall