Fréttir Greiningar

Myndarlegur afgangur af vöruskiptum í september

04.10.2013 11:52

nullMyndarlegur afgangur var af vöruskiptum við útlönd í september síðastliðnum, og var afgangurinn talsvert meiri en hann hefur að jafnaði verið í mánuði hverjum á árinu. Samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands nam vöruútflutningur 55,5 mö.kr. í september en vöruinnflutningur nam 46,7 mö.kr. Afgangurinn var því 8,8 ma.kr sem er talsvert yfir þeim 3,9 ma.kr. afgangi sem að meðaltali var í hverjum mánuði á fyrstu 8 mánuðum ársins.

...sem má rekja til útflutnings sjávarafurða

Hagstæð þróun vöruskipta nú í september skrifast alfarið á vöruútflutning sem var sá mesti í krónum talið síðan í janúar síðastliðnum. Vöruútflutningur í september er svipaður og hann var á sama tíma í fyrra, en sé litið fram hjá óreglulegum liðum á borð við skip og flugvélar var hann töluvert meiri nú, eða sem nemur um 12% reiknað á föstu gengi. Mestu munar um útflutningsverðmæti sjávarafurða sem nam 27,5 mö.kr. nú í september og hefur það ekki verið meira síðan í október í fyrra. Var útflutningsverðmæti sjávarafurða um 16% meira á föstu gengi en það var í sama mánuði í fyrra. Jafnframt munar nokkuð um útfluttar iðnaðarvörur, en það var um 8% meira nú í september en á sama tíma í fyrra reiknað á föstu gengi.

Vöruinnflutningur var jafnframt aðeins meiri í september en hann hefur að jafnaði verið á árinu, og svipaður og hann var á sama tíma í fyrra. Veruleg aukning var þó á innflutningsverðmæti mat- og drykkjarvara á milli ára, sem nam alls 5,3 mö.kr. nú september sem er 49% meira en á sama tíma í fyrra. Sé litið lengra aftur, þá hefur verðmæti mat- og drykkjavara í raun ekki verið meira en í júlí árið 2008, reiknað á föstu gengi. Einnig varð töluverð aukning á milli ára í innflutningi fjárfestingavara (annarra en flutningatækja), en verðmæti þeirra nam alls 9,1 mö.kr. nú í september sem er yfir fimmtungi meira en verðmæti þeirra var á sama tíma í fyrra, reiknað á föstu gengi.

Dregur úr vöruskiptaafgangi milli ára

nullMiðað við bráðabirgðatölurnar í september voru vöruskiptin hagstæð um 39,9 ma.kr. á fyrstu níu mánuðum ársins. Þetta er töluvert minni afgangur en var á sama tímabili í fyrra, eða um 18% lakari útkoma að teknu tilliti til gengisáhrifa. Þó ber að halda til haga að innflutningur skipa og flugvéla á fyrstu 9 mánuðum ársins í fyrra var mun meira en nú, eða 29,5 ma.kr. á móti rétt um 4,1 mö.kr.. Eins og við höfum margoft fjallað um þá er réttara að leiðrétta fyrir viðskiptum við skip og flugvélar að okkar mati, og þá bera saman undirliggjandi vöruskiptajöfnuð á milli ára. Sé leiðrétt fyrir slíkum viðskiptum er vöruskiptajöfnuðurinn á fyrstu 9 mánuðum þessa árs 39% lakari en hann var á sama tímabili í fyrra. Þess má þó geta að ítarleg sundurliðun um vöruskipti í september, þar sem út- og innflutningur skipa og flugvéla kemur fram, liggur ekki enn fyrir.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall