Fréttir Greiningar

Þokkalegt útboð hjá Reykjavíkurborg

11.10.2013 12:06

nullÞokkalegar undirtektir voru við skuldabréfaútboð Reykjavíkurborgar sem haldið var síðastliðinn miðvikudag. Þó var þátttaka í útboðinu mun minni en í síðasta útboði fyrir mánuði síðan og útboðskrafan reyndist einnig hærri nú en þá, þótt borgin geti raunar tæpast kvartað yfir kjörunum. Kemur niðurstaðan nokkuð á óvart í ljósi takmarkaðs framboðs af verðtryggðum skuldabréfum opinberra aðila um þessar mundir. Borgin á enn eftir að sækja ríflega fjórðung af því fjármagni sem ætlunin er að afla með útboðum á yfirstandandi ári.

Í útboðinu á miðvikudag var styttri skuldabréfaflokkurinn, RVK 19 1, í boði. Sá flokkur hefur raunar stystan meðaltíma þeirra verðtryggðra skuldabréfaflokka opinberra aðila sem boðið er upp á í útboðum þessa dagana. Tilboð í flokkinn námu alls 650 m.kr. að nafnvirði og tilboðskrafa á bilinu 1,77% - 2,24%. Borgin tók tilboðum fyrir 400 m.kr. að nafnvirði (u.þ.b. 364 m.kr. að söluvirði), og er það heldur undir áformum borgarinnar um að taka tilboðum fyrir 500 m.kr. að nafnverði. RVK 19 1 flokkurinn er nú orðinn ríflega 2,8 ma.kr. að stærð að nafnvirði.

Krafan hækkar lítillega

nullNiðurstöðukrafan í útboðinu var 10 punktum hærri en í útboði septembermánaðar. Í því útboði var eftirspurnin einnig mun meiri, en alls bárust þá tilboð fyrir 1,6 ma.kr. að nafnverði. Hins vegar ber að hafa í huga að niðurstöðukrafan í september var sú lægsta frá upphafi og eftirspurnin var þá óvenju mikil. 1,9% ávöxtunarkrafa endurspeglar óneitanlega hagstæð fjármögnunarkjör fyrir Reykjavíkurborg, og má til samanburðar nefna að krafa flokksins fór í 2,9% í maí síðastliðnum.

Fjórðungur útgáfu ársins eftir

Borgin hefur eftir útboðið á miðvikudag aflað tæplega 2,4 ma.kr. í útboðum það sem af er ári. Áætlað er að gefa út skuldabréf fyrir 3,3 ma.kr. að söluandvirði á árinu, og stendur því eftir u.þ.b. 900 m.kr. útgáfa í tveimur útboðum til ársloka. Sem fyrr er útlit fyrir að talsverð spurn verði eftir verðtryggðum bréfum í útboðum næsta kastið, enda framboð stærstu útgefendanna, ríkissjóðs og Íbúðalánasjóðs, af slíkum bréfum takmarkað um þessar mundir.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall