Fréttir Greiningar

Viðsnúningur í víxlaútboði

14.10.2013 12:13

nullMikil eftirspurn í ríkisvíxlaútboði á föstudag kom verulega á óvart eftir rýr útboð undanfarið. Vera kann að orð fjármálaráðherra um að til standi að afturkalla ríkistryggingu á öllum bankainnstæðum hafi verið áhrifaþáttur í aukinni eftirspurn nú. Staða útistandandi víxla hækkar verulega í kjölfar útboðsins, og mun ríkisbréfaútgáfa á 4. fjórðungi væntanlega verða mun minni fyrir vikið.

Í útboðinu á föstudaginn voru í boði 3ja mánaða og 6 mánaða ríkisvíxlar samkvæmt venju. Í fyrrnefnda víxilinn bárust tilboð fyrir 10,5 ma.kr. að nafnverði. Tilboðum var tekið fyrir 10,0 ma.kr. að nafnverði á 3,59% flötum vöxtum. Í 6 mánaða víxilinn bárust tilboð fyrir 3,9 ma.kr. að nafnverði og var tilboðum fyrir 3,6 ma.kr. tekið á 3,79% flötum vöxtum. Hér er um að ræða mun hærri upphæðir en sést hafa í ríkisvíxlaútboðum undanfarið, sér í lagi hvað 3ja mánaða víxilinn varðar. Má til samanburðar nefna að í síðasta víxlaútboði í september námu tilboð í 3ja mánaða víxil 1,4 mö.kr. og tilboð í 6 mánaða flokk 3,3 mö.kr. Var þá tekið tilboðum fyrir 450 m.kr. í fyrrnefnda víxilinn en öllum tilboðum í þann síðarnefnda hafnað. Raunar hefur spurn eftir 3ja mánaða ríkisvíxlum ekki verið jafn mikil í útboði síðan í nóvember í fyrra.

Víxlastaða hækkar umtalsvert

Mikil sala ríkisvíxla í útboðinu á föstudag hefur þau áhrif að upphæð útistandandi víxla hækkar um 9,6 ma.kr., þar sem 4,0 ma.kr. af ríkisvíxlum eru á gjalddaga á morgun, þriðjudaginn 15. október. Útistandandi víxlar munu því nema 27,9 mö.kr. í októberlok. Þetta er viðsnúningur frá þróun síðustu mánaða, en líkt og við fjölluðum um í síðustu viku hafa útlendingar minnkað mikið eign sína í ríkisvíxlum undanfarið, og hefur það leitt til talsverðrar lækkunar á útistandandi víxlum. Verður fróðlegt að sjá hvort erlendir aðilar hafa verið atkvæðamiklir í víxlaútboðinu á föstudaginn, en sundurliðun á kaupendahópum liggur ekki fyrir fyrr en eftir tæpan mánuð.

Fjármálaráðherra sagði fyrr í haust að til stæði að taka til baka yfirlýsingu um fulla ríkistryggingu á öllum venjulegum bankainnstæðum. Á mörkuðum hefur verið talsvert spáð í hvaða áhrif þetta gæti haft á spurn eftir ríkistryggðum verðbréfum. Teljum við rökrétt að álykta sem svo að aukin spurn eftir ríkisvíxlum í útboðinu á föstudaginn kunni að vera að hluta vegna þessara orða fjármálaráðherra, þar sem víxlarnir njóta beinnar ríkisábyrgðar líkt og önnur ríkisverðbréf.

Minni ríkisbréfaútgáfa í sjónmáli

Í útgáfuáætlun Lánamála fyrir 4. ársfjórðung kom fram að útgáfa ríkisbréfa gæti numið allt að 20 mö.kr. á fjórðungnum, og að aukin ríkisbréfaútgáfa á árinu væri ætluð til að mæta minni útgáfu ríkisvíxla. Í því sambandi er rétt að nefna að samkvæmt ársáætlun var stefnt að því að staða ríkisvíxla yrði 40 ma.kr. í árslok 2013. Nú liggur fyrir að staða ríkisvíxla í októberlok verður 12,1 ma.kr. undir áætluninni fyrir árslok, og hefur bilið þar á milli minnkað verulega í mánuðinum. Ekki er loku fyrir það skotið að eftirspurn í þeim tveimur víxlaútboðum sem eftir eru verði talsvert umfram þá 10,6 ma.kr. sem eru á gjalddaga það sem eftir er árs. Ríkisbréfaútgáfa verður þá að sama skapi minni. Sér í lagi þykir okkur sem líkur á að nýja ríkisbréfaflokknum RIKB20 verði hleypt af stokkunum fyrir áramót hafi minnkað verulega eftir útboðið á föstudag. Viðbrögð fjárfesta benda til þess að þeir hugsi á líkum nótum, en krafa óverðtryggðra ríkisbréfa lækkaði talsvert á föstudaginn, og átti bróðurpartur þeirrar lækkunar sér stað eftir að niðurstaða víxlaútboðsins var ljós.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall