Fréttir Greiningar

Hraðari vöxtur kortaveltu á 3. ársfjórðungi

15.10.2013 12:41

nullVerulegur vöxtur var í kortaveltu Íslendinga í september, og er það viðsnúningur frá mánuðunum á undan. Kortavelta bendir til þess að einkaneysla hafi vaxið nokkru hraðar á 3. ársfjórðungi en á fyrri helmingi ársins. Spágildi kortaveltutalna hefur hins vegar minnkað töluvert frá því sem áður var og vísbendingar um einkaneyslu eru fremur misvísandi þessa dagana.

Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans jókst kortavelta einstaklinga innanlands um 4,4% að raungildi í september frá sama mánuði í fyrra. Er þetta hraðasti vöxtur kortaveltu á þennan kvarða síðan í apríl í fyrra, og koma þessar tölur í kjölfarið á 0,8% samdrætti í ágúst. Svipaður vöxtur var í kortaveltu Íslendinga erlendis á milli ára í september, eða sem nemur um 4,0% að raungildi. Samanlagt jókst því kortavelta einstaklinga um 4,3% að raunvirði á milli ára í september. Þessar tölur koma í kjölfarið á 0,1% raunvexti í ágúst og 2,8% raunvexti í júlí. Talsvert flökt er því í vexti kortaveltunnar frá einum mánuði til annars.

Fylgni við einkaneyslu hefur minnkað

Raunvöxtur kortaveltu á 3. fjórðungi í heild mælist 2,3%. Er það mesti vöxtur kortaveltu síðan á 2. ársfjórðungi í fyrra. Þessar tölur gefa vísbendingu um að einkaneysla kunni að hafa vaxið hraðar á 3. ársfjórðungi en raunin var á fyrri helmingi ársins, en þá mældist vöxtur kortaveltu einungis 0,2% og vöxtur einkaneyslu 1,2%. Það flækir hins vegar þetta mat að talsvert hefur dregið úr fylgni milli kortaveltu og einkaneyslu undanfarið, eins og áður segir. Hefur einkaneysla síðustu fjórðunga vaxið hraðar en kortavelta, en fjórðungana þar á undan óx kortaveltan talsvert hraðar. Hér áður var hins vegar oftast nær býsna mikið samræmi milli breytinga í kortaveltu og einkaneyslu.

Ekki er fullljóst hvers vegna fylgnin hefur minnkað, en nefna má þætti á borð við aukna notkun á reiðufé, sveiflur í kostnaði við eigið húsnæði og verulegan vöxt í bílakaupum heimila í fyrra, sem síðan hefur gengið til baka að hluta. Hagvísar á borð við nýskráningar bifreiða, innflutning neysluvara og Væntingavísitölu Gallup segja raunar nokkuð aðra sögu um þróun einkaneyslu síðustu mánuði en kortaveltan, en þeir benda allir til fremur lítils einkaneysluvaxtar. Eykur það enn á óvissuna um þróunina þessa dagana.

Kortatölur ríma við þjóðhagsspána

Í Þjóðhagsspá okkar, sem fjallað er um hér að ofan, kemur fram að við búumst við hraðari vexti einkaneyslu á seinni helmingi ársins en þeim fyrri, og að einkaneyslan vaxi um 1,6% á yfirstandandi ári. Kortatölurnar ríma ágætlega við þá spá, en komandi mánuðir munu svo leiða í ljós hvort áfram verður vöxtur í kortaveltunni, og eins hvort aukið samræmi verður á ný milli þeirra hagvísa sem helst gefa vísbendingu um þróun einkaneyslunnar.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall