Fréttir Greiningar

Þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka

15.10.2013 12:46

nullGreining Íslandsbanka hefur gefið út nýja þjóðhagsspá. Við spáum því að hagvöxtur hér á landi verði 1,7% í ár. Þetta er aðeins yfir þeim 1,4% hagvexti sem mældist á síðasta ári. Er þetta einnig hraðari hagvöxtur en reiknað er með í okkar helstu viðskiptalöndum, en þar er spáð að meðaltali 0,8% hagvexti í ár. Í þessum samanburði þarf þó að hafa í huga að hagvöxtur síðastliðins árs var hægur í sögulegu samhengi hér á landi, en meðalhagvöxtur síðustu 30 árin er 2,5%. Hið sama má segja um hagvöxt þessa árs í viðskiptalöndunum, sem hefur verið hægur sökum skuldakreppunnar þó að fremur hafi verið að glæðast í þeim efnum undanfarið.

Spá okkar um hagvöxt í ár er nokkuð bjartari en sú sem við birtum í júní síðastliðnum, en þá gerðum við ráð fyrir 1,2% hagvexti á þessu ári. Að hluta skýrist meiri vöxtur á þessu ári í nýrri spá okkar hins vegar af því að Hagstofan hefur í millitíðinni endurskoðað hagvöxt síðustu tveggja ára til lækkunar, eða sem nemur um 0,4% samanlagt. Landsframleiðslan á föstu verði er þannig ekki nema 0,1% hærri í ár í okkar nýju spá en hún var í spá okkar í júní.

nullSpáum við því að hagvöxtur þessa árs verði að stórum hluta drifinn áfram af vexti útflutnings, sem við reiknum með að aukist um 2,5% í ár. Dágóður vöxtur í ferðaþjónustu skýrir vöxt útflutnings að stórum hluta, en við reiknum með að þjónustuútflutningur aukist um 4,8% í ár. Þá reiknum við með að útflutningur sjávarafurða aukist um 2,2% í ár. Hægur vöxtur hefur verið í einkaneyslu undanfarið og reiknum við með að hún muni einungis aukast um 1,6% í ár. Sú aukning er að mestu drifin áfram af 1,5% vexti kaupmáttar launa en einnig því að staðan á vinnumarkaði hefur batnað og eignaverð hækkað. Samdráttur verður í ár í þjóðarútgjöldum samkvæmt okkar spá og er það vegna talsverðs samdráttar í fjárfestingum atvinnuveganna, en þær dragast saman um 14,1% í ár samkvæmt spá okkar.

Dregið hefur talsvert úr slakanum í hagkerfinu sem myndaðist við hrunið 2008. Er það m.a. sýnilegt í tölum um atvinnuleysi, sem hefur minnkað umtalsvert frá því að það náði hámarki á árinu 2010. Þrátt fyrir hægan hagvöxt í ár reiknum með því að áfram dragi úr framleiðsluslakanum í hagkerfinu. Spáum við því að atvinnuleysi verði 4,6% í ár samanborið við 5,8% á síðasta ári. Þá spáum við því að verðbólga muni reynast nokkuð mikil og þrálát, að gengi krónu hækki aðeins frá síðasta ári og að Seðlabankinn muni halda stýrivöxtum sínum óbreyttum út árið.

Hraðari vöxtur 2014 og 2015

Við reiknum með því að vöxtur í hagkerfinu glæðist þegar kemur fram á næsta ár. Spáum við 2,6% hagvexti 2014 og 2,7% vexti 2015. Verður vöxtur bæði árin rétt yfir langtímahagvexti og nokkuð yfir þeim hagvexti sem spáð er í viðskiptalöndunum, þó svo að þar sé einnig gert ráð fyrir að hagvöxtur glæðist. Gangi spáin eftir verður landsframleiðslan 2015 á föstu verði komin rétt yfir það sem hún nullvar 2008, þ.e. árið sem bankakerfið hrundi. Samkvæmt spánni tekur það hagkerfið því sjö ár að ná upp sama framleiðslustigi og var áður en banka- og gjaldeyriskreppan skall á 2008.

Reikna má með því að hagvöxturinn hér á landi verði byggður á nokkuð breiðum grundvelli á næstu tveimur árum. Spáum við að vöxtur einkaneyslu glæðist nokkuð, fjárfesting taki kröftuglega við sér og að útflutningur vöru og þjónustu vaxi umfram hagvöxt bæði árin. Einna mestur verður viðsnúningurinn í fjárfestingum atvinnuveganna sem snúast frá samdrætti í ár í umtalsverðan vöxt á næsta og þarnæsta ári. Samhliða mun fjárfestingarstigið í hagkerfinu hækka, en það hefur verið afar lágt undanfarið.

Við spáum því að verðbólga verði nokkuð þrálát, mælist 4,0% á næsta ári og 3,8% á árinu 2015. Reiknum við með að Seðlabankinn muni bregðast við með hækkun stýrivaxta þegar kemur fram á næsta ár um samtals 0,5%. Við spáum því að krónan veikist aðeins og að henni verði haldið innan gjaldeyrishaftanna á spátímabilinu, þó svo að einhverjar tilslakanir kunni að verða gerðar í þeim efnum. Kaupmáttur launa ætti að halda áfram að aukast og raunverð íbúðarhúsnæðis að þokast hægt upp á við líkt og verið hefur.

Þjóðhagsspá Greiningar

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall