Fréttir Greiningar

Framboð hlutabréfamarkaðar næstu árin

22.10.2013 09:38

nullÁ árinu 2013 hafa tvö félög verið skráð á hlutabréfamarkað og var samanlagt markaðsvirði þeirra í lok september 49 ma.kr. Á sama tíma hafði heildar markaðsvirði íslenska markaðarins aukist um 85 ma.kr. bæði vegna tilkomu hinna nýju félaga og gengisþróun hlutabréfa. Við reiknum með því að fyrir áramót verði N1 skráð á markað, við áætlum ekki markaðsvirði þess félags þar sem Íslandsbanki annast útboð þess. Við höfum gert yfirlit yfir þau félög sem við teljum líkleg til skráningar á næstu árum ásamt líklegum tímasetningum skráninga.

Mat á því hvaða félög verði skráð á markað byggir að verulegu leiti á skoðun á núverandi eigendum þessara félaga en þau eiga það flest sameiginlegt að vera í eigu fyrrum kröfuhafa eða framtakssjóða. Það þarf þó alls ekki að vera að allar eignir framtakssjóða verði skráðar á markað. Vel er mögulegt að sjóðirnir sjálfir verði skráðir í stað undirliggjandi eigna. Slík félög, þ.e. eignarhaldsfélög um rekstarfélög sem ekki þykir heppilegt að skrá á markað, yrðu áhugaverð viðbót við markaðinn. Hvað eignarhald kröfuhafa varðar þá er ljóst að bankarnir eru með undantekningu frá Fjármálaeftirlitnu til að fara með virkan eignarhlut í félögum. Þolinmæði eftirlitsins fyrir eignarhaldi bankana eru takmörk sett og þrýstingur á sölu þessara eigna mun síst minnka eftir því sem frá líður.

Teljum líkur á þrem nýskráningum á næsta ári

Við teljum líkur á því að þrjú félög verði skráð á árinu 2014, Sjóvá, Reitir og Skipti. Við áætlum að samanlagt markaðsvirði þeirra verði í kjölfar skráningar í kringum 76 ma.kr. og markaðurinn verður þá 491 ma.kr. að stærð án innri vaxtar. Við gerum ráð fyrir að Sjóvá verði skráð snemma á næsta ári en meiri óvissa er í kringum tímasetningu annarra félaga. Þá er skráning Reita háð því að kröfuhafi samþykki skilmála sáttar Reita og Seðlabankans.

Á árinu 2015 teljum við líkur á að allt að átta félög verði skráð á markað MP banki, Eik, Landfestar, Kaupás, Promens, Skeljungur, HB Grandi og Advania. Við teljum ekki líklegt að Eik og Landfestar verði skráð á markað í sitt hvoru lagi heldur verði þau annað hvort sameinuð eða í það minnsta annað þeirra keypt inn í Reginn eða Reiti. Við áætlum að samanlagt markaðsvirði þessara eigna í kjölfar skráninga verði 150 ma.kr. og markaðurinn verði þá 640 ma.kr. að stærð án markaðshækkana (innri vaxtar).

Eftir árið 2015 gerum við ráð fyrir að stóru viðskiptabankarnir verði skráðir ásamt Bakkavör og Icelandic Group. Bankarnir verða væntanlega ekki skráðir á markað fyrr en óvissu í kringum verðtryggð lán og gjaldeyrishöft hefur verið eytt. Það er þó ljóst að ýmsar þreifingar hafa verið í gangi um sölu þessara eigna en við teljum þær ill seljanlegar á meðan óvissa ríkir um fyrrgreind atriði. Ræddur hefur verið möguleikinn á því að selja nýja Landsbankann að hluta, til þess að að því geti orðið þarf væntanlega í það minnsta að ganga frá samningum um skuld bankans við þrotabú gamla Landsbankans. Þá verður einnig að teljast ólíklegt að af sölu geti orðið fyrr en fyrrgreindum óvissuþáttum hefur verið eytt að öðrum kosti færi sala hluta bankans ekki fram nema með töluverðum afslætti eða með ábyrgð seljanda á mögulegum áhrifum fyrrgreindra óvissuþátta. Þá er spurning hversu áhugasamir fjárfestar eru í að vera minnihlutaeigendur á móti íslenska ríkinu.

Hvenær sjáum við sjávarútvegsfélag á markaði?

Við teljum líklegt að HB Grandi verður skráður á aðallista Kauphallarinnar á næstu árum. Félagið er af slíkri stærð að það stendur vel undir skráningu á aðallista en markaðsvirði félagsins á First North er 28 ma.kr. Arion banki á 33% í félaginu og kemur til með að þurfa að losa þann hluta þar sem bankinn er á undanþágu með eignahald. Við teljum líklegt að bankinn hefði mestan áhuga á að losa hluta sinn með skráningu félagsins á aðallista Kauphallarinnar. Í ljósi þess að félagið er nú þegar skráð á First North má búast við því að slík skráning tæki tiltölulega stuttan tíma hafi hluthafar áhuga á að fara þá leið. Í ljósi þess að Framtakssjóður Íslands á Icelandic Group að öllu leiti gerum við ráð fyrir að félagið verði skráð á markað þegar fram líða stundir.

Ánægjulegt væri ef við sæjum fleiri sjávarútvegsfélög bætast í hópinn enda eru um eina stærstu atvinnugrein landsins að ræða. Skráning myndi vísast enn fremur eyða þeirri ókyrrð sem hefur verið í kringum kvótamál en skráning sjávarútvegsfélaganna gæti verið auðveld leið til að gefa almenningi tækifæri til að njóta ávinnings kvótaeignar.

Bréf sem á eftir að losa á markað

Hluti félaga sem skráð hafa verið eru enn í eigu aðila sem ljóst er að ekki verði eigandi að umræddum hlut til framtíðar. Þannig á Klakki ehf. eftir að losa um 31% hlut sinn í VÍS en sá hluti losnar til sölu í apríl á næsta ári, FSÍ á enn eftir að selja 7% í Icelandair og LBI hf. á eftir að selja 5,4% hlut í Eimskip. Samanlagt markaðsvirði þessara bréfa nemur um 16 mö.kr. Þessi staðreynd gerir markaðsaðila eflaust rólegri í bið sinni eftir nýskráningum.

Hvenær náum við Skandinavíu

nullÁrið 2008 skruppu hlutabréfamarkaðir allra landa Skandinavíu verulega saman sem hlutfall af vergri landsframleiðslu („VLF“) en hlutabréfamarkaðri svæðisins voru þá að meðaltali 44% af VLF. Árið 2009 tóku þó flestir markaðar verulega við sér aftur. Íslenski markaðurinn minnkaði aftur töluvert árin 2008 og 2009. Síðan þá höfum við séð hægfara vöxt. Við væntum þess að íslenski markaðurinn verði um 23,2% af VLF í lok þessa árs. Fari það hins vegar svo að öll ofangreind félög verði skráð í Kauphöllina þá mun stærð markaðarins nema 70,2%af VLF. Er þetta hlutfall samsett af ætluðum matsbreytingum félaga sem fyrir eru, sem og nýskráningum. Þýðir þetta að  að stærð hans færi nokkuð nálægt meðalstærð skandinavísku markaðanna en meðalstærð þeirra var 73,1% af VLF í fyrra, stærstur var sænski markaðurinn 107% en minnstur sá norski 51%. Ef ekki verður af skráningu bankanna verður hlutfallið í kringum 50%. Við teljum hvora stærðina sem er vel ásættanlega fyrir Ísland. Þó verður innlendum hlutabréfamarkaður víðsfjarri stærð markaðarins árið 2007 en þá fór hann í 198,5% af VLF. Var markaðurinn svona mældur stærri en hlutabréfamarkaðir annarra Norðurlanda en næst honum fór sænski markaðurinn sem var 132,4% af VLF það ár.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall