Fréttir Greiningar

Kaupmáttur launa tekur við sér að nýju

22.10.2013 11:38

nullÁrstíðarbundin áhrif skýra umtalsverða hækkun launavísitölunnar í september síðastliðnum. Kaupmáttaraukning launa á ársgrundvelli mælist nú tæplega 2%, og er það hraðari taktur en mælst hefur síðustu mánuði, en í samræmi við þróun fyrr á árinu. Kaupmáttarvöxturinn er í samræmi við væntingar okkar um þróun kaupmáttar og þar með einkaneyslu á seinni helmingi ársins, eins og fram kom í þjóðhagsspá okkar í síðustu viku.

Árviss hausthækkun launavísitölu

Hagstofan birti í morgun launavísitölu og vísitölu kaupmáttar launa fyrir september síðastliðinn. Hækkaði launavísitalan um 0,7% á milli mánaða, sem er mesta hækkun vísitölunnar síðan í mars síðastliðnum þegar áhrifa kjarasamninga gætti síðast í launum. Hækkunin nú í september kemur þó ekki á óvart, enda árstíðabundin og skýrist af því að ýmsar álagsgreiðslur sem oft eru í lágmarki yfir sumarmánuðina, koma inn að nýju í mánuðinum. Má þar nefna bónusgreiðslur fiskverkunarfólks.

Hækkun launa í septembermánuði er aðeins umfram þá hækkun sem mældist á sama tíma í fyrra, og hækkar því 12 mánaða taktur vísitölunnar úr 5,7% í 5,9%. Er það svipaður taktur og mældist fyrr á árinu. Hækkunartakturinn er þó mun hægari nú en hann var fyrir fáeinum misserum síðan, en til samanburðar varð árshækkun launavísitölunnar mest 12,1% í mars 2012, enda voru þá tvær samningsbundnar launahækkanir inni í 12 mánaða taktinum.

Aukinn kaupmáttur drifkraftur einkaneysluvaxtar

Vísitala kaupmáttar launa hækkaði um 0,4% í september, enda hækkað vísitala neysluverðs um 0,3% á meðan launavísitalan hækkaði um 0,7%, eins og fyrr er getið. Árstakturinn í kaupmáttaraukningu launa tók því nokkurn kipp í september, og hefur kaupmáttur launa hækkað um 1,9% undanfarið ár. Það er nokkur viðsnúningur í kaupmáttarþróuninni eftir að hægt hafði á kaupmáttarvextinum í júlí og ágúst síðastliðnum. Fyrr á árinu mældist vöxturinn hins vegar hraðari, og fór 12 mánaða takturinn hæst í 2,4% í apríl síðastliðnum.

Í nýútkominni þjóðhagsspá okkar gerum við ráð fyrir að vöxtur kaupmáttar launa nemi 1,5% að jafnaði á yfirstandandi ári, og er sá vöxtur ein meginskýring á 1,6% vexti einkaneyslu í spá okkar. Þróunin til og með september er í samræmi við þessa spá. Nokkrar sveiflur gætu orðið í kaupmáttarþróuninni næstu mánuði, enda standa kjarasamningar nú fyrir dyrum. Ef niðurstaða næst í þeim á komandi vikum er líklegt að launavísitalan, og þar með 12 mánaða takturinn í kaupmáttarþróun, taki nokkurn kipp upp á við. Sá kúfur gengur svo til baka, a.m.k. að hluta, þegar samningsbundin hækkun á 1. fjórðungi þessa árs dettur út úr 12 mánaða taktinum snemma á næsta ári. Það veltur svo á niðurstöðu kjarasamninga og verðbólguþróun í kjölfarið hvort kaupmáttarvöxturinn verður áfram með svipuðum hætti og verið hefur. Við gerum í spá okkar ráð fyrir að kaupmáttur launa vaxi um 1,3% á næsta ári að jafnaði, og að vöxturinn verði 1,8% árið 2015.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall