Fréttir Greiningar

Eftirspurn á hlutabréfamarkaði

23.10.2013 08:28

nullLífeyrissjóðirnir eru stærsti einstaki eigendahópurinn á íslenskum hlutabréfmarkaði með að minnsta kosti 30,3% hlut af heildarvirði markaðarins ef eignarhald þeirra er metið á grundvelli lista yfir stærstu eigendur. Eignahlutur lífeyrissjóðanna hefur einnig aukist mest frá ársbyrjun eða um 4,4 prósentustig. Næst mest hafa innlendir sjóðir bætt við sig eða 3,7 prósentustigum og eiga þeir nú 11,5% hlut. Aðrir aðilar þ.e. þeir sem mælast ekki á lista yfir 20 stærstu hluthafa Kauphallarinnar eiga 16,6% af heildarmarkaðnum og hefur þessi hópur stækkað aðeins á árinu en væntanlega höfðu útboð tryggingafélaganna þar nokkur áhrif. Hlutdeild aðila á lista yfir stærstu hluthafa sem eiga hlut í eigin nafni hefur dregist örlítið saman og það sama á við um innlend hlutafélög. Innlend fjármálafyrirtæki hafa minnkað örlítið hlutdeild sína en það er raunar eðlilegt að hlutdeild þeirra sveiflist nokkuð enda getur þarna talist með hlutir innan veltubóka stofnanna. Erlendir aðilar eru næst stærsti  eigendahópurinn en þar hefur verulega áhrif eignarhald þessara aðila í Össuri (65%), Marel (15%) og Eimskipum (25%) en öll félögin eru hlutfallslega stór í heildarvirði markaðarins.

Ef hækkun markaðsvirðis einstakra eigenda hópa er skoðuð frá ársbyrjun þá hefur virði eignarhalds innlendra sjóða hækkað mestu en eign þeirra hefur aukist um 76,5% að markaðsvirði. Lífeyrissjóðirnir standa þeim næst með 43,7% aukningu. Þeir aðilar sem standa utan lista yfir 20 stærstu hluthafa hafa aukið eign sína um 26,1%, innlend hlutafélög um 5,1% og innlend fjármálafyrirtæki um 2,8%. Hlutdeild erlendra aðila hefur lækkað að markaðsvirði enda hafa þau félög sem þeir eiga mestu hlutdeild í (Össur, Marel og Eimskip) öll lækkað frá áramótum. Þá hefur hlutdeild innlendra einstaklinga dregist mest saman að markaðsvirði eða um 27,7%. Talan yfir eignarhald einstaklinga getur sýnt nokkuð flökt í þessari mælingu en ástæðan liggur í því að eignarhald þeirra er í flestum tilfellum hlutfallslega lítil og þeir geta því dottið inn og út af lista yfir stærstu hluthafa.

Lífeyrissjóðirnir þurfa að koma 170 mö.kr. í vinnu 2014

nullVið gerum ráð fyrir að heildar endurfjárfestingaþörf lífeyrissjóðanna verði um 170 ma.kr. á árinu 2014. Byggir það á því að nettó inngreiðslur verði í kringum 44 ma.kr. árlega til samræmis við inngreiðslur síðasta árs en þá voru nettó inngreiðslur rúmlega 39 ma.kr. Þar af voru rúmir 4 ma.kr. vegna fyrirfram úttekins séreignaspanaðar. Þá gerum við ráð fyrir að afborganir og vextir sem koma þurfi til endurfjárfestinga muni nema um 132 mö.kr. Frá þessu drögum við síðan áætlaðan rekstarkostnað og fjárfestingagjöld.

Í dag nemur hlutfall innlendra hlutabréfa og hlutabréfasjóða um 10,3% af hreinni eign lífeyrissjóðanna. Þetta hlutfall hefur hækkað um 2,3 prósentustig síðan í lok síðasta árs. Sú hækkun kemur hvoru tveggja til af matsbreytingum sem og kaupum sjóðanna. Hlutfall erlendrar hlutabréfaeignar er aftur 20%. Við reiknum með að sjóðirnir muni í það minnsta fjárfesta 10% af þeim 170 mö.kr. sem fjárfesta þarf fyrir, í hlutabréfum en fjárfestingastefna sjóðanna miðar oft við 10-20% innlenda hlutafjáreign í eignasafni. Þegar enn fremur er litið til þeirra staðreyndar að sjóðirnir geta ekki fjárfest erlendis og að miðað við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar má ekki búast við mikilli ríkisbréfaútgáfu á næsta ári þá má gera ráð fyrir að spurnin eftir hlutabréfum verði heldur meiri. Af þeim þrem útboðum sem við búumst við að verði á næsta ári má gera ráð fyrir að mest verði hlutfallslega selt í Reitum enda er félagið að mestu í eigu banka. Lífeyrissjóðirnir eiga aftur stóran hlut í Sjóvá og Skiptum og má því búast við að minna hlutfall verði selt á markað í þeim útboðum og útboðið verði að því leiti líkt útboði TM. Í ljósi eignarhalds lífeyrissjóðanna liggur fyrir að það framboð sem snýr að lífeyrissjóðunum nær ekki því 76 ma.kr. framboði sem við gerum ráð fyrir að verði almennt á markaðnum. Í þessu ljósi má segja að þó nokkur akkur gæti verið í því fyrir félög að reyna skráningu á næsta ári þ.e. að því gefnu að lífeyrissjóðirnir séu viljugir til að auka hlutfallslega eign sína í innlendum hlutabréfum nokkuð.

Hlutfall hlutabréfa í eignasöfnum sjóða komið á eðlilegt ról

nullHlutabréfaeign verðbréfa-, fjárfestinga- og fagfjárfestingasjóða nemur nú 9,7% af heildareign þeirra. Ef hlutfall hlutabréfaeignar af eignarsafni sjóðanna er skoðað má sjá að það hefur sveiflast verulega, en meðaltalið hefur þó lengst af verið í kringum tíu prósentin. Verulegt lækkun varð á hlutabréfaeign sjóða í kjölfar hrunsins en það hefur svo verið að aukast samhliða stækkun hlutabréfamarkaðarins. Það má þó segja að hlutfallið sé komið í nokkuð eðlilegt horf í dag m.v. fyrri tímabil.

Heildareign sjóðanna nam 613 mö.kr. í ágúst og hafði þá aukist um 5,2% frá desembermælingu síðast árs en yfir sama tíma jókst hlutabréfaeign þeirra um 66,7%. Eign flestra eigandahópa hefur aukist en þó hefur dregið úr eigna aðila sem teljast til annarra fyrirtækja og erlendra aðila samkvæmt flokkun Seðlabankans.

Heildareignir sjóða er flokkast til hlutabréfasjóða nam 62 mö.kr. í ágúst og hafa eignir þeirra aukist um 61,9% frá desembermælingu síðasta árs. Flestir eigandahópar eru að bæta við hlut sinn. Lífeyrissjóðirnir hafa tvöfaldað hlut sinn og eiga nú 25,6 ma.kr. í þessum sjóðum. Tryggingafélögin hafa aftur rúmlega fimmfaldað sinn hlut og eiga nú 1,9 ma.kr. í hlutabréfasjóðum. Þá er ánægjulegt að sjá heimilin bæta vel við sig en aukning eigna heimilanna nemur 63,3% og var heildareign þeirra í hlutabréfasjóðum 14,7 ma.kr. í ágúst.

540 ma.kr. gætu losnað í önnur verkefni

nullAukning fjárfestinga í sjóðum, og þá sérstaklega í hlutabréfasjóðum, bendir til þess að nokkuð sé að draga úr áhættufælni hérlendis. Í ágúst mánuði voru þó 1.618 ma.kr. í innlánum en það er um 90% af VLF samkvæmt spá okkar um VLF 2013. Það hlutfall er mun hærra en sjá má í Skandinavíu þar sem hlutfallið er nálægt 60%. Ef íslenska innlánshlutfallið færi niður í 60% þá myndi það þýða að 540 ma.kr. myndu losna til annarra fjárfestinga, niðurgreiðslu lána og/eða neyslu. Líkur hafa heldur aukist á því að eitthvað af innlánum muni leita annað á næstu misserum í ljósi þess að stefnt er að því að lög um ríkisábyrgð innlána muni verða í samræmi við Evrópu tilskipun. Þrátt fyrir að um háa fjárhæð sé að ræða þá er vert að hafa í huga að þessir fjármunir munu leita í fleiri farvegi en einfaldlega aðrar fjárfestingar. Ekki væri óvarlegt að áætla að stór hluti þessarar fjárhæðar muni til dæmis fari í neyslu. Þess fyrir utan má vænta þess að þessir fjármunir muni ekki færast úr innlánum í einu stökki heldur mun hlutfallið lækka yfir tíma. Það er okkar mat að ætla megi að þeir fjármunir sem leita muni í hlutabréfafjárfestingu gætu numið um 10 mö.kr. á ári, á næstu misserum.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall