Fréttir Greiningar

Minni verðbólga en vænst var á haustdögum

25.10.2013 11:39

nullÓbreytt vísitala neysluverðs (VNV) í október frá fyrri mánuði kemur nokkuð á óvart, og er óhætt að segja að verðbólga hafi þróast með talsvert jákvæðari hætti á haustdögum en útlit var fyrir. Verðbólga hefur nú hjaðnað úr 4,3% í 3,6% á tveimur mánuðum. Þessi þróun er sérstaklega mikilvæg nú þegar kjarasamningar á almenna vinnumarkaðinum eru rétt handan við hornið.

Líkt og fyrr segir var VNV í október óbreytt í 415,2 stigum frá mánuðinum á undan samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Í október í fyrra hækkaði VNV hins vegar um 0,3% frá fyrri mánuði, og lækkar því 12 mánaða taktur verðbólgu úr 3,9% í 3,6% á milli mánaða. Niðurstaðan kom okkur, rétt eins og markaðinum í heild, talsvert á óvart. Opinberar spár höfðu allar gert ráð fyrir nokkurri hækkun VNV milli mánaða. Hljóðuðu þær upp á 0,2% - 0,5% hækkun, og spáðum við 0,3% hækkun.

Ýmsar skýringar á muninum á spá og mælingu

nullMunurinn milli spár okkar og niðurstöðunnar er mestur í liðnum ferðir og flutningar. Við gerðum raunar ráð fyrir lítilsháttar lækkun á þeim lið, en hann lækkaði hins vegar gott betur, eða  um 0,8%, sem vegur til 0,14% lækkunar VNV í október. Þar vegur þungt að eldsneytisverð lækkaði um 1,5% milli mánaða (-0,08% í VNV). Einnig lækkuðu flugfargjöld til útlanda um 4% (-0,06% í VNV), og hafa þau nú samtals lækkað um 21% frá júní sl. Fyrrnefnda þróunin kom okkur ekki á óvart, en við höfðum hins vegar gert ráð fyrir lítilsháttar hækkun á fluginu.

Um 1% lækkun á fötum og skóm (-0,05% í VNV) kom okkur einnig nokkuð í opna skjöldu. Kann að vera að tilboðsdagar á borð við Kringlukast hafi hér haft áhrif. Þá hækkaði matur og drykkur um 0,3% í október (0,04% í VNV), sem var sömuleiðis nokkuð undir okkar spá. nullLoks var 0,3% hækkun á liðnum tómstundir og menning (0,03% í VNV) minni en við gerðum ráð fyrir og 0,9% lækkun á verði hótela og veitingastaða (-0,04% í VNV) var meiri en við töldum að yrði raunin.

Húsnæðisliður VNV hækkaði um 0,4% í október (0,10% í VNV). Hækkunin var alfarið vegna 2,2% hækkunar á greiddri húsaleigu, en það er mesta mánaðarhækkun þessa liðar síðan í apríl 2011. Reiknuð húsaleiga, sem að stærstum hluta endurspeglar þróun markaðsverðs íbúðarhúsnæðis, stóð hins vegar í stað milli mánaða líkt og við bjuggumst við, en nánar er fjallað um þróun húsnæðisverðs hér að neðan.

Verðbólguhorfur hafa batnað

Útlit er nú fyrir að verðbólga á 4. ársfjórðungi reynist talsvert undir 4,1% spá Seðlabankans, enda hefur 12 mánaða taktur verðbólgunnar hjaðnað úr 4,3% í 3,6% síðustu tvo mánuðina eins og áður segir. Þessi þróun er töluvert hagfelldari en margir nullbjuggust við síðla sumars, enda hafði verðbólga þá aukist úr 3,3% í 4,3% frá því í sumarbyrjun. Jákvæðari horfur nú skýrast m.a. af hagstæðri þróun eldsneytisverðs erlendis, minni hækkun húsnæðisliðar en búist var við, mun hægari veikingu krónu en raunin var á haustmánuðum í fyrra og væntingum um hófsamari niðurstöðu úr komandi kjarasamningum.

Ólík þróun á verði innfluttra vara nú og fyrir ári síðan vekur athygli. Undanfarna 12 mánuði hafa innfluttar vörur hækkað um 0,8%, og má segja að verðlagsþróun þeirra hafi haldið aftur af verðbólgu fremur en hitt. Fyrir ári síðan var hækkunartaktur slíkra vara hins vegar 3,7%. Þróun eldsneytisverðs skýrir þessa breytingu raunar að töluverðu leyti, en þó fer ekki milli mála að þróunin nær til flestra innfluttra vöruflokka. Vera kann að minni sveiflur í gengi krónu skýri þessa þróun, enda hefur veiking krónu verið mun hægari það sem af er hausti en raunin var í fyrra.

Hefur áhrif á komandi kjarasamninga

Nú þegar kjarasamningar eru á næsta leyti skiptir jákvæð þróun verðbólgunnar enn meira máli en ella væri. Seðlabankinn kvað skýrt að orði við síðustu vaxtaákvörðun varðandi mikilvægi þess að ekki yrði samið um meiri hækkun launa en sem samræmdist verðbólgumarkmiði bankans. Aðilar vinnumarkaðar hafa tjáð sig undanfarið á þeim nótum að líklega verði um að ræða skammtímasamninga þar sem horft er til þess að varðveita kaupmátt. Hjöðnun verðbólgu um 0,7 prósentur er því mikilvægt veganesti inn í samningana, en niðurstaða þeirra hefur svo mikil áhrif á verðbólguþróun komandi mánaða.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall