Fréttir Greiningar

Minni vöruskiptaafgangur það sem af er ári

31.10.2013 11:26

nullVöruskiptaafgangur á fyrstu níu mánuðum ársins var tæplega 9% minni í krónum talið en á sama tíma í fyrra. Gjaldeyrisinnflæði af vöruskiptum er að sama skapi minna. Við teljum þó að aukið innflæði vegna þjónustuviðskipta vegi þar á móti, og jafnvel gott betur, þetta árið.

Hagstofan birti í morgun tölur um vöruskipti við útlönd til og með september 2013. Niðurstaðan fyrir september síðastliðinn var í samræmi við bráðabirgðatölur. Vöruútflutningur nam 55,3 mö.kr. en á móti voru fluttar inn vörur fyrir 46,6 ma.kr., og vöruskiptaafgangur í september var því 8,7 ma.kr. Er það svipaður afgangur og var í sama mánuði fyrir ári. Þetta er mesti vöruskiptaafgangur í einum mánuði frá því í mars síðastliðnum, en að jafnaði hefur vöruskiptaafgangur verið 5,0 ma.kr. í mánuði hverjum það sem af er ári. Myndarlegur afgangur í september skýrist að mestum hluta af óvenju drjúgum útflutningi sjávarafurða, en slíkur útflutningur nam 27,4 mö.kr. og hefur ekki verið meiri síðan í október á síðasta ári.

Óhagstæð viðskiptakjör áhrifavaldur

nullÁ fyrstu níu mánuðum ársins nam afgangur af vöruskiptum 44,7 mö.kr. Á sama tímabili í fyrra var afgangurinn tæpir 49,0 ma.kr., og hefur því afgangurinn skroppið saman um 4,3 ma.kr. á milli ára. Munurinn liggur í því að útflutningur hefur minnkað meira en innflutningur í krónum talið. Nemur samdrátturinn í verðmæti útflutnings 3,4% á tímabilinu, á meðan verðmæti vöruinnflutnings hefur minnkað um 2,7%. Munurinn er hins vegar meiri ef viðskipti með skip og flugvélar eru undanskilin, enda var innflutningur slíkra farartækja óvenju mikill árið 2012 miðað við árin á undan og árið í ár. Á þann kvarða nemur vöruskiptaafgangur 47,5 mö.kr. á fyrstu níu mánuðum þessa árs, en var 72,2 ma.kr. á sama tímabili í fyrra.

Rýrari vöruskiptaafgangur það sem af er ári skýrist að stórum hluta af óhagstæðri þróun viðskiptakjara, sér í lagi lægra verði á helstu útflutningsvörum Íslands. Verð útfluttra vara var þannig að jafnaði 4,8% lægra í krónum talið á fyrstu þremur fjórðungum ársins en á sama tíma í fyrra, á meðan verð innfluttra vara reyndist að jafnaði 1,6% lægra á sama tíma. Gengi krónu hefur að jafnaði verið 0,8% sterkara á fyrstu níu mánuðum ársins en raunin var á sama tíma í fyrra. Lítilsháttar verðlækkun hefur því orðið á innfluttum vörum í ár m.v. í fyrra, sem að miklu leyti skrifast á lægra verð eldsneytis og hrávara. Verðlækkunin á útflutningsvörum í erlendri mynt hefur hins vegar verið talsverð. Má þar nefna að álverð á heimsmarkaði var ríflega 7% lægra á fyrrnefndu tímabili í ár en á sama tíma í fyrra. Þá lækkaði verð á botnfiski talsvert.

Þjónustuviðskipti vega gegn minni vöruskiptaafgangi

Útlit er fyrir að vöruskiptaafgangur reynist nokkru minni í ár en raunin var í fyrra. Við gerum ráð fyrir að afgangur á síðasta ársfjórðungi verði með myndarlegra móti, ekki síst vegna þess að aflamark ýmissa helstu tegunda var aukið talsvert á nýju fiskveiðiári sem hófst í september, auk þess sem fiskverð erlendis hefur heldur verið að hækka. Eigum við von á að afgangurinn reynist á bilinu 65-75 ma.kr. í ár. Í fyrra var 77,3 ma.kr. afgangur af vöruskiptum, og er því líklegt að afgangurinn minnki milli ára. Það hefur svo í för með sér minna gjaldeyrisinnflæði til að standa straum af vaxtagreiðslum og afborgunum af erlendum lánum.

Á móti er hins vegar útlit fyrir mun meiri afgang af þjónustujöfnuði, og þar með meira gjaldeyrisinnflæði vegna slíkra viðskipta. Erfitt er að glöggva sig á hversu mikið afgangur af þjónustujöfnuði mun vaxa milli ára þar til tölur fyrir 3. ársfjórðung liggja ekki fyrir fyrr en í nóvemberlok. Við teljum þó góðar líkur á að aukinn afgangur af þjónustuviðskiptum muni vega upp minni vöruskiptaafgang, og jafnvel rúmlega það, og að samanlagður afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum reynist því meiri en í fyrra, þegar hann nam 103,6 mö.kr.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall