Fréttir Greiningar

Mánaðamótastyrking krónunnar

01.11.2013 09:12

nullGengi krónunnar hefur verið að hækka síðustu daga. Er um hefðbundna mánaðarmótastyrkingu að ræða þar sem útflutningsfyrirtæki skipta yfir í krónur á þessum tímapunkti hluta gjaldeyristekna sinna til að greiða innlendan kostnað á borð við laun. Nemur hækkunin frá vikubyrjun 0,5% gagnvart vegnu meðaltali helstu viðskiptamynta. Hefur evran á tímabilinu farið úr 165,7 kr. niður í 163,4 kr. en dollarinn hækkað eilítið eða úr 120,0 kr. í 120,4 kr.

Ólík þróun evru og dollars

Nokkuð ólík þróun hefur verið frá því í byrjun september sl. á gengi krónunnar gagnvart evrunni annars vegar og dollaranum hins vegar. Á meðan gengi krónunnar hélt í horfinu gangvart dollaranum gaf krónan talsvert eftir gagnvart evrunni. Nemur lækkunin gagnvart evrunni 3,1% en einungis 0,6% gagnvart dollaranum. Ástæðan er af nulltvennum toga. Annars vegar styrktist evran nokkuð gagnvart dollaranum á tímabilinu. Tengdist það vandræðagangi í bandaríska þinginu vegna þaks á skuldir ríkissjóðs, lakari hagtölum frá Bandaríkjunum en búist hafði verið við og að Seðlabanki bandaríkjanna brást við vandræðaganginum og lakari hagtölum með því að segja að það væri lengra í að hann tæki í taumana í peningamálum en áður var talið.  Hins vegar hefur krónan aðeins lækkað gagnvart vegnu meðaltali mynta helstu viðskiptalanda, og má eflaust rekja það að einhverju marki til árstíðarsveiflu í gjaldeyrisstraumum vegna ferðamanna. Innbyrðis hreyfingar í gengi evru á móti dollara vógu m.ö.o. nánast að fullu á móti almennri veikingu krónunnar á tímabilinu, sem endurspeglast í tiltölulega stöðugu gengi dollarans gagnvart krónu.

Ekki sama veikingarferli og á sama tíma í fyrra

Gengi krónunnar hefur að jafnaði verið svipað í október í ár og í sama mánuði í fyrra. Krónan hefur raunar að meðaltali verið 1% sterkari í október í ár en í fyrra. Hins vegar endaði krónan 3,7% veikari í lok október í fyrra en hún gerði í ár. Tók gengi krónunnar hraða lækkunarhrinu frá lok ágúst í fyrra fram á vetur, sem ekki hefur endurtekið sig í sama mæli a.m.k. í ár. Ástæðan kann að felast í því að minna er um afborganir af erlendum lánum nú en var á þessum tíma í fyrra. Einnig hefur þjónustujöfnuðurinn verið sterkari vegna mikils vaxtar í innflæði ferðamannagjaldeyris. Á móti hafa vöruskiptin verið lakari og ekki síst vegna lakari viðskiptakjara þ.e. lægra fisk- og álverðs ásamt tiltölulega háu olíuverði. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall