Fréttir Greiningar

Góður afgangur af vöruskiptum í október

06.11.2013 10:50

nullAfgangur af vöruskiptum við útlönd í október sl. hljóðaði upp á 7,1 ma.kr. samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands. Alls voru fluttar út vörur fyrir 55,0 ma.kr. í mánuðinum á sama tíma og innflutningur nam 47,9 mö.kr. Er þetta nokkuð meiri afgangur en sá 5,0 ma.kr. afgangur sem var að jafnaði á fyrstu níu mánuðum ársins. Á hinn bóginn er afgangurinn nú í október mun rýrari en hann var í sama mánuði í fyrra, en þá hljóðaði hann upp á 15,1 ma.kr.

Mun minni útflutningur en í fyrra

Rýrari afgangur nú í október en í sama mánuði í fyrra skýrist alfarið af minni útflutningi. Október í fyrra var raunar einn stærsti útflutningsmánuður frá upphafi, en alls voru fluttar út vörur fyrir 63,1 ma.kr. í mánuðinum og hafa til að mynda aldrei verið fluttar út sjávarafurðir fyrir hærri fjárhæð en í þeim mánuði. Skýrist minna útflutningsverðmæti nú en í fyrra hvort tveggja af því að útflutningsverðmæti sjávarafurða og iðnaðarvara dróst saman á milli ára nú í október, eða sem nemur um rúmlega 11% á föstu gengi.  Alls nam útflutningsverðmæti sjávarafurða 25,3 mö.kr. nú í október en útflutningsverðmæti iðnaðarvara 27,3 mö.kr. Þó var útflutningur nú í október töluvert meiri en hann hefur verið að jafnaði á árinu, eða 55,0 ma.kr. á móti 50,4 ma.kr, en þar munar mestu um útflutning sjávarafurða sem aftur má rekja til þess að aflamark ýmissa tegunda, sér í lagi þorsks, var aukið talsvert á nýju fiskveiðiári sem hófst í september sl.

Vöruinnflutningur var jafnframt aðeins meiri í október en hann hefur að jafnaði verið á árinu, en svipaður og hann var á sama tíma í fyrra. Meira var flutt inn af mat- og drykkjarvörum, fjárfestingavörum og neysluvörum nú í október en að jafnaði á árinu. Aftur á móti var minna flutt inn af hrá- og rekstrarvörum og eldsneyti og smurolíu í október en verið hefur að jafnaði.

Dregur úr vöruskiptaafgangi milli ára

nullMiðað við bráðabirgðatölurnar í október voru vöruskiptin hagstæð um 51,8 ma.kr. á fyrstu tíu mánuðum ársins. Þetta er töluvert minni afgangur en var á sama tímabili í fyrra, en þá hljóðaði hann upp á 64,1 ma.kr. Við gerum ráð fyrir að afgangur á síðasta ársfjórðungi verði með myndarlegra móti, ekki síst vegna aukins aflamarks í sjávarútvegi. Eigum við von á að afgangurinn reynist á bilinu 62-72 ma.kr. í ár. Í fyrra var 77,3 ma.kr. afgangur af vöruskiptum, og er því líklegt að afgangurinn minnki milli ára. Það hefur svo í för með sér minna gjaldeyrisinnflæði til að standa straum af vaxtagreiðslum og afborgunum af erlendum lánum, en á móti kemur aukið gjaldeyrisinnflæði frá þjónustuviðskiptum.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall