Fréttir Greiningar

Enn eitt metið í komum útlendinga

08.11.2013 09:44

nullOktóber síðastliðinn var langfjölmennasti októbermánuður frá upphafi mælinga hvað erlenda ferðamenn varðar. Þetta þarf vart að koma á óvart, enda hefur slíkt verið upp á teningnum mánuð eftir mánuð allt frá því í janúar í fyrra. Alls voru brottfarir erlendra ferðamanna um Flugstöð Leifs Eiríkssonar (FLE) 52.926 talsins í október sl. samanborið við 44.994 á sama tíma í fyrra. Jafngildir þetta 17,6% aukningu á milli ára. Þetta má sjá í gögnum sem Ferðamálastofa Íslands birti yfir brottfarir um FLE í gær.

Þegar orðnir fleiri en allt árið í fyrra

nullÞað sem af er ári hafa um 693 þúsund erlendir ferðamenn farið frá landinu um FLE, og jafngildir það 19,1% aukningu frá sama tímabili í fyrra. Eru brottfarir erlendra ferðamanna orðnar 7,1% fleiri fyrstu tíu mánuðum ársins og þær voru allt árið í fyrra, en þá voru þær 647 þúsund talsins.

Verður fróðlegt að sjá hvort sama sagan verður uppi á teningnum nullnú í nóvember líkt og verið hefur síðustu 22 mánuði, þá sérstaklega í ljósi þess að um gríðarlega aukningu var að ræða á milli ára í nóvember í fyrra. Þannig voru brottfarir erlendra ferðamanna um 37 þúsund í nóvember í fyrra en höfðu verið 23 þúsund árið á undan, og fjölgaði þeim þar með um 61% á milli ára. Aukningin í fyrra skýrðist að hluta til af því að Iceland Airwaves fór fram í nóvember í fyrra en í október árið 2011, en þó er ljóst að þrátt fyrir að fjöldatölur um erlenda gesti Airwaves væru teknar út fyrir sviga þá var samt um mikla aukningu að ræða.

Ferðahugur í landanum eftir slæmt sumar

nullTalsverður ferðahugur virðist hafa gripið landsmenn nú í haust eftir dapurt sumar veðurfarslega séð, a.m.k. á stórum hluta landsins. Líkt og í september sl. lögðu fleiri Íslendingar land undir fót í október en á sama tíma í fyrra. Alls voru brottfarir Íslendinga um FLE 37.749 talsins í október sl., sem er aukning upp á 6,4% frá því í október í fyrra. Hafa brottfarir Íslendinga aðeins tvisvar sinnum áður verið fleiri í október, en það var árin 2006 og 2007. Má því álykta að margir landsmenn hafi verið orðnir býsna sólgnir í sól og sumaryl eftir slakt sumar, og því ákveðið að framlengja sumarið eilítið með utanferð.

Það sem af er ári hafa tæplega 312 þúsund Íslendingar haldið af landi brott. Eru þetta örlítið fleiri en en héldu utan á sama tímabili í fyrra, eða sem nemur um 0,3%

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall