Fréttir Greiningar

Lífeyrissjóðirnir og hlutabréfamarkaðurinn

08.11.2013 09:45

Lnullífeyrissjóðir er langmikilvægasti eigendahópur íslensks hlutabréfamarkaðar. Samtals áttu þeir í það minnsta um 35,6% af hlutafé íslenskra félaga á aðallista Kauphallarinnar í lok október sl.  Höfum við þar bætt við félaginu HB Granda.

Við mat á eignarhaldi lífeyrissjóðanna nýtum við lista yfir 20 stærstu eigendur félaganna frá Kauphöllinni. Við það eignarhald þarf að bæta eignarhaldi þeirra í gegnum Framtakssjóð Íslands („FSÍ“) þar sem þeir eiga um 72% hlut, en þá yrði hlutfallsleg eign þeirra 30,7% í lok október sl. Enn má bæta við og þá með greiningu á hlutfallslegri eign þeirra í hlutabréfasjóðum. Við mat á þeirri stærð nýtum við hlutdeild sjóða af lista yfir 20 stærstu eigendur og hlutfallslega eign lífeyrissjóðanna í hlutabréfasjóðum, en samkvæmt gögnum Seðlabankans áttu lífeyrissjóðirnir að meðaltali um 40% í slíkum sjóðum á skoðunartímanum. Með þessum hætti verður metið eignahald þeirra 35,6% af heildarvirði skráðra hlutafélaga á markaði. Þá er vantalin eign þeirra að því marki sem lífeyrissjóðirnir ná ekki inn á lista yfir stærstu hluthafa.

Hafa stækkað á árinu

Í byrjun árs var hlutfalleg eign lífeyrissjóðanna samkvæmt ýtrustu skilgreiningu, þ.e.a.s. bein eign, ásamt óbeinni eign í gegnum FSÍ og hlutabréfasjóði, 29% af heildarvirði skráðra hlutabréfa en var 35,6% í lok október. Það liggur því fyrir að umfang eignarhalds þeirra hefur aukist verulega, sem skýrist vísast að hluta af þeim takmörkuðu fjárfestingakostum sem sjóðunum hafa staðið til boða. nullÁ myndinni hér til hliðar má sjá hvernig hlutfallsleg eign sjóðanna í innlendum hlutabréfum og hlutabréfasjóðum hefur þróast frá árinu 2008, en hrein eign sjóðanna til greiðslu lífeyris nam 2600 mö.kr. í september sl. Hlutfallið er enn mun lægra en það fór hæst árið 2007 en að sama skapi er íslenski hlutabréfamarkaðurinn mun minni. Heildar innlend hlutfjáreign lífeyrissjóðanna eins og hún er birt í tölum frá Seðlabankanum var um 264 ma.kr. í september, en fjárhæðin samanstendur bæði af eign þeirra í skráðum og óskráðum bréfum.

Ekki er útlit fyrir mikla aukningu á framboði fjárfestingakosta á næsta ári. Við metum heildar fjárfestingaþörf sjóðanna um 170 ma.kr. á næsta ári sem er langt umfram vænt framboð nýrra verðbréfa það ár. Við teljum því að á næsta ári gæti verið töluvert tækifæri fyrir félög að reyna skráningu sem og útboð markaðsskuldabréfa.

Valda lífeyrissjóðirnir bólu á hlutabréfamarkaði?

Eftirspurnarþrýstingur sjóðanna vegna gjaldeyrishafta leiðir til lækkunar á ávöxtunarkröfu markaðarins og þar með hækkunar á markaðsverði hlutabréfa. Fæstum hugnast þessi þróun þar sem verðlagning hlutabréfa er þá líkleg til að víkja frá eðlilegri verðlagningu utan fjármagnshafta. Það er þó erfitt að tala um að þessa þróun orsaki verðbólu á hlutabréfamarkaði, enda er mjög eðlilegt að markaðsálag sveiflist yfir tíma á meðan verðbóla er mun líklegri til að stafa af óeðlilegum væntingum um framtíðarmöguleika rekstrar, sbr. netbólan, eða hreinlega hjarðhegðun þar sem hver einstakur kaupandi er drifinn af væntingum um áframhaldandi verðhækkun án tillits til undirliggjandi þátta. Nærtækara er að tala um bjögun í þessu sambandi.

nullÁ teikningunni hér til hliðar má sjá hvernig markaðsálag hefur sveiflast í Bandaríkjunum. Við gerð verðmata notast íslenskir greinendur oft við söguleg meðaltöl þróaðra hlutabréfamarkaða og er þá oft litið til Bandaríkjanna sökum langrar sögu og djúps markaðar þar.

Okkar mat er að verðbólu sé ekki að finna á innlendum hlutabréfamarkaði í dag. Styðjumst við m.a. í því við erlendan samanburð, en sem fyrr segir eru ákveðin merki um að markaðsálagið hér hafi tekið að gefa aðeins eftir. Það er þó vissulega þannig að í slíkum samanburði eru sum félög dýrari en önnur. Við snöggt afnám hafta gæti samt orðið skyndileg hliðrun á markaðsálaginu að eðlilegra gildi með tilheyrandi lækkun markaðsverðs hlutabréfa. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn („AGS“) hefur þó bent á að eðlilegt sé að stýra því á hvaða hraða lífeyrissjóðirnir færi fjárfestingar sínar úr landi þegar að losun hafta kemur. Við teljum mjög ólíklegt að afnám hafta eigi sér stað á mjög skömmum tíma, m.a. í ljósi útreikninga AGS á áhrifum þess og áherslu stjórnvalda á að valda ekki óhóflegum sviptingum á fjármálamarkaði vegna afnámsins.

Mis atkvæðamiklir milli félaga

nullLífeyrissjóðirnir eru mis atkvæðamiklir í eignarhaldi einstakra félaga. Ef óbeint eignarhald þeirra, þ.e. eignarhluti þeirra í gegnum FSÍ og verðbréfasjóði, er lagt við þann eignarhlut sem þeir eiga í eigin nafni má sjá að þeir eru langatkvæðamestir í Icelandair með um 56% eignarhlut. Eignarhlutinn er aftur þannig saman settur að lífeyrissjóðirnir eiga 41% í eigin nafni, 10% í gegnum eignarhald sitt í hlutabréfasjóðum og 5% í gegnum eignarhald sitt í FSÍ.

Lífeyrissjóðirnir eru jafnframt atkvæðamiklir í Vodafone og Högum þar sem þeir eiga um helming hlutafjár. Minnst eiga sjóðirnir í Granda, en félagið er skráð á First North markaðinum þar sem fjárfestingaheimildir sjóðanna eru takmarkaðri sökum þess að þeim ber að líta á bréf á First North sem óskráða eign.

Lífeyrissjóðirnir eru ekki aðeins umsvifamiklir eigendur skráðra hlutabréfa á markaði, þeir hafa einnig verið umsvifamiklir eigendur í ýmsum framtakssjóðum um eignarhald félaga í endurskipulagningu. Líkur eru á að mörg þessara félaga verði skráð á markað í fyllingu tímans, en sjóðirnir hafa hagnast vel á nokkrum slíkum verkefnum m.a. í gegnum eignarhald sitt í FSÍ.

Mikilvægir stofnfjárfestar  - slæmir fyrir samkeppni?

Ýmsir hafa undanfarið viðrað áhyggjur sínar af óljósu eignarhaldi félaga, þá sérstaklega vegna eignarhalds ýmissa framtakssjóða þar sem eignarhluti einstakra eigenda er ekki gefinn upp, sem og þeirri hættu sem stafar af því að félög í samkeppni lendi í höndum sömu eigenda. Þannig hefur komið fram að lífeyrissjóðirnir eru að eignast töluverðan hlut í Kaupás í gegnum Stefni en fyrir eiga þeir, eins og kom fram hér að ofan, um helmings hlut í Högum. Það er þó ólíklegt að sömu lífeyrissjóðir kjósi að eiga verulegan hlut í samkeppnisaðilum, og komi upp slíkar aðstæður kjósa þeir vísast ekki að tilnefna stjórnarmann í báðum félögum enda ættu þeir að vera vel vanir að feta stíg hagsmunaárekstra þar sem þeir hafa löngum verið stórir fyrirtækjaeigendur. Þá má segja að komi upp sú staða að samkeppni sé ógnað af þessum sökum ætti hagnaður fyrirtækja þeirra að lokum að enda í vösum þeirra sömu aðila og sköðuðust af samkeppnisskorti.

Lífeyrissjóðirnir hafa verið og eru mjög mikilvægir þátttakendur á íslenskum hlutabréfamarkaði. Þeir eru kjölfestufjárfestar í mörgum af stærstu atvinnurekendum landsins og mikilvægir sem slíkir.  Það er samt sem áður full ástæða til að fylgjast með eignarhaldi þeirra og mögulegum neikvæðum áhrifum þess. Í dag er þó fátt sem bendir til þess að slíkra neikvæðra áhrifa gæti þó hér geti skapast slík skilyrði.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall