Fréttir Greiningar

Mikil hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu

20.11.2013 09:38

nullÍbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,6% í október síðastliðnum. Er þetta mesta hækkun í einum mánuði sem mælst hefur síðan í júní sl. Kemur hækkunin til af mikilli hækkun á verði íbúða í sérbýli. Það hækkaði um 2,6% á milli mánaða en talsverðar sveiflur geta verði í verði sérbýlis á milli mánaða. Verð íbúða í fjölbýli hækkaði hins vegar um 1,3% á milli mánaða. Yfir síðustu tólf mánuði hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 7,9% að nafnvirði en um 4,1% að raunvirði. Er þetta mesta nafnverðshækkun húsnæðis yfir tólf mánaða tímabil sem mælst hefur síðan í mars 2012 og mesta raunverðshækkun síðan í desember 2011.

Raunverð húsnæðis hefur nú nækkað um 9,8% frá því að það stóð lægst eftir hrunið 2008, og er það nú álíka og það var undir lok árs 2004. Hækkun raunverðs íbúðarhúsnæðis undanfarið má rekja til vaxandi kaupmáttar launa, fjölgunar starfa og leiðréttingar á skuldum heimilanna svo eitthvað sé nefnt. Það er þó enn ríflega 29% lægra en það var þegar það stóð hæst í verðbólunni á þessum markaði fyrir hrunið. Það var Þjóðskrá Íslands sem birti vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu í gær.

Vaxandi velta og fjölgun kaupsamninga

nullVeltan með íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu hefur verið að aukast undanfarið. Yfir síðustu þrjá mánuði var þinglýst 1.563 kaupsamningum um fasteignir á höfuðborgarsvæðinu, og eru það 11,4% fleiri samningar en á sama tímabili í fyrra. Heildarveltan í þessum viðskiptum nam 49,7 mö.kr. og er það aukning um 21,2% frá sama tíma fyrir ári. Vöxtur hefur verið í veltu með íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu nær samfellt síðan í byrjun árs 2010 og var þinglýst 263% fleiri kaupsamningum með íbúðarhúsnæði á síðustu þremur mánuðum en á sama tíma 2009. Heildarveltan með íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu hefur vaxið um 294% á þessum tíma. 

Skiptir miklu fyrir fjárhag heimilanna

Miklu skiptir fyrir heimilin í landinu í hvaða átt íbúðaverð er að þróast. Samkvæmt fasteignamati Þjóðskrár er markaðsvirði íbúðaeigna í landinu öllu 3.263 ma.kr. Þetta eru 125.700 íbúðir. Heimilin eiga sjálf um 80% af þessum eignum, en um 20% eru í eigu lögaðila á borð við Íbúðalánasjóð, banka og leigufélög. Eru heimilin í skuldsettum stöðum í þessum eignum og var veðsetningarhlutfallið, þ.e. skuldir heimila með veð í íbúðarhúsnæði sem hlutfall af íbúðaeign þeirra, 50,2% í lok síðastliðins árs skv. upplýsingum frá Seðlabankanum. Hefur þetta hlutfall farið lækkandi frá því að það náði hámarki eftir hrun í 58,5% í lok árs 2010. Verðhækkun íbúðarhúsnæðis og höfuðstólslækkun lána, t.d. vegna endurútreiknings gengistryggðra lána og 110% leiðar, eru meðal þeirra þátta sem hafa valdið þeirri þróun. Þrátt fyrir lækkunina er veðsetningarhlutfallið enn nokkuð hærra en það var fyrir hrun, en í lok árs 2007 var það 43,4%.  

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall