Fréttir Greiningar

Reginn stækkar enn

22.11.2013 11:38

Reginn hefur undirritað samkomulag um kaup á öllu hlutafé í Klasa fasteignum ehf. Við þetta stækkar fasteignasafn félagsins um 28.500 fm. Eignasafn Regins er  í dag er um 190.000 fm en markmið félagsins er að eignasafnið nái um 300.000 fm. að stærð. Kaupin miðast við að heildarvirði Klasa sé 8.250 m.kr. en greitt er fyrir með peningum og hlutafé í Reginn að nafnvirði 128,7 m.kr. Gengi bréfa Regins í þessum viðskiptum miðast við lokagengi þann 15. nóv. sem var 13,63 kr. á hlut. 

Jafngildir þetta því að þynning á hlut núverandi hluthafa Regins verður talsverð og eigendur Klasa munu eignast um 9% í „nýju“ félagi. Félagið er núna fjármagnað með skráðum skuldabréfaflokki KLS1. Klasi er að 95% hlut í eigu Siglu ehf.  sem mun við viðskiptin eignast 8,6% hlut í Reginn en aðrir hluthafar Klasa eignast um 0,4% hlut. Sigla hefur samþykkt sölubann á hlutum sínum í Reginn í 9 mánuði frá greiðsludegi.

Nýju eignirnar

Fasteignir Klasa fasteigna ehf. í Reykjavík eru Skútuvogur 2, Bíldshöfði 9 (7. hæð), Síðumúli 7-9 (hluti) og Síðumúli 28, Guðríðarstígur 6-8 og Hádegismóar 4. Félagið á auk þess fasteignir í Garðabæ, Litlatún 3 og Garðatorg 1, og Eyrartröð 2a í Hafnarfirði. Leigutakar eru 30 talsins en helstir eru Vodafone, Hagkaup, Árvakur, Garðabær og Víðir.

Eignirnar eru allar í 100% útleigu utan Síðumúla 7-9 og Bíldshöfða. Þessar eignir sambærilegar við þær eignir sem Atvinnuhúsnæði Regins á núna. Dreifing eignanna út frá staðsetningu fellur að okkar mat vel að öðrum eignum Regins bæði er varðar almenna viðbót sem og styrkingu í eignaflokkum sem Reginn var ekki mjög sterkur í fyrir kaupin.  Félagið er því ekki að fara inn á nýja braut með kaupum.

Fjárhagsleg áhrif og nýr hluthafi Regins

Kaupin fara fram með eðlilegum fyrirvörum en ef þau ganga í gegn gerir félagið ráð fyrir að EBITDA hagnaður Regins hækki um rúmlega 20% m.v. útgefna rekstrarspá fyrir 2014. Hljóðar sú spá upp á 2.803 m.kr. EBITDA hagnað á árinu 2014.  Tekjur eru áætlaðar 3.865 m.kr. Gert er ráð fyrir að tekjurnar aukist við þessi kaup um 18% eða um 700 m.kr. Jafngildir það því að meðaltekjur á hvern keyptan fermetra séu 2.050 kr. hjá Klasa og að meðalkaupverð á fm. sé 289 þús.kr.  

Horfa þarf þó á þessa spá með tvennt í huga. Utan hennar eru tekjuáhrif af eignum innan VIST ehf. og Austurstræti 6 sem nýlega var keypt.  Innan VIST ehf. voru eignir að stærð um 4.200 fm. og var tilkynnt um frágang þeirra viðskipta 26. september sl.

Miðað við kaupverðið, opinberar upplýsingar um leigutekjur og áhrif á útgefna rekstrarspá 2014 er varðar EBITDA hagnað Regins þá er ljóst að áhrif þessara kaupa eru ekki síst hagfelld fyrir Reginn. Fastur kostnaður nýtist betur hjá félaginu.  Það er sá liður rekstrarreiknings Regins sem mesta athygli hefur fengið hjá stjórnendum. Hlutfall EBITDA hagnaðar á móti heilsárstekjum er einnig gott á þeim eignum sem nú bætast við félagið en ljóst er að slíkt hefur vafalítið spilað inn í kaupverð eignanna.

Þróunarverkefni Klasa ekki keypt

Klasi ehf. hefur yfir 300 þúsund fm. í stýringu og þjónustu og sérhæfir félagið sig í fasteignaþróun, sem og fasteignastýringu og rekstri fasteigna.  Kaupin sem Reginn er núna er að kaupa eru  einungis þær eignir sem eru í tekjumyndandi starfsemi. Félagið er ekki að kaupa þróunarverkefni Klasa.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall