Fréttir Greiningar

Gustar um skuldabréfamarkað

29.11.2013 12:23

nullVerulegar sviptingar hafa verið á skuldabréfamarkaði frá seinni hluta síðustu viku. Hefur velta verið mikil og breytingar á ávöxtunarkröfu talsverðar. Krafa bæði óverðtryggðra og verðtryggðra bréfa hækkaði umtalsvert frá dagsbyrjun fimmtudaginn 21. nóvember fram að lokum dags 27. nóvember. Var kröfuhækkunin á bilinu 23-50 punktar á lengri ríkisbréfaflokkunum, en á lengri íbúðabréfum nam hækkunin 8-25 punktum.

Í gær gekk kröfuhækkunin hins vegar til baka að nokkru leyti, og það sem af er morgni hefur krafa sumra flokka lækkað enn frekar. Krafa lengri flokka óverðtryggðra ríkisbréfa er þó enn 7-33 punktum hærri en hún var fyrir rúmri viku síðan, og krafa lengri flokka verðtryggðra íbúðabréfa hefur hækkað um 2-10 punkta á tímabilinu.  Undanfarna fimm viðskiptadaga nemur velta með ríkistryggð bréf alls 84,7 mö.kr., en nærri lætur að það sé fjórföld velta miðað við meðaltal viknanna á undan. Þar af nam velta með óverðtryggð bréf 67,6 mö.kr., en velta með verðtryggð bréf 17,1 ma.kr.

Órói vegna skuldatillagna

nullEin helsta skýringin á þessum sveiflum virðist vera áhyggjur fjárfesta á markaði af áhrifum aðgerða til lækkunar á skuldum heimila sem ríkisstjórnin hyggst kynna um helgina. Snúa áhyggjurnar bæði af því að bein eða óbein skuldsetning ríkissjóðs kunni að aukast vegna aðgerðanna, og eins af því að þær kunni að valda verðbólguþrýstingi sem leiði til hækkunar á vöxtum. Við þetta bættist svo að fjáraukalög benda til nokkru verri stöðu ríkissjóðs en áætlað hafði verið, auk þess sem verðbólgutölur síðastliðinn miðvikudag reyndust ívið hærri en vænst hafði verið. Órói vegna skuldatillagna stjórnvalda virðist þó hafa vegið til muna þyngst, og endurspeglast það að mati okkar í kröfulækkuninni í gær, eftir að fréttir fóru að berast af því að tillögurnar kunni að verða hóflegri en ýmsir höfðu áhyggjur af.

Áhugavert verður að fylgjast með þróun ávöxtunarkröfu á markaði næstu daga, en samkvæmt fjölmiðlum í dag verða tillögur um aðgerðir í þágu skuldugra heimila kynntar í kjölfar þingflokksfunda ríkisstjórnarflokkanna, sem haldnir verða á morgun. Það veltur svo að miklu leyti á mati fjárfesta á áhrifum tillagnanna á skuldir ríkissjóðs, verðbólgu og vaxtastig hvaða stefnu skuldabréfamarkaðurinn tekur eftir helgi að mati okkar.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall