Fréttir Greiningar

Skuldabréfaútgáfa á árinu umfram áætlanir

29.11.2013 12:21

nullVel hefur gengið í útgáfumálum opinberra aðila á skuldabréfamarkaði á árinu, og nemur útgáfa helstu aðila um 106 mö.kr. að söluandvirði. Er hér átt við samanlagða útgáfu Lánamála ríkisins, Lánasjóðs sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar sem gefa reglulega út skuldabréf. Útgáfa óverðtryggðra skuldabréfa ríkissjóðs er hér langfyrirferðarmest, en hún nemur alls um 87 mö.kr. Útgáfa verðtryggðra skuldabréfa nemur því tæpum 19 mö.kr. Verðtryggða útgáfan hefur ýmist verið útgáfa ríkisbréfa í tengslum við losun gjaldeyrishafta, útgáfa LSS-bréfa og svo RVK-bréfa.  Útgáfan á árinu er orðin talsvert umfram það sem þessir þrír aðilar áætluðu upphaflega að gefa út samanlagt á árinu, enda endurskoðuðu bæði Lánamál ríkisins og Lánasjóður sveitarfélaga útgáfuáætlun sína upp á við á árinu. Þó gæti talsverð útgáfa verið eftir hjá þessum þremur aðilum, nú þegar aðeins einn mánuður er eftir til áramóta, eða samanlagt um 14,6 ma.kr. að hámarki.

Lánamál ríkisins: Allt að 12,4 ma.kr. útgáfa

Í ársfjórðungsáætlun Lánamála fyrir fjórða ársfjórðung kom fram að útgáfa ríkisbréfa yrði aukin um allt að 20 ma.kr. að söluverði frá upphaflegri áætlun. Var það gert til þess að mæta hugsanlegri minni útgáfu ríkisvíxla á árinu en upphaflega var stefnt að. Aðeins eitt ríkisbréfaútboð hefur farið fram á fjórða ársfjórðungi, en felld hafa verið niður þrjú útboð sem fyrirhuguð voru. Útgáfan í því útboði nam um 3,0 mö.kr. að söluverði. Þar að auki hefur eitt gjaldeyrisútboð farið fram á fjórðungnum þar sem seld voru bréf fyrir 0,7 ma.kr. Er útgáfan þar með komin upp í 3,7 ma.kr. það sem af er fjórða ársfjórðungi.

nullMiðað við ofangreint virðast Lánamál eiga talsverða útgáfu eftir ef ætlunin er að ná útgáfuáætlun, og aðeins einn mánuður er til stefnu. Sé staða ríkisvíxla borin saman við stöðuna þegar ákvörðunin um aukna ríkisbréfaútgáfu var tekin þá hefur hún hækkað um 3,9 ma.kr. Má því gróflega áætla að ríkisbréfaútgáfa gæti numið allt að 12,4 mö.kr. í desembermánuði, þá að því gefnu að víxlastaðan verði lítt breytt eftir desemberútboðið, en á gjalddaga eru víxlar að fjárhæð 2,8 ma.kr. Þrjú ríkisbréfaútboð eru fyrirhuguð í desember, þ.e. tvö almenn útboð og eitt gjaldeyrisútboð. Verður því væntanlega nóg um að vera í útgáfumálum hjá Lánamálum í mánuðinum og ekki er við öðru að búast en að bæði almennu útboðin verði á dagskrá. Fróðlegt verður að sjá hvort Lánamál tefli fram nýja flokknum, RIKB20, sem kynntur var til leiks í ársáætluninni, en aðrir flokkar sem koma til greina eru RIKB15, RIKB22 og RIKB31.

LS og RVK: Allt að 2,2 ma.kr. útgáfa

Rífandi gangur hefur verið í útgáfumálum Lánasjóðs sveitarfélaga á árinu, og hefur hann nú þegar uppfyllt neðri mörk útgáfuáætlunar sinnar sem hljóðar upp á 8-10 ma.kr. Eftir síðasta útboð sjóðsins, sem fór fram nú í vikunni, er útgáfan komin upp í tæpa 8,6 ma.kr. að nafnvirði. Á LS því að hámarki 1,4 ma.kr. útgáfu að nafnverði eftir miðað við efri mörk áætlunar, en eitt útboð er fyrirhugað hjá sjóðnum í desember.

Reykjavíkurborg hefur aflað 2,5 ma.kr. að söluvirði í útboðum á árinu, en útgáfuáætlun hennar hljóðar upp á 3,3 ma.kr. Stendur því útgáfa upp á tæpa 0,8 ma.kr. að söluandvirði eftir til ársloka, en borgin fyrirhugar að halda eitt útboð í desember. Þó er svigrúm borgarinnar talsvert, enda sýndi 9 mánaða uppgjör borgarinnar rekstrarniðurstöðu sem var 823 m.kr. betri fyrir A-hluta en áætlanir voru um.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall