Fréttir Greiningar

Hagvöxtur umfram væntingar

06.12.2013 10:59

nullHagvöxtur á fyrstu níu mánuðum ársins var 3,1% samkvæmt bráðabirgðatölum sem Hagstofan birti í morgun. Bendir þetta til þess að hagvöxtur ársins gæti orðið nokkuð umfram spár, en opinberar spár sem birtar hafa verið undanfarið hljóða upp á 1,7-2,3%. Það sem kemur á óvart í tölunum er hversu mikið þjónustuútflutningur er að vaxa á tímabilinu (7,4%), en aðrar þjóðhagsstærðir eru í stórum dráttum að þróast í samræmi við þjóðhagsspá okkar frá október síðastliðnum.

Ætti ekki að hafa áhrif á vaxtaákvörðunina í næstu viku

nullSeðlabankinn spáði 2,3% hagvexti í sinni síðustu hagvaxtarspá. Hinar nýju tölur gætu bent til þess að hagvöxtur yrði meiri á árinu. Merkir þetta að slakinn er að hverfa hraðar úr hagkerfinu en gert er ráð fyrir í spá bankans. Á móti er framleiðnivöxturinn meiri, sem dregur úr verðbólguhættu. Við teljum samt ólíklegt að þessar tölur muni hafa áhrif á ákvörðun Seðlabankans um stýrivexti í næstu viku og reiknum þar með óbreyttum vöxtum. Reynslan sýnir að þjóðhagsreikningar breytast oft verulega frá fyrstu tölum þegar frá líður, og eflaust mun Seðlabankinn hafa það bak við eyrað þegar þessar tölur eru metnar.

Samdráttur í þjóðarútgjöldum

Þjóðarútgjöld drógust saman um 0,5% á fyrstu níu mánuðum ársins frá fyrra ári, og er það vegna 7,1% samdráttar í fjárfestingum. Samdrátturinn er kominn til af því að mun minna hefur verið keypt inn af skipum og flugvélum í ár en á sama tíma í fyrra. Vöxtur í fjárfestingu hefur hins vegar verið 5,3%, að skipum og flugvélum frátöldum. Rétt er þó að halda til haga að fjárfestingarstigið í hagkerfinu er enn lágt, og er brýnt að fjárfesting glæðist enn frekar til þess að styðja við sjálfbæran hagvöxt á komandi árum.

Hægur vöxtur í einkaneyslu

nullHægur vöxtur var í einkaneyslu eða 1,3% á fyrstu níu mánuðum ársins. Er það í takti við vísbendingar um útgjöld heimilanna á borð við kortaveltu og nýskráningar bifreiða. Hagstofan leiðrétti fyrri tölur um vöxt einkaneyslu á fyrri hluta ársins niður á við, og eru þær nú í betra samræmi við hagvísa á borð við kortaveltu og innflutning.

Ferðaþjónustan að drífa vöxtinn

Hagvöxturinn á fyrstu níu mánuðum ársins er að miklu leyti drifinn áfram af auknum tekjum af ferðamannaþjónustu og samdrátt í kaupum á erlendri þjónustu. Útflutningur jókst um 4,9% á fyrstu níu mánuðum ársins en á móti dróst innflutningur saman um 1,9%. Þar er það þjónustuútflutningur sem dregur vagninn með 7,4% vöxt, en vöruútflutningur jókst um 2,0%. Á innflutningshliðinni dróst vöruinnflutningur saman um 2,4% og þjónustuinnflutningur saman um 1,1%.

Almenn bjartsýni fyrir næstu ár

Þeir þrír aðilar sem gáfu út hagvaxtarspár fyrir Ísland í síðasta mánuði, þ.e. OECD, Seðlabanki Íslands og Hagstofan, voru þá sammála um að hagvöxtur muni verða talsverður hér á landi á næstunni. Spá þessir aðilar 2,5%-2,7% hagvexti hér á landi á næsta ári en 2,8% hagvexti á árinu 2015. Er þetta nálægt meðalhagvexti undanfarinna áratuga. Verður hagvöxturinn samkvæmt þessum spám byggður á breiðari grundvelli en hagvöxtur þessa árs, þ.e. reiknað er með því að þjóðarútgjöld fari að vaxa að nýju samhliða áframhaldandi vexti í útflutningi. Nokkur munur er á spám um hvað mun leggja mest til hagvaxtarins. Þannig er OECD bjartsýnust á vöxtinn í útflutningi en Seðlabankinn er bjartsýnastur á fjárfestinguna. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall