Fréttir Greiningar

Ríkisverðbréfaeign erlendra aðila skreppur saman

10.12.2013 11:09

nullRíkisverðbréfaeign erlendra aðila hefur skroppið talsvert saman á árinu. Þó hefur áhugi þeirra á lengri ríkisbréfum aukist töluvert frá því um síðustu áramót, og hafa þeir óðum verið að færa sig lengra út vaxtarófið. Einnig hafa þeir bætt bæði verðtryggðum bréfum og bréfum með fljótandi vexti í verðbréfasöfn sín, sem áður voru nánast einskorðuð við óverðtryggð fastvaxtabréf og víxla.

Gjalddagi og minnkandi áhugi á víxlum

Ríkisverðbréfaeign erlendra aðila hefur skoppið saman um 31,0 ma.kr. á árinu, þ.e. frá því í lok desember á síðasta ári til loka nóvember sl. Það má að miklu leyti rekja til þess að þeir voru langstærsti eigendahópur RIKB13 sem var á gjalddaga í maí sl., en alls nam eign þeirra í flokknum um síðustu áramót 89,1 mö.kr. Sú fjárhæð hefur ekki öll leitað aftur inn í ríkisverðbréf. Einnig má rekja þessa minnkun til þess að áhugi þeirra á ríkisvíxlum hefur snarminnkað á árinu, og nam eign erlendra aðila í víxlum aðeins um 1,8 mö.kr. í lok nóvember sl. samanborið við 18,7 ma.kr. í lok desember 2012.

Aukning einna mest í meðallöngum flokkum

nullÞrátt fyrir að ríkisverðbréfaeign erlendra aðila hafi dregist saman frá síðustu áramótum hefur eign þeirra aukist í öllum útistandandi ríkisbréfaflokkum. Að RIKB15 flokknum undanskildum, sem leit fyrst dagsins ljós í mars sl., hefur eign erlendra aðila aukist mest á árinu í RIKB19, eða um 16,3 ma.kr. Eru þeir orðnir stærsti eigendahópur RIKB19-flokksins með um 46% eignarhlutdeild samanborið við 27% í lok desember 2012. Ætla má að háir nafnvextir á RIKB19, sem eru 8,75%, hafi laðað erlendra aðila á flokknum, en háir nafnvextir eru ein drýgsta leiðin fyrir erlenda krónueigendur til að kaupa erlendan gjaldeyri fyrir hluta eigna sinna í krónum. Næstmest jókst eign þeirra í RIKB22, eða um 8,9 ma.kr., og eiga þeir nú orðið 17% bréfa í flokknum samanborið við tæp 4% um síðustu áramót. Að hluta til hafa erlendir aðilar aukið við eign sína í RIKB22 í útboðum á flokknum á árinu, en hvað RIKB19 varðar hefur eftirmarkaðurinn verið nýttur að fullu enda var ekkert útboð á flokknum á árinu.

Áhugi á verðtryggðum flokkum glæðist

nullNokkuð athyglisvert er að sjá að eign erlendra aðila hefur aukist talsvert í verðtryggðum flokkum en almennt voru þeir áður fremur áhugalitlir um slíka flokka. Eign þeirra í RIKS21 hefur aukist um um 6,0 ma.kr. frá áramótum, og eiga þeir nú orðið um 11% bréfa í flokknum samanborið við rúmt 1% um síðustu áramót. Í gegnum gjaldeyrisútboð hafa erlendir aðilar auk þess keypt RIKS33 fyrir 4,0 ma.kr. á árinu, og eiga orðið rúmlega 14% bréfa í flokknum samanborið við innan við 1% um síðustu áramót. Jafnframt hefur eign þeirra í RIKH18 aukist töluvert á árinu, eða um 7,8 ma.kr. og eiga þeir nú orðið hátt í 4% bréfa í flokknum samanborið við 0,1% um síðustu áramót. Síðastnefndi flokkurinn hefur þá sérstöðu að vera eini ríkisbréfaflokkurinn þar sem nafnvextir eru fljótandi, og kann að vera að sá eiginleiki ráði miklu um aukinn áhuga erlendra aðila á flokknum. Rétt er að halda því til haga að erlendir kaupendur RIKS33-bréfanna eru væntanlega ekki aflandskrónueigendur heldur aðrir aðilar sem eru að færa eignir til landsins í gegn um ríkisverðbréfaleið Seðlabankans. Hér er því um annan hóp að ræða en stendur að baki ríkisbréfaeign erlendra aðila að öðru leyti.

Enn stærstir í stuttum og minnstir í löngum

nullÞrátt fyrir að erlendir aðilar hafi fært sig töluvert lengra út vaxtarófið eiga þeir enn mest í stuttum óverðtryggðum bréfum en einna minnst í lengri óverðtryggðum bréfum. Stutt bréf eru hér skilgreind sem bréf með gjalddaga árið 2016 eða fyrr, en lengri bréf hafa gjalddaga árið 2025 eða síðar. Alls áttu þeir um 76% útistandandi bréfa í stuttum flokkum í lok nóvember sl. samanborið við 3% í lengri flokkum. Til samanburðar má nefna að um síðustu áramót var fyrrnefnda hlutfallið 82% en það síðarnefnda 2%. Af ofangreindu má sjá að verðbréfasafn erlendra aðila hefur tekið talsverðum breytingum á árinu, og verður fróðlegt að sjá hvort að þeir færi sig í enn ríkari mæli úr stuttum óverðtryggðum bréfum yfir í lengri bréf, eða jafnvel verðtryggð.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall