Fréttir Greiningar

Hlutabréfamarkaðurinn nálgast 500 milljarða

11.12.2013 11:40

nullMarkaðsverðmæti þeirra félaga sem fyrir eru á Aðallista Kauphallarinnar var í dagslok í gær, 10. desember, um 482 ma.kr. Verðmæti þeirra félaga sem voru á listanum í ársbyrjun 2013 var 338 ma.kr. en á vormánuðum bættust við þann lista tryggingarfélögin tvö, VÍS og TM.

Þann 19. þessa mánaðar verður N1 skráð á Aðallista Kauphallarinnar. Því mun árinu 2013 ljúka með 14 skráðum félög á Aðallistanum. Af þeim eru Össur, Nýherji og „færeysku félögin“ með mjög óvirka verðmyndun og óveruleg viðskipti eru með hlutabréf í þeim félögum.

Ef einungis er miðað við útboðsverð í tilboðsbók A í hlutafjárútboði N1,  þá er markaðsverðmæti þess á bilinu 13,5-15,3 ma.kr. Því stefnir því hlutabréfamarkaðurinn í 500 milljarða kr. að markaðsvirði í árslok.

Fimm líklegir nýliðar á næsta ári

Nokkur félög hafa verið nefnd sem líklegir nýliðar á Aðallistann á næsta ári. Þegar hefur verið tilkynnt um að stefnt sé að skráningu HB Granda, Sjóvá og Promens. Við teljum líklegt að við þann lista bætist félögin Reitir og Skipti. Að því marki sem sambærileg félög eru skráð á markað má finna vísbendingar um verðmæti nýliðanna á markaði.

Það ber þó að hafa í huga að í öllum tilfellum ber að taka vísbendingum um verðmæti sem eingöngu byggja á kennitölum með fyrirvara vegna séreinkenna hvers félags sem taka þarf tillit til. Dæmi um þetta væri til dæmis dulið eigið fé og liðir eins og einskiptiskostnaður.

Sjóvá síðast stóru tryggingarfélaganna á markað

Eigið fé Sjóvá var í árslok 2012 rétt tæpir 15 ma.kr. og við áhorf á verðmæti tryggingarfélaga, sem og annarra félaga í fjárfestingastarfsemi, er gjarnan horft til hins svo kallaða V/I hlutfalls sem mælir markaðsvirði félags í hlutfalli af bókfærðu eigið fé þess. Sé litið til þessa hlutfalls sem og arðsemi eigin fjár má fá sterka vísbendingu um hugsanlegt verðmæti félagsins út frá verði annarra tryggingarfélaga.

Skipti og Promens

Skipti er félag sem er í svo til sama rekstri og Vodafone. Félagið fór í gegnum verulega andlitslyftingu á efnahagsreikningi sínum samhliða nauðasamningum sem gengu í gegn á miðju ári 2013. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta nam á fyrstu sex mánuðum ársins 2013 um 4 ma.kr. 

Promens er félag sem myndaðist m.a. út frá Sæplasti á Dalvík. Því félagi svipar mjög til Marels að mörgu. EBITDA hagnaður félagsins nam um 60 m.EUR á árinu 2012 og nettó staða vaxtaberandi skulda nam í árslok 2012 um 141 m.EUR.

Reitir er stærsta fasteignafélag landsins

Reitir er stærsta fasteignafélaga landsins með 130 fasteignum sem samtals eru um 410 þúsund fermetrar að stærð. Stærstu hluthafar félagsins eru Eignabjarg ehf.,í eigu Arion, sem á um 43% í félaginu, Landsbankinn sem á um 30% og Þrotabús Landic Property sem á um 16% í félaginu.

Bókfært verðmæti fjárfestingareigna félagsins var rúmlega 90 ma.kr. í lok júní sl. Bókfært verð eigin fjár nam rúmlega 16 ma.kr. Þótt eignasafn félagsins, sem er miklu stærra en Regins og eignirnar nokkuð frábrugðnar í eðli sínu, þá gefur verðlagning Regins vísbendingar um hvernig líkleg meðhöndlun markaðarins yrði er varðar markaðsverðmæti félagsins.

HB Grandi er risi í sjávarútvegi

HB Grandi er stórt sjávarútvegsfyrirtæki sem hefur til ráðstöfunar um rúm 11% af heildar þorskígildum sjávarútvegsins á Íslandi. Verðmæti slíkra félaga er stundum reiknað út frá tveimur aðferðum. Annars vegar sem einhvers konar upplausnarvirði þar sem horft er á kvótastöðu félagsins, fasteignir og skuldir ásamt skattalegum áhrifum upplausnar félagsins.

Hins vegar er einnig brugðið máli á virði rekstursins út frá klassískum aðferðum sem snúa að núvirtu sjóðsstreymi, annaðhvort til reksturs (FCFF) eða til eigenda (FCFE). Bókfært eigið fé félagsins nam 174 m.EUR í lok júní sl. Við teljum mjög jákvætt og í raun tími til kominn að skráð verði sjávarútvegsfyrirtæki á Aðallista Kauphallarinnar.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall