Fréttir Greiningar

Afgangur af kortaveltujöfnuði fimmfaldast

16.12.2013 11:26

nullEins og fyrri daginn óx kortavelta útlendinga verulega í nóvembermánuði frá sama tíma í fyrra. Alls nam kortavelta útlendinga hér á landi um 5,2 mö.kr. í nóvember, sem er aukning upp á 22,7% í krónum talið á milli ára. Er það aðeins hægari vöxtur en var í ferðamannatölum þeirra, en brottförum erlendra ferðamanna um FLE fjölgaði um 25,7% í nóvember á milli ára. Á sama tíma nam kortavelta Íslendinga erlendis rúmlega 7,6 mö.kr. og var því mismunur á kortaveltu Íslendinga erlendis og veltu útlendinga hér á landi tæpir 2,5 ma.kr. sem er aðeins minni halli en var á sama tíma í fyrra.

Sé tekið mið af fyrstu ellefu mánuðum þessa árs er kortaveltujöfnuður hagstæður um 14,3 ma.kr. Er hér um gríðarlega breytingu að ræða á þessum jöfnuði frá því sem áður var. Í fyrra var afgangur af kortaveltujöfnuði upp á 3,1 ma.kr., sem þýðir að hann er næstum fimmfalt meiri nú í ár en hann var á sama tímabili í fyrra. Fyrir hrun var kortaveltujöfnuður hins vegar ávallt í halla á þessu tímabili, og má hér nefna að árið 2008 var hallinn kominn upp í 28,6 ma.kr. og árið 2007 upp í 30,2 ma.kr. þegar einn mánuður var eftir af árinu. Þessi þróun í kortaveltu milli landa er í samræmi við jákvæða þróun í þjónustujöfnuði það sem af er ári, en aukinn afgangur af þjónustujöfnuði hefur vegið gegn minni afgangi af vöruskiptum og stuðlað þar með að sterkari krónu á seinni hluta árs en ella hefði orðið.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall