Fréttir Greiningar

Ekkert lát á tekjuvexti af erlendum ferðamönnum

14.01.2014 11:12

nullLíkt og fyrri daginn óx kortavelta útlendinga verulega í desember sl. frá sama tíma árið á undan. Samkvæmt tölum sem Seðlabanki Íslands birti í gær nam kortavelta útlendinga hér á landi alls um 5,0 mö.kr. í desember, sem er aukning upp á rúm 31% í krónum talið á milli ára. Það er þó heldur hægari vöxtur en var í ferðamannatölum þeirra, en samkvæmt tölum sem Ferðamálastofa Íslands tekur saman og birti í síðustu viku fjölgaði brottförum erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll um 49% á milli ára í desember sl. Þó liggur ekki nákvæmlega sama tímabil undir hér og mun sú gríðarlega aukning sem átti sér stað á fjölda erlendra ferðamanna í desember væntanlega hafa áhrif á kortatölur janúarmánaðar.

Kortavelta Íslendinga í útlöndum nam alls 6,7 mö.kr. í desember sl. Var halli á kortaveltujöfnuði, þ.e. mismunur á kortaveltu Íslendinga erlendis og veltu útlendinga hér á landi tæpir 1,7 ma.kr. sem er talsvert minna en sá rúmi 2,2 ma.kr. halli sem var í desember árið 2012. Í raun er hér um að ræða minnsta halla á kortaveltujöfnuði í desembermánuði frá upphafi, þó að desember 2008 undanskildum þegar utanlandsferðir Íslendinga voru í hálfgerðum lamasessi.

Afgangur af kortaveltujöfnuði fjórtánfaldast

nullSé tekið mið af árinu 2013 í heild nam kortavelta erlendra ferðamanna alls 91,3 mö.kr. samanborið við 74,4 ma.kr. árið á undan. Jókst kortavelta útlendinga þar með um tæp 23% að nafnvirði á milli ára sem er í ágætis samræmi við þá 21% aukningu sem var á fjölda erlendra ferðamanna. Kortavelta Íslendinga erlendis jókst mun minna, eða um 7% að nafnvirði, og nam hún alls 78,6 mö.kr. í fyrra samanborið við 73,5 ma.kr. árið á undan. Var kortaveltujöfnuður þar með hagstæður um 12,7 ma.kr., sem þýðir að gjaldeyrisinnflæði vegna greiðslukorta var að jafnaði ríflega 1 ma.kr. í mánuði hverjum í fyrra. Er hér um gríðarlega breytingu að ræða á þessum jöfnuði frá því sem áður var. Árið 2012 var afgangur af kortaveltujöfnuði upp á 910 m.kr., og þýðir það að afgangurinn var næstum fjórtánfalt meiri í fyrra en árið 2012 sem þótti þó gott ár sögulega séð. Þar á undan hafði hann bara einu sinni áður verið jákvæður, en það var árið 2009 þegar utanlandsferðir Íslendinga voru í lágmarki. Fyrir hrun var kortaveltujöfnuður hins vegar ávallt í halla, og var hallinn hvað mestur á hinu mikla einkaneysluári 2007 en þá fór hann upp í 34,6 ma.kr.

Mun meiri vöxtur utan háannartímans

nullÞegar litið er á þróunina innan ársins má sjá að kortavelta erlendra ferðamanna jókst hvað mest á fyrstu mánuðum ársins en minnst á háannartímanum, þ.e. júní-ágúst. Þannig jókst kortavelta útlendinga um 30% á fyrstu fimm mánuðum ársins á milli ára, 16% aukning átti sér stað á háannartímanum og 26% á tímabilinu september-desember. Þetta er í góðu samræmi við tölur Ferðamálastofu um brottfarir erlendra gesta, sem sýndu að erlendum ferðamönnum fjölgaði hlutfallslega mun meira utan háannartímans. Eins og við höfum fjallað um er þetta mjög jákvæð þróun, enda ætti þetta að jafna gjaldeyrisflæði til landsins og þar með dregur úr sveiflum í gengi krónunnar. Jafnframt má sjá að um 44% af allri kortaveltu útlendinga hér á landi í fyrra átti sér stað á háannartíma sem er nákvæmlega sama tala og ferðamannatölur þeirra sýndu. Er hér um að ræða lægsta hlutfall sem verið hefur á þessu tímabili, en á síðustu árum hefur það að jafnaði verið um 48%.

Metafgangur af þjónustujöfnuði?

nullSamkvæmt tölum Hagstofunnar nam afgangur af þjónustujöfnuði á fyrstu þremur ársfjórðungum 2013 rúmlega 65 mö.kr. sem er verulega umfram þann 37 ma.kr. afgang sem var árið á undan. Við gerum ráð fyrir að halli á þjónustujöfnuði geti reynst á bilinu 4-6 ma.kr. á síðasta ársfjórðungnum, en sá fjórðungur hefur ávallt komið út í halla að árinu 2010 undanskildu. Miðað við þá forsendu áætlum við að afgangur af þjónustujöfnuði hafi verið í kringum 60 ma.kr. í fyrra, og vart þarf að nefna að ef sú er raunin er um langmesta afgang að ræða af þjónustujöfnuði frá upphafi.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall