Fréttir Greiningar

Spáum 0,4% lækkun neysluverðs í janúar

17.01.2014 09:05

nullVið spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni lækka um 0,4% milli mánaða í janúar. Ef spáin gengur eftir hjaðnar verðbólga úr 4,2% niður í 3,5% þar sem VNV hækkaði um 0,3% í janúar í fyrra. Verðbólguhorfur fyrir komandi fjórðunga hafa batnað talsvert að mati okkar, enda virðast stærstu óvissuþættir í spám síðustu mánaða hafa þróast með hagfelldum hætti. Má þar nefna kjarasamninga, gengi krónu og aðhald í ríkisfjármálum. Hagstofan birtir VNV fyrir janúar kl.9:00 þann 30. janúar næstkomandi.

Styrking krónu hefur töluverð áhrif 

nullLíkt og jafnan í janúarmánuði vegast á gjaldskrárhækkanir og útsöluáhrif í spá okkar nú. Þar teljum við að útsöluáhrifin hafi vinninginn, enda hefur myndast verulegur þrýstingur á opinbera aðila jafnt sem einkaaðila að stilla gjaldskrárhækkunum í hóf. Þær munu því væntanlega verða umtalsvert minni á heildina litið en verið hefur undanfarin áramót. Við gerum ráð fyrir að útsölur á fötum og skóm vegi til u.þ.b. 0,6% lækkunar VNV, og að samtals hafi útsölur áhrif til u.þ.b. 0,7% lækkunar vísitölunnar.

nullGengisþróun krónu hefur veruleg áhrif á janúarmælingu VNV. Má þar nefna að eldsneyti lækkar um ríflega 2% (-0,13% í VNV) þrátt fyrir hækkun eldsneytisskatta um áramót. Þá hafa smásalar brugðist við gengisþróuninni og ákalli aðila vinnumarkaðar og lækkað verð ýmissa innfluttra vara á síðustu vikum. Þess utan vegur árstíðarbundin lækkun á flugi til útlanda einnig til ríflega 0,1% lækkunar á VNV í spá okkar.

Það sem helst vegur til hækkunar, auk gjaldskrárhækkana, er húsnæðisliður VNV (0,27% í VNV). Könnun okkar bendir til að reiknuð húsaleiga muni hækka um 0,8% í janúar (0,10% í VNV). Þá gerum við ráð fyrir áframhaldandi hækkun á greiddri húsaleigu auk þess sem veitugjöld hækkuðu að vanda um áramót.

Verðbólguhorfur hafa batnað

Sterkari króna og tiltölulega hófleg hækkun launa í nýgerðum kjarasamningum mun hafa jákvæð áhrif á þróun VNV næstu mánuði samkvæmt okkar spá. Þannig munu verslanir væntanlega kaupa inn nýjan varning á hagstæðara gengi eftir útsölur en útsöluvarningurinn var upphaflega keyptur inn á, og útsölulok hafa því ekki jafn sterk áhrif í spá okkar eins og verið hefur síðustu ár. Einnig síast styrking krónunnar frá nóvemberbyrjun jafnt og þétt inn í verð vara með hægari veltuhraða á næstu mánuðum.

nullVið gerum ráð fyrir 0,8% hækkun VNV í febrúar, 0,4% hækkun í mars og 0,3% hækkun í apríl. Miðað við þá spá fer verðbólga niður í 2,6% í febrúar en tekur síðan að stíga að nýju. Verður verðbólga samkvæmt spánni 2,9% í apríl, 3,0% í júní og 3,1% í árslok. Þetta eru töluvert bjartari verðbólguhorfur en við höfðum áður gert ráð fyrir á árinu 2014, og má segja að verðbólgumarkmið Seðlabankans verði innan seilingar allt árið. Við gerum í kjölfarið ráð fyrir að verðbólga aukist að nýju, og mælist 3,3% yfir árið 2015. Aukinn verðbólguþrýstingur mun væntanlega koma til af því að laun hækka hraðar eftir því sem slakinn hverfur úr hagkerfinu, íbúðaverð heldur áfram að hækka og krónan mun trúlega gefa eitthvað eftir á komandi misserum.

Verðbólguspá fyrir janúar

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall