Fréttir Greiningar

Enn aukast ítök lífeyrissjóðanna á hlutabréfamarkaði

21.01.2014 10:14

nullÍslenskir lífeyrissjóðir eiga nú um 36,6% af hlutafé íslenskra hlutafélaga á Aðallista Kauphallarinnar. Hefur hlutdeild lífeyrissjóðanna aukist allnokkuð undanfarið en í byrjun síðasta árs var hún 29,0%.

Ofangreindar tölur byggja á mati okkar miðað við hlutahafalista frá 16. janúar 2014. Um er að ræða íslensku félögin á Aðallista Kauphallarinnar að viðbættum HB Granda sem skráður verður á Aðallista síðar á þessu ári. Um útreikninga vísast til fréttar okkar í Morgunkorni frá 8. nóvember 2013. Hnykkurinn, sem sjá má á eignarhaldi lífeyrissjóðanna í lok tímabilsins, stafar af skráningu N1 en lífeyrissjóðirnir eiga um 55,2% hlut í félaginu í beinu og óbeinu eignarhaldi.

Mis atkvæðamiklir

nullEignarhald lífeyrissjóðanna er misjafnt milli félaga. Atkvæðamestir eru þeir í þeim félögum þar sem þeir komu snemma inn með kjölfestufjárfestingu. Lífeyrissjóðirnir eiga nú hlut í tveim skráðum félögum í gegnum FSÍ þ.e. Icelandair og N1. Þessar eignir verða vafalítið seldar út úr FSÍ þegar fram líða stundir líkt og verið hefur með aðrar skráðar eignir sjóðsins.Af þeim félögum sem eru á Aðallista Kauphallarinnar eiga lífeyrissjóðirnir minnst í VÍS. Hugsanlegt er að þeir verði meðal kaupanda þegar 31% hlutur Klakka ehf. verður seldur. Spurn þeirra eftir bréfum í VÍS kann þó að einhverju leiti að stjórnast af því hvað þeir eiga nú þegar í TM og Sjóvá en Samkeppniseftirlitið hefur lýst því yfir að það hafi takmarkaða þolinmæði fyrir eignarhaldi aðila í félögum í samkeppni.

Þróun eignarhalds misjöfn

nullLitlar sviptingar hafa verið á eignarhaldi lífeyrissjóðanna í einstaka félögum. Í flestum tilfellum hefur eignarhluti þeirra aukist í hægum takti. Undantekningin á þessu var stökk í eignarhluta þeirra í Reginn í júní 2013 þegar Landsbankinn seldi 25% hlut í félaginu. Þá má sjá nokkuð hraðan vöxt í eignarhaldi lífeyrissjóðanna í Eimskip og VÍS í kjölfar skráningar en sjóðirnir fengu litla úthlutun í frumútboðum þessara félaga.

Framboð á árinu

Ýmsir hafa viðrað áhyggjur af því að talsvert ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna muni setja þrýsting á markaðsálag hlutabréfa á árinu. Er þá litið til takmarkaðs framboðs fjárfestingarkosta. Á síðustu mánuðum hefur þó heldur rofað til í væntu framboði fyrir árið, bæði á skulda- og hlutabréfamarkaði. Ef litið er einungis til hlutabréfamarkaðar þá má búast við skráningu allt að sex félaga; Sjóvá, Eik fasteignafélags, Reita, Promens, HB Granda og Skipta. Samanlagt markaðsvirði þessara félaga liggur líklega nærri 200 mö.kr. Það er þó ekki svo að þessi fjárhæð svari til nýs framboðs til lífeyrissjóðanna, þannig á FSÍ, sem er í um 72% eigu lífeyrissjóðanna, helmings hlut í Promens. Að auki vitum við að lífeyrissjóðirnir eiga töluverðan hlut í Sjóvá, Reitum, Eik og Skiptum. Lífeyrissjóðirnir eiga aftur aðeins lítinn hlut í HB Granda eða 2,6% sbr. teikning hér að ofan.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall