Fréttir Greiningar

Beta-gildið fræga - flökt í arðsemi skráðra félaga

29.01.2014 09:10

Við útreikning á kröfu til eigin fjár er mjög algengt að notast sé við svokallað CAPM aðferð. Sú aðferð gengur út á að verðleggja áhættu eigin fjár, kölluð E(r). Aðferðin tekur tillit til hverjir áhættulausir vextir eru, hvert markaðsálagið er og hvernig viðkomandi hlutabréf er líklegt til að hegða sér samanborið við markaðinn í heild sinni. Formúlan er E(r)= R(f) + beta*[ R(m) – R(f) ]. Hér stendur R(f) fyrir áhættulausa vexti og R(m) fyrir markaðsávöxtun.

Oftast er litið á niðurstöðu þess sem sett er í hornklofann, [ R(m) – R(f) ], sem ígildi markaðsálags hlutabréfa. Markaðsálagið er það auka álag sem fjárfestir vill fá fyrir það að taka þá áhættu að fjárfesta í hlutabréfum í stað áhættulausra ríkisskuldabréfa.

Það er beta-gildið sem ræður því hvert hið raunverulega markaðasálag er fyrir hvert einstakt félag. Það sem ákvarðar beta gildið er flökt í arðsemi viðkomandi hlutabréfs umfram það sem almennt mætti vænta af hlutabréfamarkaðnum í heild sinni. Beta gildið hefur því mikil áhrif á þá ávöxtunarkröfu sem gerð er til hlutabréfs.

Hvert er eðlilegt markaðsálag?

Það er hægt að hafa ýmsar skoðanir á því hvað teljist vera „markaðurinn“ og hvað teljist eðlilegt markaðsálag. Það hefur verið nokkuð samhljóða skoðun greinenda á hlutabréfamörkuðum, og þá ekki einungis hér á Íslandi heldur einnig erlendis, að markaðsálagið sé í kringum 5,0%. Það gildi er meðaltal umframarðsemi hlutabréfamarkaða í OECD löndunum yfir lengri tíma. Markaðir sem í sjálfu sér eru óþroskaðir eða einstaklega áhættusamir fá á sig hærra markaðsálag en aðrir.

Hvert er beta gildið?

nullHægt er að fá upplýsingar um beta gildi úr mörgum gagnasöfnum. Önnur aðferð til að nálgast gildið er hreinilega að reikna beta gildið miðað við skilgreindan markað þar sem beta gildið er í raun ekkert annað en frávik í tölfræðilegri dreifni arðsemi viðkomandi félags miðað við markaðinn. Gæta verður þess að ekki er nóg að horfa einungis til þess hvert tölugildi beta er úr slíkum útreikningi, heldur þarf einnig að horfa  til þess hver samfylgnin er milli „markaðarins“ og hlutabréfsins sjálfs.

Beta gildi sem er vel undir 1 gæti gefið til kynna að dreifni arðseminnar sé minni en markaðarsins í heild sinni eða hreinlega að dreifnin á arðseminni hreyfist ekki með markaðnum. Á þessu eru mikill munur.

Við sýnum því í útreikningum okkar útskýringarmátt runu heildararðseminnar á móti arðsemi viðkomandi hlutabréfs. Útskýringarmátturinn er mældur sem R2 þar sem lágt tölugildi þess gefur til kynna lítinn útskýringarmátt. Sú mæling segir okkur í raun hversu vel runa af arðsemistölum heildarmarkaðarins skýrir runu af arðsemi (verðbreytingu) viðkomandi hlutabréfs. Við höfum tekið saman raunverulegt flökt á arðsemi 8 félaga sem skráð eru á Aðallista Kauphallarinnar.

Við höfum undanskilið í útreikningi okkar færeysku félögin sem og Nýherja og Össur. Öll félög hafa svo óskilvirka verðmyndun að ekki er tölfræðilega mögulegt að hafa þau inni í slíkum útreikningum. Við höfum einnig undanskilið N1 í útreikningum okkar þar sem félagið er nýkomið á hlutabréfamarkað og ekki margtæk gögn til um flökt í arðsemi þess félags að svo stöddu.

Við höfum brugðið máli á beta útreikning félaganna 8 út frá tveimur mismunandi skilgreiningum á hver „markaðurinn“ er. Skilgreining á markaðnum er mjög mikilvæg, því að mæling á beta gildi, er í raun mæling á samspili dreifingar á flökti í daglegum verðbreytingum viðkomandi félags borið saman við „markaðinn“ sjálfan. Við höfum skilgreint markaðinn sem samtölu þeirra 8 félaga sem við reiknuðum. Þau eru, Marel, Icelandair, Hagar, Reginn, Eimskip, Vodafone, VÍS og TM. Hlutfallsleg verðbreyting þessara félaga hefur verið reiknuð í hlutfalli við daglegt markaðsverðmæti þeirra. Verðbréfasafn sem sífellt væri með markaðsvogun, myndi  yfir heilt ár skila nákvæmlega sömu arðsemi og okkar útreikningur yfir sama tímabil skilar. Sá útreikningur er borin saman við flökt í daglegum verðbreytingum viðkomandi hlutabréfs.

Við höfum samhliða ofangreindum útreikningi, notað vísitölu Greiningar Íslandsbanka, K-90, sem ígildi skilgreiningar á „markaðnum“.  Við leggjum þó meira upp úr þeirri niðurstöðu þegar markaðsvogun af heildarmarkaðnum er notuð sem viðmið. 

Hvernig má túlka niðurstöðurnar?

nullFyrirfram hefði mátt búast við háu beta gildi hjá félagi þar sem verðhreyfingar í hlutabréfum félagsins eru öfgafyllri en hreyfingar markaðarins. Þannig er það t.d. með Vodafone þar sem mikið flökt hefur verið á hlutabréfaverði félagsins. Niðurstaðan leiðir hins vegar í ljós lágt beta gildi. Er þá litið til R2 en eins og sést er skýringarmátturinn nánast enginn þ.e. verð félagsins hreyfist einfaldlega ekki með markaðnum.

Niðurstöður um beta gildin hér að ofan eru punktstöður miðað við 12 mánaða verðþróun. Leiðrétt hefur verið fyrir arðgreiðslum þar sem það á við þannig að um er að ræða raunarðsemi.
Við vekjum athygli á því að punktstaðan ein og sér segir ekki endilega alla söguna. Hugsanlega getur verið áhugaverðara að skoða hvernig þróun 12 mánaða beta gildis hefur verið yfir ákveðinn tíma. 

nullVið höfum hér tekið saman verðþróun og samanburð gengis Icelandair og einnig Marel við K-90 vísitölunnar, sem og hvernig beta gildi Icelandair og Marel hefur þróast frá og með janúar 2013.   K-90 vísitalan og gengi beggja félaga var sett í 100 stig miðað við síðasta viðskiptadag ársins 2012.
Eins og myndirnar  bera með sér þá hefur beta gildið miðað við 12 mánaða verðþróun verið að hækka hjá Icelandair en beta gildi Marel hefur verið nokkur stöðugt.

Eins og sjá má í takmörkuðum skýringarmætti beta gildisins hjá fjölda félaga er óheppilegt að nota reiknuð beta gildi í verðmatsútreikningum íslenskra félaga. Af þessum sökum er heppilegt að líta til erlendra gagnasafna sem innihalda upplýsingar um hvernig hver geiri er líklegur til að hreyfast með markaðnum í stað þess að horfa til raunflökts í arðsemi hjá einstökum félögum.  

nullVið höfum einnig tekið saman fylgni (e. correlation) milli félaganna sem til skoðunar eru.   Við höfum litað tölugildin með litaðri súlu sem stækkar við hækkandi tölugildi. Þannig sést fylgni í arðsemi milli einstakra félaga. 

Ef um væri að ræða samsetningu einstakra félaga í verðbréfasafni þar sem óskað væri eftir ákveðnu samspili milli þeirra eininga sem í safninu yrði, þá yrði horft til þessa sambands.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall