Fréttir Greiningar

Góður afgangur af vöruskiptum í janúar

05.02.2014 11:52

nullÁrið 2014 fer vel af stað hvað vöruskipti varðar. Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands fyrir janúarmánuð, sem birtar voru nú í morgun, var um 7,3 ma.kr. afgang að ræða í mánuðinum. Þetta er aðeins meiri afgangur en var að jafnaði í mánuði hverjum í fyrra, og er skýringin fyrst og fremst rýr innflutningur, enda var verðmæti útflutnings með minna móti í janúar.

Krónan segir sitt

Alls voru fluttar inn vörur fyrir 40,9 ma.kr. í janúarmánuði, og hefur innflutningur ekki verið minni í krónum talið síðan  í ágúst árið 2012. Í krónum talið var verðmæti innflutnings rúmlega 9% minna en það var að jafnaði á síðasta ári, en að teknu tilliti til gengisáhrifa var munurinn minni, eða rúm 5%. Er því ljóst að áhrif krónunnar eru mjög mikil enda hefur þróunin nú að undanförnu verið verulega hagstæð hvað innflutning varðar. Má hér nefna að í janúar síðastliðnum var krónan að jafnaði rúmlega 11% sterkari en hún var í sama mánuði í fyrra.

Iðnaðarvörur vega upp lítinn fiskútflutning

nullVerðmæti útflutnings nam alls 48,3 mö.kr. í janúar sem er með minna móti í krónum talið miðað við síðasta ár, eins og áður segir. Sé hins vegar tekið tillit til gengisáhrifa þá má segja að útflutningur hafi verið svipaður og hann var að jafnaði í fyrra, endar munar miklu um fyrrnefnda þróun krónunnar. Það sem kemur einna helst á óvart í tölum Hagstofunnar um útflutning er hversu hátt útflutningsverðmæti iðnaðarvara var í janúar þar sem álverð á heimsmarkaði hefur hríðlækkað að undanförnu, líkt og það hefur í raun gert nánast stöðugt allt frá því í maí 2011.

nullAlls námu útfluttar iðnaðarvörur 27,8 mö.kr. sem er talsvert meira en flutt var að jafnaði í mánuðum hverjum síðasta árið. Að jafnaði kostaði tonnið af áli 1.770 Bandaríkjadollara í janúar síðastliðnum samanborið við 1.890 dollara að jafnaði árið 2013. Má jafnframt geta þess að nú í vikunni skreið tonnið af áli undir 1.680 dollara og hefur álverð ekki verið lægra síðan um miðjan júlí árið 2009. Þessi þróun á álverði var ein meginástæða þess að útflutningsverðmæti dróst saman á milli ára í fyrra. Samkvæmt sérfræðingum í samantekt fréttaveitunnar Reuters er útlit fyrir að álverð muni taka við sér þegar líður á árið, og tonnið kosta að meðaltali 1.840 dollara í ár og 1.984 dollara á næsta ári.

Þá var útflutningur sjávarafurða með minna móti í janúar, líkt og oft er raunin í þessum mánuði. Voru fluttar út sjávarafurðir fyrir 17,9 ma.kr. í mánuðinum, sem er minnsti útflutningur í krónum talið síðan í maí í fyrra. Líklegt er að útflutningur sjávarafurða taki við sér með hækkandi sól líkt og undanfarin ár, og mun það þá hafa jákvæð áhrif á vöruskiptajöfnuð.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall