Fréttir Greiningar

Rúm lausafjárstaða lífeyrissjóða

11.02.2014 10:24

Lausafjárstaða lífeyrissjóða er enn mun rýmri en hún var að jafnaði fyrir hrun. Rúm lausafjárstaða gæti leitt til þess að eignasala sjóðanna samfara auknum erlendum fjárfestingum eftir losun hafta verði mun minni en ella. Í desember námu sjóðir og bankainnistæður lífeyrissjóða 6,2% af hreinni eign til greiðslu lífeyris. Þetta hlutfall er mun hærra en það var fyrir hrun þegar hlutfallið var yfirleitt í kringum 2%. Er þetta áhugavert þegar haft er í huga að tryggingarfræðilegt uppgjörsviðmið lífeyrissjóðanna nemur 3,5% raunávöxtun en slík ávöxtun fæst tæpast af lausum innstæðum í dag. Af þessu má draga þá ályktun að sjóðirnir sjái ekki arðsöm fjárfestingartækifæri fyrir í kringum 4% af hreinni eign til greiðslu lífeyris. Gnóttstaða sjóðs bendir því síst til þess að sjóðirnir fari sér geyst í óarðsömum fjárfestingum líkt og þeir eru gjarnan sakaðir um.

200 ma.kr. hugsanlega úr landi – rúmlega helming mætti losa úr sjóðsstöðu

nullEf erlendar eignir eru skoðaðar í hlutfalli af hreinni eign til greiðslu lífeyris má sjá að hlutfall erlendra bréfa hefur haldist að jafnaði í rúmum 20% síðustu ár. Sú staðreynd að lífeyrissjóðirnir hafa náð að halda þessu hlutfalli, þrátt fyrir engar erlendar nýfjárfestingar, minnkar heldur þrýsting vegna sjóðanna við afnám fjármagnshafta.

Á árunum fyrir hrun var að jafnaði um 30% af hreinni eign til greiðslu lífeyris fjárfest erlendis. Líti sjóðirnir á það sem æskilegt hlutfall erlendra fjárfestinga til framtíðar má reikna með að um 200 ma.kr. myndu leita úr landi við afnám fjármagnshafta. Áhugavert er að líta á þessa stærð í samanburði við stöðu bankainnistæða og sjóðs. Ef sjóðsstaða leitaði aftur í þau 2% sem hún var í fyrir hrun standa þar 113 ma.kr. lausir á móti hinum fyrrgreindu 200 mö.kr. Losun fjármagnshafta þarf því, litið til þessa, ekki að hafa eins víðtæk áhrif á eignamarkaði og annars yrði. Þar ber einnig að hafa í huga að líklegt er að lífeyrissjóðunum, líkt og raunar öðrum fjárfestum, verði settar skorður við því hversu hratt þeir geta aukið við eignir sínar erlendis. Má þar nefna að í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) sem út kom í fyrra var stungið upp á fjárhæðartakmörkunum, t.d. 1 ma. Bandaríkjadollara á ári, á gjaldeyriskaup vegna verðbréfafjárfestinga eftir losun gjaldeyrishafta.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall