Fréttir Greiningar

Harðari vaxtahækkunartónn en vænst var

12.02.2014 12:02

nullEkki kom á óvart að peningastefnunefnd Seðlabankans hafi ákveðið að að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum að þessu sinni. Er það í takti við okkar spá og annarra. Hitt kemur hins vegar á óvart að bankinn er að herða vaxtahækkunartóninn, og er það þvert á það sem við höfðum reiknað með. Virðist harðari tónn bankans fyrst og fremst vera sóttur í talsvert bjartsýna spá bankans um hagvöxt á næstu tveim árum, sem leiðir til aukinnar verðbólgu eftir þetta ár.

Skuldaaðgerðir stjórnvalda kalla á hærri stýrivexti

Bankinn spáir nú talsvert meiri hagvexti á næstu tveim árum en hann gerði í sinni fyrri spá. Það sem helst skýrir væntingar bankans um aukinn hagvöxt er talsvert aukinn vöxtur einkaneyslu á tímabilinu, sem aftur er að miklu leyti sóttur í mat bankans á áhrifum af aðgerðum stjórnvalda til lækkunar húsnæðisskulda heimilanna.  Samkvæmt mati bankans verður einkaneyslan ríflega 1,5 prósentu meiri á þessu og næsta ári vegna aðgerðanna. Segir bankinn að stýrivextir þurfi að vera 0,8 prósentustigum hærri eftir tvö ár en ella vegna skuldaleiðréttingarinnar.   

Talsvert meiri hagvöxtur næstu tvö ár en í fyrri spá

nullEkki kemur á óvart að bankinn er að hækka hagvaxtaráætlun sína fyrir síðastliðið ár. Hitt er hins vegar óvænt að þeir eru að reikna með því að hagvöxtur aukist á næstu tveim árum og að slakinn hverfi fyrr en áður var reiknað með. Kemur þar sérstaklega á óvart að þeir eru enn að gera ráð fyrir að álverið í Helguvík verði reist á tímabilinu, og ekki síst í ljósi þróunar álverðs síðustu mánuði. Reiknar Seðlabankinn nú með 3,7% hagvexti á næsta ári en reiknaði áður með 2,8%, og 3,0% hagvexti er spáð árið 2016 en var áður 2,0%. Eru þeir að hækka verulega spár sínar um vöxt einkaneyslu bæði árin og vöxt fjármunamyndunar á árinu 2016.

Verðbólga við verðbólgumarkmiðið í ár

nullVerðbólguspá bankans er að þróast í takti við það sem við væntum, þ.e. bankinn er að lækka hana til skemmri tíma og segir að verðbólgan á þessu ári verði nálægt markmiði. Spá þeir 2,6% verðbólgu á fjórða fjórðungi svo dæmi sé tekið. Hitt er einnig í takti við okkar verðbólguspá sem Seðlabankinn spáir í nýrri verðbólguspá sinni, þ.e. að verðbólgan muni aukast á næsta og þarnæsta ári. Reikna þeir þannig með 3,5% verðbólgu yfir næsta ár og 3,0% yfir árið 2016. Áður spáðu þeir 2,7% og 2,5% á þessum árum.

Harðari vaxtahækkunartónn

Nokkuð harðari vaxtahækkunartónn er í yfirlýsingu nefndarinnar en við reiknuðum með. Segir í yfirlýsingunni að samkvæmt verðbólguspá bankans munu nafnvextir hans að óbreyttu þurfa að hækka þegar nær dregur því að framleiðsluslaki snúist í spennu. Samkvæmt grafi yfir framleiðsluspennu í Peningamálum mun slaki snúast í spennu í kring um áramótin 2014-2015.

Styður spá okkar um hækkun stýrivaxta á næsta ári

Tóninn í peningastefnunefndinni, ásamt hinni nýju spá Seðlabankans, rennir stoðum undir þá spá okkar að stýrivextir verði hækkaðir á spátímabilinu. Erum við að reikna með 0,75 prósentustiga hækkun fram til loka árs 2016. Höfum við tímasett þær hækkanir þannig að vextir bankans yrðu óbreyttir í ár, enda slakinn enn nokkur í hagkerfinu og verðbólgan nálægt verðbólgumarkmiðinu ásamt því að raunstýrivextir hafa hækkað hratt undanfarið samhliða hjaðnandi verðbólgu. Slakinn á þann mælikvarða er því nánast horfinn úr peningastefnunni. Spá bankans fyrir næstu tvö ár rennir enn sterkari stoðum undir þá spá okkar að við munum sjá vaxtahækkanir á þeim tíma.

Ef ný þjóðhags- og verðbólguspá Seðlabankans rætist er hugsanlegt að vaxtahækkanir á næstu tveimur árum verði meiri en við höfum reiknað með. Við erum hins vegar nokkuð svartsýnni á hagvaxtarhorfur á tímabilinu. Við reiknum þannig með að það sé lengra í að slakinn hverfi úr hagkerfinu.  
 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall