Fréttir Greiningar

Verðbólga undir markmið Seðlabankans í febrúar

14.02.2014 11:00

nullVið spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,8% á milli mánaða í febrúar. Gangi spáin eftir hjaðnar verðbólga úr 3,1% niður í 2,3%, enda hækkaði VNV um 1,6% í febrúar í fyrra. Verðbólga fer samkvæmt því rétt undir verðbólgumarkmið Seðlabankans í mánuðinum og hefur þá ekki verið minni frá mars 2011.

Verðbólguhorfur fyrir yfirstandandi ár eru allgóðar, en í kjölfarið gerum við ráð fyrir að verðbólga aukist að nýju samhliða vaxandi umsvifum í hagkerfinu. Verðbólga verður þó mun minni næstu ár en hún hefur að jafnaði verið frá því verðbólgumarkmið var tekið upp, gangi spáin eftir. Hagstofan birtir VNV fyrir febrúar kl. 09:00 þann 27. febrúar næstkomandi.

Útsölulok og flugfargjöld helstu hækkunarvaldar

nullÚtsölulok hafa veruleg áhrif til hækkunar VNV nú eins og endranær í febrúarmánuði. Við gerum ráð fyrir að fataliður vísitölunnar hafi áhrif til 0,27% hækkunar hennar í mánuðinum, og að viðbættum öðrum liðum eru heildaráhrif útsöluloka til u.þ.b. 0,4% hækkunar VNV. Áhrif útsölulokanna eru raunar heldur vægari en ella vegna styrkingar krónunnar undanfarna mánuði, sem leiðir til þess að nýjar vörur eru keyptar til landsins á lægra verði en hinar eldri.

Þá teljum við að flugfargjöld til útlanda muni hækka umtalsvert eftir mikla lækkun í janúar (0,21% í VNV). Auk þess má nefna að eldsneytisverð hefur hækkað nokkuð frá síðustu mælingu (0,05% í VNV).

Á móti er útlit fyrir að fasteignaliður VNV hafi minni áhrif til hækkunar en verið hefur síðustu mánuði og bráðabirgðaspá okkar gerði ráð fyrir. Upplýsingar af markaði benda til þess að reiknuð húsaleiga hækki um 0,2% í mælingunni nú, sem er minnsta hækkun frá október síðastliðnum. Í heild hækkar húsnæðisliðurinn um 0,14% (0,04% í VNV) samkvæmt spá okkar. Þá hefur styrking krónu almennt áhrif til þess að innfluttar vöru hækka hægar en ella, eða lækka jafnvel lítillega.

Hófleg verðbólga á þessu ári, en meiri næstu ár

nullStyrking krónu frá nóvemberlokum og fremur hófleg hækkun launa hjá u.þ.b. helmingi launþega á almennum vinnumarkaði mun hafa jákvæð áhrif á þróun VNV næstu mánuði samkvæmt spá okkar. Innflutningsverð á varningi og hráefnum til innlendrar framleiðslu hefur væntanlega lækkað nokkuð, og skilar það sér jafnt og þétt inn í komandi mælingar VNV.

Við gerum ráð fyrir 0,3% hækkun VNV í mars, 0,3% hækkun í apríl og 0,2% hækkun í maí. Samkvæmt því verður 12 mánaða verðbólga 2,7% í maí næstkomandi. Það sem eftir lifir árs verður verðbólga á bilinu 2,5% - 3,0% og mun mælast 2,7% í árslok miðað við spána.

Í kjölfarið gerum við ráð fyrir að verðbólga aukist nokkuð. Spáum við 3,4% verðbólgu yfir árið 2015 og 3,8% verðbólgu yfir árið 2016. Vaxandi verðbólga helst í spánni í hendur við vaxandi efnahagsumsvif þar sem við gerum ráð fyrir að laun og íbúðaverð hækki hraðar eftir því sem á spátímann líður, auk þess sem í spánni er gert ráð fyrir nokkurri gengisveikingu krónu á næstu árum. Verðbólga næstu ár verður þó samkvæmt spánni töluvert undir því sem hún hefur að jafnaði verið frá upptöku verðbólgumarkmiðs árið 2001, en meðaltal verðbólgu frá þeim tíma er 5,8%.

Verðbólguspá fyrir febrúar

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall